Nú þegar sveitastjórnarkosningar nálgast og prófkjör stjórnmálaflokkanna eru farin á fullt, er gósentíð hjá áhugamönnum um félagssálfræði og mannlega hegðun almennt. Í prófkjörum skiptast á skin og skúrir líkt og í öðrum kapphlaupum. Þegar úrslit liggja fyrir keppast stjórnmálamenn við að lofsyngja góða frammistöðu sína eða finna ótrúlegustu útskýringar á slæmu gengi. Þessi hegðun stjórnmálamanna er gott dæmi um hugsanavillur, sem allir beita til að sjá heiminn eins og við viljum sjá hann.
Félagssálfræðingar hafa lengi rannsakað hvernig fólk útskýrir eigin hegðun og hvaða augum það lítur sjálft sig. Ein mest staðfesta niðurstaðan úr sálfræðirannsóknum er það að venjulegt fólk trúir frábærum hlutum um sjálft sig, jafnvel þó að enginn grundvöllur sé fyrir því. Meirihluti fólks trúir því til dæmis að það sé greindara, fordæmalausara, sanngjarnara og betri bílstjórar en meðalmaðurinn. (Gilovich, 1991/1995).
Í lífinu dregur fólk oft rangar ályktanir og gerir sig sekt um allskyns hugsanavillur sem hafa áhrif á skoðanir þess og ákvarðanir. Langoftast er fólk fullkomlega ómeðvitað um að eitthvað sé að hafa áhrif á skoðanir þess og ákvarðanir og telja að það sé skynsemin sem ráði för. En einmitt það, að telja að skynsemi ráði för í ákvarðanatöku er dæmi um hugsanavillu. Fólk sér nefnilega nákvæmlega það sem það vill sjá og leita rökstuðnings sem hentar þeirra málstað.
Sú hugsunarvilla að sjá það sem maður vill sjá er mjög áberandi í stjórnmálum. Nægir að líta á prófkjör sem farið hafa fram víðsvegar um landið, en talsmenn stjórnmálaflokkanna vilja í öllum tilvikum meina að úrslit prófkjörs þeirra séu skínandi góð niðurstaða og listinn sé sigurstranglegur. Augljóslega getur það ekki verið þannig í öllum tilvikum.
Skemmtilegt verður að fylgjast með þegar úrslit sveitarstjórnarkosninganna í vor verða ljós, en þá munu forystumenn flokkanna væntanlega reyna til hins ítrasta að túlka niðurstöðurnar sér í hag. Þeir sem munu fara illa út úr kosningunum munu tala um hinn klassíska „varnarsigur“ eða kenna ytri aðstæðum um, meðan þeim sem betur gengur munu útskýra það með eigin ágæti.
Þegar fólk tekur afstöðu til ákveðinna málefna færir það yfirleitt einhver rök fyrir sínu máli. Oft er það samt þannig að það notar bara hluta upplýsinganna sem til staðar eru og velur það sem styrkir þeirra málstað og hentar þeirra rökum. Fólk áttar sig samt ekki á því að við annað tækifæri gæti það verið að réttlæta algjörlega gagnstæðar niðurstöður.
Nærtækt dæmi úr íslenskum stjórnmálum er nýleg synjun forseta Íslands á lögum um ríkisábyrgð á Icesave og þar af leiðandi yfirvofandi þjóðaratkvæðagreiðsla um lögin. Það hefur um árabil verið umdeilt hjá stjórnmálamönnum (og reyndar fjölmörgum öðrum) hvort forseti hafi í raun þann rétt að synja lögum staðfestingar. Þeir sem hvað harðast voru á móti því árið 2004 þegar forsetinn synjaði umdeildum fjölmiðlalögum staðfestingar, voru hvað ánægðastir með synjun hans í ár og öfugt.
Einnig hafa þeir stjórnmálamenn, sem hafa ávallt talað fyrir auknu vægi þjóðaratkvæðagreiðslna í stjórnskipun landsins, lítinn áhuga á þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu sem framundan er og vilja helst ekki að hún fari fram. Þetta er mjög skýrt dæmi um hvernig fólk færir rök fyrir gagnstæðum skoðunum í mismunandi aðstæðum. Þeir stjórnmálamenn sem undir þetta flokkast myndu nú líklegast ekki viðurkenna að skoðanir þeirra hafi breyst eða að þeir séu ósamkvæmir sjálfum sér. Þeir hafa einfaldlega skilgreint markmið sín upp á nýtt og leita raka í samræmi við þau.
Það er okkur mannfólkinu eðlislægt að vilja fegra ímynd okkar og eru stjórnmálamenn þar svo sannarlega ekki einir á báti. Vissulega eru þeir þó mjög áberandi í því, enda þjónar það hagsmunum stjórnmálamanns að hafa góða ímynd. Við hin sem eigum ekki atvinnu okkar undir almenningsálitinu, getum því vel leyft að brosa út í annað á næstunni, þegar stjórnmálamennirnir okkar munu útskýra árangur sinn á þann hátt sem hentar ímynd þeirra best.
Heimild:
Gilovich, T. (1995). Ertu viss? Brigðul dómgreind í dagsins önn (Sigurður J. Grétarsson þýddi). Reykjavík: Heimskringla. (upphaflega gefin út 1991)
- #FreeBritney - 22. júlí 2021
- Næstu skref í fæðingarorlofsmálum - 6. júlí 2021
- Hvað tökum við með okkur úr faraldrinum? - 23. júní 2021