Fall ríkisstjórnarinnar

Það er áhugavert að skoða þróun á fylgi stjórnmálaflokkanna undanfarna mánuði. Fylgi ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna hefur hrapað og hefur skv. nýjustu skoðanakönnun Gallúps, ekki stuðning meirihluta þjóðarinnar. Á meðan mælist Sjálfstæðisflokkurinn stærsti flokkur íslenska stjórnmála á ný, fylgi búsáhaldarflokksins er nánast horfið og Framsóknarflokkurinn bætir einnig verulega við fylgið sitt.

Það er áhugavert að skoða þróun á fylgi stjórnmálaflokkanna undanfarna mánuði. Fylgi ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna hefur hrapað og hefur skv. nýjustu skoðanakönnun Gallúps, ekki stuðning meirihluta þjóðarinnar. Á meðan mælist Sjálfstæðisflokkurinn stærsti flokkur íslenska stjórnmála á ný, fylgi búsáhaldarflokksins er nánast horfið og Framsóknarflokkurinn bætir einnig verulega við fylgið sitt.

Sjaldan eða aldrei hefur stuðningur við ríkisstjórn hrapað eins fljótt eins og hjá núverandi ríkisstjórn. Tæpum mánuði eftir kosningasigur vinstri flokkanna mældist stuðningur við ríkisstjórnina 60,7% á meðal íslensku þjóðarinnar og var í algjöru hámarki. Lífið hefur því verið ljúft í stjórnarráðinu á þeim tíma, ríkisstjórnin hafði fullt traust þjóðarinnar til að taka til hendinni.

En íslenska þjóðin áttaði sig fljótlega á því að hún varð svikin. Háfleyg kosningaloforð ríkisstjórnarflokkanna stóðust að sjálfsögðu ekki. Almenningur hefur enn ekki hugmynd um hvernig þessi umtalaða skjaldborg lítur út, ekkert hefur verið gert til að leysa skuldavanda heimilanna, íslenska krónan virðist vera ónýt og eina sem virðist hafa verið gert í stjórnarráðinu síðustu mánuði er að skuldsetja íslensku þjóðina fyrir hundruð milljarða vegna Icesave.

Einungis rúmum mánuði síðar kom ný skoðanakönnun frá Gallúp og þar fengu ríkisstjórnarflokkarnir skell. Íslenska þjóðin var ekki lengi að missa trúna á ríkisstjórninni fyrir aðgerðarleysið. Ríkisstjórnin hafði tapað fimmtungi af fylgi sínu og hafði hún einungis stuðning um helmings þjóðarinnar.

Í síðustu skoðanakönnun Gallúps sem birtist í síðustu viku kemur í ljós að stuðningur við ríkisstjórnina fellur enn. Einungis 46% íslensku þjóðarinnar segist styðja hana. Það virðist því ekki vera langt í að núverandi ríkisstjórn byrji að sjá sömu vinsældartölur og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar.

Á meðan fylgi ríkisstjórnarinnar minnkar, eykst fylgi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Sjálfstæðisflokkurinn sem fékk einungis rúm 24% í Alþingiskosningunum er orðinn stærstur íslenskra stjórnmálaflokka og er mjög nálægt því að brjóta 30% múrinn. Framsóknaflokkurinn hefur einnig verið að bæta sig um nokkur prósentustig og virðist vera að ná fyrri styrk með vasklegri framkomu á þingi síðustu vikur.

Fylgi Búsáhaldarflokksins, Borgarahreyfingarinnar eða Hreyfingarinnar þurrkast hinsvegar út. Fólk sem trúði á þeim tíma að þessi nýi flokkur mundi ekki verða eins og fjórflokkarnir, þar sem spilling, klíkumyndun og hnífasett væru áberandi, er búinn að bregðast kjósendum sínum. Fylgið er rétt um tvö prósent og hefur aldrei verið lægra.

Það verður því spennandi að fylgjast með þróuninni á fylgi stjórnmálaflokkanna næstu vikur og mánuði. Mikið hefur gengið á í íslenskum stjórnmálum undanfarið sem mun án efa hafa áhrif á fylgi flokkanna. Og ef fer sem horfir þá er kannski ekki langt í það að fólk hópist á ný á Austurvelli og hrópi “vanhæf ríkisstjórn”.

Latest posts by Jan Hermann Erlingsson (see all)