Só sorrí

Í mánuðnum sem er að líða hefur íslenska þjóðin fengið formlegt bréf frá tveimur útrásarvíkingum, þeim Jón Ásgeiri Jóhannessyni og Björgólfi Thor Björgólfssyni. Nánast ekkert hefur heyrst frá þessum mönnum eftir bankahrun og því má velta því fyrir sér hver hafi verið tilgangurinn með þessum bréfaskriftum þeirra.

Í mánuðnum sem er að líða hefur íslenska þjóðin fengið formlegt bréf frá tveimur útrásarvíkingum, þeim Jón Ásgeiri Jóhannessyni og Björgólfi Thor Björgólfssyni. Nánast ekkert hefur heyrst frá þessum mönnum eftir bankahrun og því má velta því fyrir sér hver hafi verið tilgangurinn með þessum bréfaskriftum þeirra.

Björgólfur Thor birti grein sína í Fréttablaðinu, 14. apríl sl. undir yfirskriftinni “Ég bið ykkur afsökunar.” Eins og titill greinarinnar gefur til kynna biður hann íslensku þjóðarinnar afsökunar á sínum þætti í eigna- og skuldabólunni sem leiddi til íslenska bankakerfisins. Hann biðst einnig afsökunar að hafa ekki tekið mark á þeim hættumerkjum sem hrönnuðust upp og hafa ekki fylgt sínu hugboði. Björgólfur sakar sjálfan sig um dómgreindarleysi í greininni, bæði við hina mikla skuldsetningu fyrirtækja sinna og ábyrgð sína gagnvart íslensku viðskiptalífi.

Jón Ásgeir Jóhannesson fylgdi rúmri viku síðar og birti grein í Fréttablaðinu undir yfirskriftinni “Missti sjónar á góðum gildum.” Í greininni skýrir Jón Ásgeir frá því að undanfarin tólf ár hafi hann reynt að byggja upp fyrirtæki sem hann hefði verið stoltur af, sumt hafi tekist mjög vel á þessum tíma en annað hafi mistekist. Jón Ásgeir viðurkennir hinsvegar að hafa farið of geyst og hafa ekki dregið seglin saman nógu hratt þegar kreppan skall á. Hann viðurkennir að hann hefði átt að gera betur og lofar íslensku þjóðinni því að gera allt í sínu valdi til að bæta upp fyrir mistökin og vera hluti af því að reisa íslensku þjóðina aftur upp.

Það er ekki hægt að þræta fyrir það að báðar greinarnar eru ákaflega vel skrifaðar og hefur því verið haldið fram að þeir félagar hafi fengið færa menn til að liðsinna sér við skrifin. Grein Björgólfs virðist þó vera einlægri þar sem hann biðst afsökunar og iðrast gjörða sinna. Enga afsökunarbeiðni er að finna í grein Jóns Ásgeirs og má finna merki um mun meiri hroka í þeirri grein.

En hver ætli sé tilgangurinn með því að birta slíkar greinar til íslensku þjóðarinnar? Eflaust eru þeir að byrja að vinna í því að bæta ímynd sína og með því að reyna að réttlæta það að þeir reki fyrirtæki sín áfram, þrátt fyrir að hafa keyrt þau mörg hver í þrot . Ímynd þeirra hefur beðið mikla hnekki og sérstaklega eftir útgáfu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem staðfestir allar þær sögusagnir og fréttir sem hafa birst af sukki, blekkingum og misnotkun á aðstæðum sem voru í íslensku viðskiptalífi.

Síðan er spurning hvort að íslenska þjóðin taki við þessum boðskap og trúi honum. Trúi hvort að Björgólfur og Jón Ásgeir séu einlægir í bréfum sínum og meini það sem þeir skrifa. Þeir hafa notfært sér auðtrú íslensku þjóðarinnar áður og af hverju ættu þeir ekki að reyna það aftur. Það er ljóst að íslenska þjóðin vill fá meira frá þessum mönnum en afsökunarbeiðni og viðurkenningu á því að þeir hefðu átt að gera betur.

Þessi greinaskrif eru þó skref í rétta átt og nú er tækifæri þessara manna að reyna að byrja að bæta upp fyrir mistök sín, reyni að borga sínar skuldir og gera upp við íslensku þjóðina.

Latest posts by Jan Hermann Erlingsson (see all)