Jólahugvekja

Það er góð jólaguðsþjónusta að gæta þess sem okkur er trúað fyrir og á jólum er mikilvægt að gefa því gaum sem er innan seilingar og næst okkur er. Það er fólkið okkar sem er það dýrmætasta í lífi okkar.

Í Lúkasarguðspjalli segir frá því að fjárhirðar gættu hjarðarinnar um nótt á völlunum við Betlehem þegar að María varð léttari og fæddi sveinbarn sem hún vafði reifum og lagði í jötu. Þessi fullyrðing í jólaguðspjallinu býður upp á vangaveltum hjá fræðimönnum um hvenær ársins fæðing frelsarans átti sér stað og hvers vegna hirðarnir eru kallaði til sögunnar.

Staðreyndin er sú að ekkert er vitað um hvenær ársins Jesús fæddist og raunar heldur ekki hvaða ár nákvæmlega. En það er nokkuð ljóst að það var ekki 25. desember sem Jesús fæddist og nærvera fjárhirðanna í sögunni rennir stoðum undir þá fullyrðingu vegna þess að samkvæmt öllu venjulegu og starfsháttum í Gyðingalandi á þeim tíma voru fjárhirðar ekki með hjörðina á völlunum á þessum tíma ársins.

En ástæðan fyrir því að kristnir halda jólahátíðina á þessum tíma er söguleg og valin af hagkvæmnisástæðum. Jól voru haldin hátíðleg í Róm til forna og tengd heiðnum sólarguði og menn héldu upp á að daginn tók að lengja á ný. Á táknrænan hátt litu kristnir þannig á að með fæðingu Jesú frá Nazaret birti í heiminum og ljósið sigrar myrkrið. Það var ekki fyrr en í lok fjórðu aldar að kirkjan fastsetti fæðingu frelsarans á jóladag 25 desember og þannig hefur það verið síðan. Það hentar okkur vel hér norður við heimskautsbaug þar sem myrkrið getur verið svo yfirþyrmandi á þessum árstíma og við gleðjumst yfir því að nú tekur daginn að lengja að nýju.

Ég nefni þetta hér vegna þess að mér finnst skipta máli að við lítum upp úr bókstafnum og reynum að skynja andann í því sem trúin boðar okkur. Það var einmitt það sem að gott fólk gerði fyrr á öldum og það var nógu víðsýnt til að aðlaga hefðir að því lífi og aðstæðum sem voru og eru á hverri tíð. Ég tiltók dæmi um það hvernig fólk gaf jólahátíð rómverjanna nýtt innihald. Það er sjálfssagt að viðurkenna það en fullyrða ekki sem stóra sannleik að Jesú hafi fæðst 25 desember.

Sérhver kynslóð les lífið og trúna með gleraugum sinnar samtíðar. Ég hef gert það að gamni mínu síðustu vikurnar að líta á prédikanir presta frá fyrri hluta síðustu aldar. Þar er margt vel sagt og stenst tímans tönn. Annað er heldur vafasamara séð í ljósi samtímans. Það á sérstaklega við um umburðalyndi og mannréttindi. Í þessum nærri aldar gömlu prédikunum koma fram viðhorf til kvenna t.d. og annarra trúarbragða sem þykja vægast sagt úrelt og aldeilis ekki við hæfi í dag. Það kann að vera að einhverjum þyki okkur hafa borið af leið í þessum efnum og við hefðum betur haldið okkur við það sem var – en ég er innilega þeirrar skoðunar að okkur miði eitthvað í rétta átt varðandi virðingu við hvert annað í öllum þáttum mannlífsins.

Mér þykir einnig að okkur hafi miðað áfram í því hvernig við lesum hina helgu bók og að við horfum frekar til andans en til bókstafsins í dag heldur en var gert fyrir einni öld. Mér þykir miklu varða að játa trú á Guð lífsins, ljóssins og kærleikans og greina allt annað út frá þessum grunnpunkti um leið og við tökum alvarlega kröfu trúarinnar um ábyrgð mannsins á sjálfum sér og umhverfi sínu og kröfu um þjónustu og virðingu við lífið og náungann.

Að fjárhirðar komu að jötu frelsarans undirstrikar að það var fólk af holdi og blóði sem veitti Jesú lotningu. Eftir að hafa verið við jötuna í Betlehem fóru hirðarnir aftur út til að gæta þess sem þeim hafði verið trúað fyrir. Það skulum við líka gera. Það er góð jólaguðsþjónusta að gæta þess sem okkur er trúað fyrir og á jólum er mikilvægt að gefa því gaum sem er innan seilingar og næst okkur er. Það er fólkið okkar sem er það dýrmætasta í lífi okkar.

Í haust birtist í blaði viðtal við vinsælan leikara Sigurð Sigurjónsson. Þar er hann spurður að því eftir hvaða lífsskoðunum hann lifði, ertu til dæmis trúaður? Og Sigurður svarar: »Þetta er stór spurning og það eru til mörg og flókin svör við henni. Ég hef velt trúmálum talsvert fyrir mér eins og ég held að flestir geri þegar árin færast yfir. Já, ég er trúaður maður og hef lesið talsvert um trúmál. Ég sæki kirkju og mér líður vel í kirkjunni minni. Ég trúi á þær leiðbeiningar sem eru settar fram í kristninni. Þær eru umferðarreglurnar okkar. Fallegar reglur sem við eigum að fara eftir. Það tekst ekki alltaf en breytir ekki því að ég trúi á þær.«

Þetta viðhorf er heilbrigt og gott. Við viljum gera okkar besta og fara eftir þeim leiðbeiningum sem við finnum í bókinni góðu. Okkur tekst misjafnlega en það er fagnaðarerindi kristinnar trúar að yfir okkur er góður Guð sem skilur og fyrirgefur.

Barnið í jötunni undirstrikar vonina og möguleikana í lífinu eins og sérhvert barn sem lifnar og lifir. Hlúum að börnunum og voninni í hjörtum okkar og eigum saman gleðilega jólahátíð.

Latest posts by Sr. Kjartan Örn Sigurbjörnsson (see all)