Sjaldan er annar fullkominn hálfviti þegar tveir deila

Skynsamleg hagstjórn í alvarlegri niðursveiflu felst ekki í skattahækkunum sem letja bæði neyslu og fjárfestingu. Þetta hljóta ráðherrar ríkisstjórnarinnar að vita, en hafa samt valið að fara einmitt slíka leið. Skýringin felst líklegast í himinháum skuldum hins opinbera sem setja hagstjórninni verulegar hömlur. En skuldirnar eru ekki nema að hluta til komnar vegna hallareksturs ríkissjóðs. Hvað eru þá skattahækkanirnar á þjóðina að fjármagna? Svarið við þessu, og miklu fleira, í pistli dagsins.

Það kom í ljós á dögunum, sem flestir voru líklegast búnir að gera sér grein fyrir, að neysla og fjárfesting drógust verulega saman á Íslandi árið 2009. Orsakir þessa eru auðvitað margvíslegar, en í grunninn til er vandamálið sem stjórnvöld glíma við ekki flóknara; það þarf að keyra neyslu og fjárfestingu í þjóðfélaginu í gang.

Einfaldasta leiðin er að lækka skatta með þeim hætti að skattkerfið hvetji til neyslu og fjárfestingar, t.d. með lægri tekjusköttum og ívilnandi afslætti á fjárfestingu. Tekjuskerðingin sem hið opinbera yrði fyrir myndi leiða til hallareksturs, sem ríkið ætti að fjármagna með lántöku sem síðan yrði greidd niður þegar betur árar. Þannig dreifum við áfallinu af kreppunni yfir lengra tímabil.

Í stað þessa hafa stjórnvöld ákveðið að fara þveröfuga leið, sem bæði er líklegri til að dýpka kreppuna og lengja, og valda hagkerfinu skaða. Það er þó barnaskapur að halda að annarlegar hvatir liggi þar að baki.

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru hvorki illgjarn né illa gefinn hópur af fólki (þó hægrivinir mínir á Feisbúkk og einsleitur hópur bloggara og smáfugla tali stundum á slíkum nótum). Reyndar held ég að hið þveröfuga sé nær lagi, þó ég sé oftar ósammála ráðherrunum en ekki. Til dæmis held ég að þeir geri sér fullkomlega grein fyrir þeim vanda sem íslenska hagkerfið er statt í, og ég held að þeir hljóti líka að gera sér grein fyrir því að skattahækkanir og niðurskurður opinberra útgjalda eru banvænn kokteill gagnvart vandanum. Hvað veldur þá þeirri stefnu sem ríkisstjórnarfleyið hefur ákveðið að sigla?

Hvort sem það er rétt metið eða ekki, þá telja ráðherrarnir líklegast að hagstjórnin strandi þessa stundina á ógurlegri skuldsetningu íslenska ríkisins, sem nú nemur um 130% landsframleiðslu. Það þykir ekki svigrúm fyrir frekari hallarekstur, og þar með ekki fyrir lægri skatta. Hvað er það þá sem skattahækkanirnar eru að fjármagna, hverjar eru ástæður þessarar miklu skuldsetningar fyrst hún er ekki eingöngu til að fjármagna hallarekstur?

Ef marka má opinberar tölur eru ástæðurnar þessar helstar: †

Skuldsetning vegna gjaldeyrisforða þjóðarinnar nemur 32% landsframleiðslu.
Kostnaðurinn við hallarekstur ríkissjóðs 2009-2012 nemur 26%.
Endurfjármögnun Seðlabanka Íslands nemur 17%.
Icesave málið nemur 14%.
Endurfjármögnun íslenska bankakerfisins nemur 11%.

Öfugsnúin hagstjórn ríkisstjórnarinnar er semsgat ekki henni einni að kenna – heldur einnig kolómögulegum gjaldmiðli, mistökum embættismanna í Seðlabankanum og ýmis konar mistökum í fjármálageiranum, bæði hjá opinberum- og einkaaðilum. Sök þessara vandamála er ekki eingöngu að finna hjá ríkisstjórninni, þó reyndar telji ég að ríkisstjórnin fari ekki rétta leið að lausn þeirra. Það er kannski rétt að vinstristjórnin sé ein sprungan í pottinum, en það er alveg ljóst að hann er miklu víðar brotinn.

†Ef umfang þessara mála væri talið í dálksentimetrum blaða og mínútum fréttaútsendinga litu hlutföllin líklegast allt öðruvísi út.

Latest posts by Hafsteinn Gunnar Hauksson (see all)