Ríkið, ríkissjóður og fjármunir hins opinbera. Í hugum flestra ná þessi orð yfir mikinn sjóð peninga sem erfitt er að henda reiður á. Orðin hafa nokkurn veginn sjálfstæða merkingu og halda mætti að auður ríkissins væri ekki í neinum tengslum við peninga skattborgaranna – því miður. Okkur hættir líka til að tala um ríkið sem einhvern óþrjótandi sjálfstæðan sjóð sem hægt er að ganga endalaust í án nokkurra afleiðinga. Pistlahöfundur er þeirrar skoðunar að þessi orð séu óheppileg og gefi ekki skýra mynd af því hvaðan fjármunir stjórnkerfisins koma. Nær væri að tala um „peninga skattborgaranna”.
Athygli vekur að hinn eiginlegi ríkissjóður, þessi nær ótæmandi lind peninga, virðist ekki vera til vestanhafs! Bandaríkjamenn tala nefnilega um “the taxpayers money” þegar rætt er um ríkissjóð eða fjármuni hins opinbera. Orðið “Government” er notað sem samheiti yfir þá aðila sem fara með stjórn ríkissins hverju sinni en þegar kemur að fjárútlátum er einfaldlega talað um “taxpayers money”.
Þessi mismunandi orðnotkun hefur án efa áhrif á það hvernig við hugsum um fjármuni stjórnkerfisins. Eru ekki annars allir sammála um að miklu sniðugra sé að láta ríkissjóð bera halla Landsspítalans heldur en skattborgarana?
Með því koma á málfræðilegri tengingu á milli fjármuna stjórnkerfisins og okkar eigin efnahags er kominn sjálfkrafa hvati til þess að fara vel með peningana. Það er einnig nauðsynlegt að upplýsa okkur öll um það hvernig “peningum skattborgaranna” er nákvæmlega varið hverju sinni. Réttast væri að gera „peninga skattborgaranna” og uppbyggingu stjórnkerfisins að skyldunámsefni í framhaldsskólum, svo mikið er í húfi.
- Af lumbrum og lymjum - 13. júní 2009
- Lausn VG er að slíta samstarfinu við AGS ! - 24. janúar 2009
- Skynsemin verður að þola grjótkastið - 23. janúar 2009