Ég vaknaði ekki of seint. Dagurinn byrjaði of snemma.

Klukkan á Íslandi er snarvitlaus og heldur því fram að hádegi einum og hálfum klukkutíma áður en sólin er hæst á lofti. Þetta þýðir að þeir sem fara á fætur klukkan sjö á Íslandi eru í raun að rífa sig upp klukkan hálfsex. Er ekki til nóg óréttlæti í heiminum án þess að Ísendingum sé boðið upp á þetta rugl?

Það er staðreynd, skjalfest og óumdeild, að íslenskt samfélag er framúrskarandi fjandsamlegt öllum þeim sem eru þeirra náttúru að eiga erfitt með að starfa snemma á daginn en eru hressari eftir því sem á líður. Ekki svo að skilja að heimurinn sé ekki allur að einhverju leyti seldur undir þessa sök. Það er hann svo sannarlega. En Ísland gengur lengra en flest önnur í þessum níðingsskap. Eina samkeppnin okkar í þessum efnum er Kína, sem stillir allar klukkur eins þótt landafræðin segi að fjórar klukkustundir líði frá því að sólin er hæst á lofti í austustu héruðum landsins og þar til raunverulegt hádegi er í höfuðborginni. En mandarínarnir í Beijing, sem telja sig geta stjórnað mannlegri hegðun betur en flestir, láta slík smáatriði eins og gang himintunglanna ekki setja hömlur á fullvissu sína um að þeir geti ráðið því sem þeir vilja ráða um allt undir sólinni.

En það er kannski óþarfi að fara að vorkenna sérstaklega Tíbetunum sem þurfa að rífa sig upp þegar klukkan segir sjö þótt aðeins séu liðnar þrjár klukkustundir frá miðnætti. Ég syrgi þá ekki – fari þeir vel á fætur. Aftur á móti er annað stríð sem er full ástæða til þess að gefa gaum. Það stríð snýst um svefnheilsu Íslendinga og mannorð þeirra sem ekki eru þeirrar ónáttúru gæddir að vera yfir sig ferskir við fyrsta hanagal. Þeir sæta óréttlæti sem viðgengst á hverjum degi og lýsir sér meðal annars í því að börn séu látin mæta í skólann þegar klukkan er í raun og veru hálfsjö að morgni, fundir sem hefjast klukkan hálfníu eru raunverulega klukkan sjö – og þegar fólk leyfir sér að sofa til hádegis þá er það í raun komið á lappir klukkan hálfellefu. Ísland er nefnilega staðsett 22 gráðum á lengdarbaug austan við svokallað Greenwich línu sem gengur í gegnum London og íslenskar klukkur eru stilltar eftir. Þetta þýðir að sólin kemst ekki til Ísland fyrr en 88 mínútum eftir að hún rennir sér yfir Greenwich.

Fólk er misjafnt af Guði gert hvað varðar stillingu líkamsklukkunar. Þetta er óumdeilt. Sumir eru hressastir á morgnanna og aðrir eftir því sem líður á daginn. Þeir eru jafnvel til sem eiga hvað best með að vinna um blánóttina. Til er kenning sem segir að mannkynið hafi þróast í þessa átt, að ákveðin hluti manna ætti auðveldara með að vaka á nóttunni, til þess að einhverjir gætu staðið vörð um næturstaði hirðingja þegar maðurinn átti sér ekki fastan samverustað en þurfti á hverju kvöldi að slá upp búðum. Því miður hefur þessi hetjulegi eiginleiki frekar orðið mönnum til trafala eftir því sem samfélagið hefur breyst og skilningur á mikilvægi náttuglunnar þorrið – og jafnvel snúist upp í andhverfu sína. Það þykir nefnilega ekki fínt að vera náttugla og morgunsvæfur.

Og jafnvel þótt menn geti lítið gert til þess að breyta sinni eigin genatísku grunngerð þá hefur ófár B-maðurinn þurft að berjast gegn eðli sínu með nánast ofbeldisfullum sjálfsaga til þess að öðlast aðgöngumiða að lífsgæðakapphlaupinu og halda mannorði sínu. Þessi innbyggði eiginleiki manna sem gerði meðbræðrum þeirra kleift að sofa í friði fyrir árásum óvina og óargardýra í fyrndinni er nú álitinn vera til marks um leti og agaleysi. Og eins og það sé ekki nógu slæmt að finnast best að vakna klukkan hálftíu á morgnana –íslensk stjórnvöld þurfa að fikta í klukkunni þannig að þegar þeir vakna þá heldur vekjaraklukkan því blákalt fram að viðkomandi hafi sofið til ellefu.

Nú þegar hafa hátt í tíu þúsund manns skráð sig í hóp á Facebook sem styður þá breytingu að færa klukkuna í eðlilegt horf. Grasrótarstuðningur við þetta réttlætismál fer því sívaxandi – og ólíkt mörgu öðru þá geta stjórnvöld framkvæmt þetta með tiltölulega litlum tilkostnaði. Það eina sem þarf að gera er að tilkynna að eitthvert föstudagskvöldið verði klukkan ekki tólf, heldur verði hún aftur hálfellefu. Fyrir vikið fær fólk einn og hálfan klukkutíma aukalega á djamminu og samfélagið færist 90 mínútum nær réttlætinu. Ríkisstjórnin gæti meira að segja gert fjári gott PR í kringum þetta – „Sláum skjaldborg um svefnherbergið“. Einhvers staðar þarf að byrja.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.