Jól í skugga erfiðleika

Á aðventuni hafa okkur borist margar fréttir af neyð. Fréttir af kröppum kjörum, skorti og tilheyrandi tárum og kvíða. Ólíkt því sem oftast hefur verið hafa þessar fréttir borist úr næsta nágrenni okkar. Af fólki sem við erum líkleg til að hitta fyrir í daglegum önnum okkar og býr jafnvel á sömu þúfunni og við sjálf.

Þótt heimur mig hamingju sneyði,
þótt harðir mig þyrnarnir meiði,
þótt hjartanu af hrellingu svíði,
ég held þér, mín rós –og ei kvíði.

-Helgi Hálfdánarson

I
Á aðventuni hafa okkur borist margar fréttir af neyð. Fréttir af kröppum kjörum, skorti og tilheyrandi tárum og kvíða. Ólíkt því sem oftast hefur verið hafa þessar fréttir borist úr næsta nágrenni okkar. Af fólki sem við erum líkleg til að hitta fyrir í daglegum önnum okkar og býr jafnvel á sömu þúfunni og við sjálf. Fréttirnar hafa ekki verið af fólki í fjarlægum löndum eins og oftast áður. Fólki sem við samsömum okkur ekki endilega við og skiljum kjör þeirra þar af leiðandi ekki fyllilega þó við náum stórum dráttum neyðar þeirra.

Stór hópur fólks hefur ekki möguleikann á að upplifa þær tilfinningar sem aðventu og jólum eru samfara. Þá innri ró og gleði sem fylgir því að fylgjast með börnunum og þeirra einlægu spennu og kæti. Þá ólýsanlegu tilfinningu sem fylgir jólanóttinni þegar hlustað er á nætursöng í kirkjum, gluggað í einhverja jólabókina eða aðeins notið þess að vera í stundinni gersneyddur ytri skildum. Til þess varpa aðrar tilfinngar of stórum skugga.

Stór hópur fólks upplifir aðeins kvíða, depurð og samviskubit yfir því að geta ekki uppfyllt kröfu samfélagsins varðandi ytri umgjörð jólanna. Sumir búa einfaldlega við þær aðstæður að hafa ekki fjárráð til þess að gefa börnum sínum jólagjafir hvað þá að gera vel við sig í mat og drykk. Þessi vanmáttartilfinning bætist þannig ofan á þær tilfinningar sem fylgja atvinnumissi, heilsubresti eða öðru því sem skapað hefur hinar bágbornu fjárhagslegu aðstæður.

II
Þessari neyð hefur fjöldinn allur af félagasamtökum og sjálfboðaliðum á þeirra vegum tekið að sér að bregðast við. Hefur verið gott til þess að vita og yndislegt að horfa upp á. Samtök á borð við Mæðrastyrksnefnd, Fjölskylduhjálpina, Rauða Krossinn og Hjálparstarf Kirkjunnar hafa staðið þar í broddi fylkingar og reynt eftir fremsta megni að lina þjáningar og draga úr kvíða þeirra sem skortinn líða með því að láta þeim í té einhverja þeirra efnislegu hluta sem þörf er á fyrir jólin. Talið er að vinna þessara samtaka hafi náð til ríflega 10.000 manna.

Það væri barnalegt að halda að slíkt starf leysi vanda þessa fólks. Hinu er hins vegar ekki að neita að starf þessara samtaka er gríðarlega dýrmætt og mikilvægt. Með þeim gjöfum sem fólki er gert kleift að þiggja þar er þeim léttur róðurinn og sköpuð hin ytri umgjörð sem samfélagið hefur gert nauðsynlega til þess að njóta að fullu þeirra hughrifa sem jólunum fylgja. Þó má ekki gleyma því að þegar jólahátiðinni sleppir hverfur neyðin ekki. Áfram þarf fjöldinn allur af einstaklingum á aðstoð þessara aðila að halda til að láta enda ná saman og því er mikilvægt fyrir fólk að gleyma þessu óeigingjarna starfi ekki og styðja við það eftir getu hvers og eins.

Eins ber að vera þakklátur fyrir þá aðila sem lagt hafa þessu starfi lið með því að útvega fjármuni til þess eða gefa gjafir í formi hluta sem hægt var að úthluta. Bara í gær bárust okkur til eyrna nokkur dæmi af slíku en þannig gaf samfélagssjóður ALCOA í Bandaríkjunum Hjálparstarfi Kirkjunnar andvirði 9.6 milljóna króna og tilkynnt var að söfnun sjálfstæðiskvenna til stuðnings barnafjölskyldum hafi skilað tæpum þremur milljónum króna. Þá eru ótaldir fjöldi styrktartónleika og annara einstakra gjafa sem hafa gert ofangreindum samtökum kleift að styðja við bakið á þurfandi einstaklingum í samfélaginu. Auk þeirra fjöldamörgu einstaklinga sem gefið hafa af tíma sínum til þessara verkefna og sinnt þannig þeirri sameiginlegu skyldu okkar allra að styðja við þá sem höllum fæti standa í samfélaginu.

III
Ekki er nóg að mæta aðeins hinum ytri þörfum einstaklinga um jól. Hinni andlegu hlið þarf einnig að sinna. Þeirri hlið hlúum við annars vegar að í samfélagi við nánustu ættingja með samveru. Í samfélaginu eru þó margir einstæðingar sem upplifa aldrei betur en á slíkum hátíðum hlutskipti sitt og stöðu. Stendur þeim flestum til boða að eyða jólunum með ættingjum eða fá afdrep t.d. hjá Hjálpræðishernum. Sumir kjósa þó að eyða jólunum einir af ýmsum ástæðum. Þá er einnig rétt að hugsa til fanga sem sitja af sér sína sök burtséð frá heiti daganna. Hinir sjúku og þeir sem starfs síns vegna eru við skyldustörf á jólum eru einnig í þessum hópi sem erfitt getur átt á þessum tíma. Öllu þessu fólki er nauðsynlegt að mæta með einhverjum hætti með hliðsjón af aðstæðum þeirra og persónulegum óskum. Þar reynir á næmni og ábyrðgartilfinningu sérhvers okkar.

Hinni andlegu hlið sinnum við einnig hvert og eitt með sjálfu okkar. Það gerum við með því að íhuga það sem stendur að baki jólahátíðinni. Söguna af fæðingu lítils barns suður í Júdeu fyrir tvöþúsund árum rúmum og þær afleiðingar og þýðingu sem fæðing hans og líf hafði fyrir okkur hvert og eitt. Þar geta messunar sem haldnar eru í hverri kirkju hjálpað til og eins lestur á jólaguðspjallinu og jólasálmum.

Boðskapur jólanna talar einnig skýrt inn í aðstæður þeirra sem um sárt eiga að binda um hátíðarnar því eins og skáldið sagði:

Í dag er glatt í döprum hjörtum,
því Drottins ljóma jól.
Í niðamyrkrum nætursvörtum
upp náðar rennur sól.
Er vetrar geisar stormur stríður,
þá stendur hjá oss friðarengill blíður,
og þegar ljósið dagsins dvín,
oss Drottins birta kringum skín.

-Valdimar Briem

Gleðileg Jól.