Endalaust vesen

Danir kenndu okkur að meta síld og svínakjöt og forðuðu handritunum undan glorsoltinni alþýðunni sem vildi sjóða þau í kæfu. Þeir kenndu Íslendingum einnig lexíu um hið rétta eðli ríkisbáknsins, en danska orðið „væsen” þýðir einmitt „stofnun” eða „stjórnvald”.

Við Íslendingar eigum Dönum margt og mikið að þakka. Þeir kenndu okkur að meta síld og svínakjöt, forðuðu handritunum undan glorsoltinni alþýðunni sem vildi sjóða þau í kæfu og sáu til þess að sjálfstæðisbarátta Íslendinga var ein sú friðsamasta í veraldarsögunni.

Það sem ég vil gera að umtalsefni í dag er hins vegar lexía sem Íslendingar lærðu upp á sitt einsdæmi af reynslu þeirra af dönsku yfirvaldi. Allt vafstrið og umstangið sem fylgdi viðskiptum þeirra við danska embættismenn urðu til þess að danska orðið „væsen”, sem þýðir „stofnun” eða „stjórnvald”, varð að íslenska orðinu „vesen”.

Þrátt fyrir að vesen sé nú notað yfir alls konar óþarfa leiðindi sem yfir okkur ganga þá er bein merking orðsins, samkvæmt hinni óskeikulu Orðabók Menningarsjóðs, vafstur, snúningar, umstang, vandræði og óstand. Ég held að lesendur geti tekið undir það með mér að þessi fimm orð eru nokkuð nákvæm lýsing á því hvernig það er að takast á við opinberar stofnanir.

Ekki nóg með að við þurfum að glíma við heilu eyðublaðafjallgarðana í hvert sinn sem við eigum einhver samskipti við stofnanir á vegum ríkis eða sveitarfélaga, heldur þurfum við að láta af hendi stóran hluta tekna okkar til að ríkið geti staðið fyrir enn frekara veseni.

Forfeður okkar flúðu Noreg vegna vaxandi yfirgangs ríkisvaldsins þar í landi og svo virðist sem afkomendur þeirra á nítjándu öld hafi engu gleymt um hið rétta eðli báknsins. Eitthvað virðast íslenskir þingmenn og stjórnmálaleiðtogar hafa ryðgað í fræðunum þar sem margir þeirra telja sitt hlutverk felast í því að auka umsvif ríkisins og inngrip þess í einkalíf þegnanna.

Hlutverk ríkisins er ekki, og á ekki að vera, að gera þegnunum lífið leitt heldur að auðvelda þeim að lifa sínu lífi og láta drauma sína rætast. Það gerist ekki ef þeir þurfa að eyða stórum hluta af sínum dýrmæta tíma í vesen, hvort sem um er að ræða stofnanirnar sjálfar eða vesenið sem af þeim stafar.

bjarni_olafsson@hotmail.com'
Latest posts by Bjarni Ólafsson (see all)