Kínamúr Obama

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur síðustu viku verið á ferðalagi í Asíu. Þessi ferð er talin vera fyrsti prófsteinninn á Obama á alþjóðavettvangi. Sérstaklega mun eftir því verða tekið hvernig honum tekst til í fyrstu heimsókn sinni til Kína.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur síðustu viku verið á ferðalagi í Asíu. Þessi ferð er talin vera fyrsti prófsteinninn á Obama á alþjóðavettvangi. Sérstaklega mun eftir því verða tekið hvernig honum tekst til í fyrstu heimsókn sinni til Kína.

Strax eftir valdatöku Obama var það eitt af hans fyrstu verkum að koma á sambandi við Kínastjórn. Helstu hugsuðir bandarískrar utanríkisstefnu, Henry Kissinger og Zbigniew Brzezinski, hafa sagt það opinberlega að helsta utanríkismál hins nýkjörna forseta eigi að vera samstarf við Kína. Hafa væntingar til þessa samstarfs gengið það langt að þær fengu nafnið G-2, þar sem vísað er í G-8 sem samanstendur af átta stærstu efnahagskerfum heims en nú sé ekki nauðsynlegt að hafa þau fleiri en tvö nú eftir risið í austri.

Vissulega eru möguleikar ríkjanna tveggja á samvinnu nær óþrjótandi. Þegar kemur að málefnum líkt og loftlagsmálum og mengun, þá munu aðgerðir þessara tveggja ríkja vega mun þyngra en allir alþjóðasamningar sem undirritaðir verða án þeirra, einfaldlega vegna þess að þau eru mestu mengunarvaldarnir. Ríkin hafa tengst sterkum efnahagslegum böndum síðasta áratuginn sem gerir það að verkum að kreppan sem nú ríður yfir hefur mikil áhrif á Kína. Sem dæmi hefur fall dollarsins leitt af sér aukið atvinnuleysi í Kína því innflutningur á kínverskum vörum hefur aukist stjarnfræðilega síðasta áratuginn. Málefni N-Kóreu og stöðugleiki A-Asíu í ofanálag við baráttuna við hryðjuverk eru allt atriði sem þessi stórveldi þurfa að leysa í sameiningu.

Þrátt fyrir öll þessi tækifæri eru samskipti og samvinna landanna margvíslegum vandamálum bundin sem mun reyna mjög á Obama. Í síðasta mánuði neitaði hann að veita Dalai Lama áheyrn í Hvíta húsinu til að styggja ekki Kínastjórn. Sú ákvörðun hefur mætt mikilli andstöðu heima fyrir og má Obama búa sig undir að fá fleiri óvinsældarstig úr þeirri áttinni. Bandaríkin hafa staðfastlega barist fyrir auknum mannréttindum og frelsi í heiminum og eru vönd að virðingu sinni þegar kemur að samskiptum við harðstjóra og einræðisherra.

Kína aftur á móti vill ekki „blanda saman pólitík og viðskiptum“. Í raun þýðir það að Kína stundar viðskipti hvar sem er, við hvern sem er. Hvort sem það er að selja vopn til Angóla og Zimbabwe eða semja um olíu við stríðsherra, telja Kínverjar það vera sitt einkamál. Vandamálin verða þó fyrst áþreifanleg þegar Kínverjar fara að verja þessar fjárfestingar sínar í alþjóðakerfinu líkt og þeir gerðu með að koma í veg fyrir að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fordæmdi ofbeldi herstjórnarinnar í Myanmar gagnvart búddamúnkum árið 2007, en þar eiga þeir mikla hagsmuni að gæta.

Sú þróun er síst á undanhaldi hjá Kínastjórn að fjárfesta ríflega í ríkjum þar sem stjórnarfar er miður geðslegt. Þeir hafa fjárfest ríflega í Súdan sem er talin gróðrastía hryðjuverkamanna og hafa verið þungir í taumi við að gagnrýna kjarnorkutilraunir Írana. Enn eru ótalin málefni Taiwan og Tíbet sem þó líklegast verða meðhöndluð með algjöru status quo.

Að lokum munu efnahagsleg tengsl ríkjanna valda mikilli spennu. Kínverska yuaninu hefur með ráðum verið haldið veiku til að auka útflutning á kínverskri framleiðslu sem hefur að stórum hluta farið til Bandaríkjanna. Kína hefur notað stóran hluta útflutningstekna í að kaupa bandarísk ríkisskuldabréf sem hafa svo fjármagnað fjárlagahalla Bandaríkjanna. Sú þróun getur ekki haldið áfram út í hið óendanlega og mun verða eitt fyrirferðamesta málið milli þessara stórvelda.

Það er því ljóst að Barack Obama bíður erfitt verkefni að ná fram því besta úr samvinnu þessara tveggja stórvelda með öllum þeim kostum sem fylgja fyrir löndin tvö sem og umheiminn, án þess þó að fórna þeirri grundvallarstefnu Bandaríkjanna að vera málssvari mannréttinda og lýðræðis.

Latest posts by Vignir Hafþórsson (see all)

Vignir Hafþórsson skrifar

Vignir hóf að skrifa á Deigluna í október 2009.