Flestir geta lagt eitthvað að mörkum

Þjóðfélagið hefur tekið miklum breytingum á örskömmum tíma. Það er stöðugt talað um að siðbótar sé þörf. Jafnframt heyrast dómar frá mönnum sem kalla sig siðfræðinga að siðgæði hins og þessa sé nú ekki upp á marga fiska. Það er vanlifað í heimi þar sem reynt er að gera allt tortryggilegt.

Þjóðfélagið hefur tekið miklum breytingum á örskömmum tíma. Flestar fyrirsagnir fjölmiðlanna snúast um þann vanda sem steðjar að fjölskyldum og fyrirtækjum. Helstu vörur bankanna tengjast greiðsluvanda fyrrgreindra aðila. Samkeppnismarkaðurinn er veikur þar sem að mörg fyrirtæki hafa verið ríkisvædd. Ef ekki er talað um Icesave þá er talað um ESB. Talað er um stjórnmálastéttina – annars vegar við og hins vegar þeir. Öll tengsl gera menn vanhæfa og teljast ekki af hinu góða. Einstaklingar sem komið hafa nálægt stjórnmálum á lífsleiðinni eru vanhæfir til flestra starfa vegna þessa. Menn í viðskiptalífinu eru brennimerktir. Einhver fær sér rauðvínsglas með mat og er orðinn ölvaður þegar fréttin er skrifuð. Það er stöðugt talað um að siðbótar sé þörf. Jafnframt heyrast dómar frá mönnum sem kalla sig siðfræðinga að siðgæði hins og þessa sé nú ekki upp á marga fiska. Það er vanlifað í heimi þar sem reynt er að gera allt tortryggilegt.

Er ekki betra að trúa á hið góða í fólki? Að allir séu að reyna að gera sitt besta til þess að komast í gegnum þann vanda sem að okkur steðjar. Meira segja þeir sem telja að skattahækkanir séu eina leiðin út úr vandanum. Þurfum við ekki að horfa okkur nær og hugsa um hvernig hvert og eitt okkar getum lagt eitthvað af mörkum til þess að bæta stöðuna?

Góðgerðarmál hafa fengið mikið vægi í umræðunni þessa dagana, enda hefur staða margra breyst ansi mikið á mjög skömmum tíma. Aldrei hafa eins margir leitað á náðir hjálparstofnana og undanfarnar vikur og hefur fjöldinn sem sótt hefur aðstoð margfaldast á síðastliðnu ári. Búist er við því að rúmlega fjögur þúsund fjölskyldur muni óska eftir aðstoð hjálparstofnana um jólin. Þetta eru þung skref fyrir alla þá sem þurfa að leita á náðir þeirra til að þiggja nauðsynjar.

Það hefur verið áhugavert að fylgjast með hinum ýmsu söfnunum nú fyrir jólin, en fjöldinn allur af sjálfboðaliðum hefur lagt sitt af mörkum til þess að bæta stöðu annarra sem minna mega sín. Það er aðdáunarvert framtak sem bætir stöðu allra. Það styrkir andlega líðan þeirra sem hjálpa og þeir fá stuðning sem á þurfa að halda. Það er rík hefð fyrir sjálfboðaliðastörfum og eru björgvinasveitirnar besta dæmið um slíkt. Það er yndislegt að búa í samfélagi þar sem náungakærleikurinn fær að njóta sín. Meðfylgjandi eru slóðir á síður nokkurra hjálparstofnanna sem hægt er að styðja við með ýmsu móti fyrir jólin. Margt smátt gerir eitt stórt.

Mæðrastyrksnefndir

Rauðikross Íslands

Hjálparstarf kirkjunnar

Hjálpræðisherinn

Fjölskylduhjálp

Latest posts by Erla Ósk Ásgeirsdóttir (see all)

Erla Ósk Ásgeirsdóttir skrifar

Erla hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2003.