Flokkur í afneitun

Nú eru liðnar tæpar tvær vikur frá útgáfu skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Mönnum hefur því gefist tækifæri til að kynna sér meginefni skýrslunnar og bregðast við. Flestir hafa því miður brugðist við með því að benda á aðra og eru flokkssystkini mín í Sjálfstæðisflokknum þar engin undantekning.

Nú eru liðnar tæpar tvær vikur frá útgáfu skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Mönnum hefur því gefist tækifæri til að kynna sér meginefni skýrslunnar og bregðast við. Flestir hafa því miður brugðist við með því að benda á aðra og eru flokkssystkini mín í Sjálfstæðisflokknum þar engin undantekning.

Algeng viðbrögð Sjálfstæðismanna eru eitthvað á þessa leið: „Við gerðum mistök og öxlum ábyrgð á þeim en meginsökin liggur hjá stjórnendum bankanna og gölluðu regluverki ESB.“. Með öðrum orðum: „Við öxlum ábyrgð á því að vera bara mannleg en þetta var samt allt einhverjum öðrum að kenna.“. Þetta stenst þó ekki skoðun. Lítum nánar á þessa meintu sökudólga:

1. Regluverk ESB: Það er einstaklega þægilegt að kenna reglum sem útlendingar skrifuðu um ófarir okkar Íslendinga. Rannsóknarnefndin skoðaði þetta atriði hins vegar sérstaklega og komst að annarri niðurstöðu. Í skýrslunni (5. bindi, kafli 15.7) segir m.a. um tilskipanir ESB:

„Tilskipanirnar bönnuðu hins vegar aðildarríkjunum ekki að viðhalda eða setja strangari reglur en þar var kveðið á um gagnvart lánastofnunum í viðkomandi heimaríki“ … „hér á landi var almennt ekki valin sú leið að nota það svigrúm sem leiðir af gerðunum, þ.m.t. tilskipunum, til að setja strangari reglur um starfsheimildir fjármálafyrirtækja.“

Það var því á valdi stjórnvalda að herða reglur um fjármálafyrirtæki en þau kusu að gera það ekki.

2. Bankarnir: Ekki er síður þægilegt að kenna óvinsælum bankamönnum um. Því verður ekki mótmælt að stjórnendur bankanna áttu sök á því að bankarnir fóru í þrot. Það versta sem gerðist hér á landi haustið 2008 var hins vegar ekki að nokkrir bankar fóru á hausinn, heldur að þeir drógu nánast allt þjóðfélagið með sér.

Í afar einfölduðu máli má segja að helsta hlutverk stjórnenda einkarekins banka sé að hækka virði hans eins og unnt er. Þetta er gert með því að stækka bankann og einfaldast er að gera það með því að skuldsetja hann sem mest. Hlutverk stjórnvalda og eftirlitsaðila er hins vegar að sjá til þess að bankarnir fari að lögum og að vöxturinn verði ekki hættulega mikill svo öll þjóðin þurfi ekki að líða fyrir það ef stjórnendur banka reynast ekki starfi sínu vaxnir. Ljóst er að eftirlitsaðilar og stjórnvöld brugðust þessu hlutverki sínu fullkomlega. Miðað við hverjir stjórnuðu landinu á þessum árum hlýtur Sjálfstæðisflokkurinn að bera þar mesta ábyrgð.

Allt frá efnahagshruni hafa Sjálfstæðismenn streist á móti því að leggjast í nauðsynlega sjálfsskoðun. Á síðasta Landsfundi var vandaðri skýrslu Endurreisnarnefndar stungið undir stól eftir dæmalausa ræðu fyrrverandi formanns. Í kjölfar skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis var gerð aðför að varaformanni flokksins og hún neydd til að segja af sér. Ekki af því að hún var ein valdamesta manneskjan í ríkisstjórn sem brást þjóð sinni, heldur vegna þess að eiginmaður hennar skuldaði svo mikinn pening. Það er því varla hægt að draga aðra ályktun en að margir flokksmenn séu enn í afneitun varðandi ábyrgð Sjálfstæðisflokksins á þeirri stöðu sem nú er uppi. Traust þjóðarinnar verður ekki unnið aftur meðan svo er.

Latest posts by Ingvar Sigurjónsson (see all)