Er hægt að bæta ímynd Íslands?

Sjónvarpsmaðurinn Sölvi Tryggvason bendir á á bloggsíðu sinni að japanskir kollegar hans sem voru hér í heimsókn á dögunum töldu að fjöldi fólks væri á götunni vegna fjármálakreppunnar. Var þetta afleiðing þess hversu illa kynnt ástandið á Íslandi er.

Frá því að fjármálahrun skók íslensku þjóðina hefur hvað eftir annað verið rætt um nauðsyn þess að málstað Íslands sé komið betur á framfæri í útlöndum en ekki hafa sést margar skýrar aðgerðir stjórnvalda í þær áttir. Ólafur Ragnar Grímsson tók þó á dögunum völdin af ríkisstjórninni í mjög umdeildri aðgerð og fór í sjálfstæða kynningarherferð um Evrópu.

Þessi umræða hún blandast fljótlega fyrri umræðum sem hafa átt sér stað um ímynd Íslands. En getur hið opinbera „búið til“ ímynd Íslands?

Þegar menn ræða um ímynd landsins er stundum talið að það sé hægt að ákveða hver hún sé. Þetta gerði til dæmis nefnd á vegum forsætisráðherra og birti skýrslu um ímynd Íslands þar sem meginefnið var hver ímyndin ætti að vera. Ýmsir aðilar kvörtuðu yfir þeim þáttum skýrslunnar þar sem nefndin var talið „endurrita söguna“ í þeim tilgangi að móta sjálf sína sögu.
Svipaður misskilningur er fyrirliggjandi í lagafrumvarpi um svokallaða Íslandsstofu sem á að vera ný miðstýrð ríkisstofnun sem mun hafa yfirumsjón með kynningu á Íslandi. Í fyrstu grein frumvarpsins segir : „Markmið laga þessara er að efla ímynd og orðspor Íslands“

Markmið sem þessi missa marks vegna þess að ímynd þjóðar felst öðru fremur í gjörðum hennar. Það skiptir ekki miklu máli hversu margar auglýsingar ferðamálaráð grimmra einræðisríkja birta á CNN, fólk hættir ekki að hugsa um viðkomandi ríki sem grimm einræðisríki.

Það þarf að byrja á því að hafa hreint heima hjá sér áður en maður fer út um allann bæ og segir frá því hversu frábær og skínandi hreint heimili maður haldi. Geri maður það ekki þá svíkur maður viðmælendur.

Hafi menn áhuga á því að Ísland verði í framtíðinni þekkt fyrir jákvæða góða hluti, þá þurfa hér að eiga sér stað jákvæðir góðir hlutir. Það er ekki hægt að stytta sér leið hér.

En hvað á þá að gera í dag?

Kynning á Íslandi í útlöndum á að felast í sögum af því sem íslendingar eru raunverulega að gera. Sannar sögur sem sýna hið sanna eðli þjóðarinnar. Ekki sykurhúðað glansefni uppfullt af innantómum slagorðum.

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.