Stórborgarar

Upp úr hinni svokölluðu búsáhaldabyltingu varð til nýtt stjórnmálaafl, Borgarahreyfingin. Henni var ætlað að tryggja nýja tíma í íslenskri pólitík. Spilling átti að fara út en lýðræði og gegnsæi áttu að koma í staðinn. Tilgangurinn var einlægur en nú nokkrum mánuðum síðar logar allt stafnanna á milli í þessum nýja stjórnmálaflokki og hafa allir þingmenn flokksins yfirgefið hreyfinguna.

Upp úr hinni svokölluðu búsáhaldabyltingu varð til nýtt stjórnmálaafl, Borgarahreyfingin. Henni var ætlað að tryggja nýja tíma í íslenskri pólitík. Spilling átti að fara út en lýðræði og gegnsæi áttu að koma í staðinn. Tilgangurinn var einlægur en nú nokkrum mánuðum síðar logar allt stafnanna á milli í þessum nýja stjórnmálaflokki og hafa allir þingmenn flokksins yfirgefið hreyfinguna.

Þegar búsáhaldabyltingunni lauk tóku nokkrir hagsmunahópar sig saman og stofnuðu nýtt stjórnmálaafl sem hlaut nafnið Borgarahreyfingin. Fyrir síðustu kosningar kom flokkurinn sér fyrir á notalegum stað á Laugaveginum og hóf kosningabaráttu sína. Áberandi í glugga húsnæðisins var svo hið víðfræga „helvítis fokking fokk“ skilti sem hafði orðið tákngervingur mótmælanna.

Meðlimir og frambjóðendur Borgarahreyfingarinnar voru einstaklingar sem höfðu margir hverjir verið áberandi í mótmælunum og „barið á glugga Alþingis“ í von um breytingar. Hversu mikið barsmíðarnar eru hins vegar til eftirbreytni skal ósagt látið. En á einhvern hátt urðu þessir einstaklingar hálfgerðar þjóðhetjur í augum margra landsmanna og stuðningur við Borgarahreyfinguna jókst dag frá degi.

Þetta nýja stjórnmálaafl náði ágætis flugi í kosningabaráttunni enda áttu baráttumál flokksins upp á pallborðið hjá mörgum á þeim tíma, t.d stjórnlagaþing, persónukjör og skýrri þrískipting ríkisvalds. Þau vildu hreinsa út spillingu og koma á virkara lýðræði. Allt eru þetta atriði sem höfðuðu til margra á þessum tíma. Það er líka rómantísk hugsjón sem býr að baki stofnun slíks stjórnmálaafls. Að venjulegt fólk hafi fundið sig knúið til að standa upp og mótmæla óréttlæti sem það taldi sig beitt, mætt dag eftir dag og mótmælt og svo að lokum látið raunverulega til sín taka og boðið fram til Alþingis er hrífandi atburðarrás. Merki Borgarahreyfingarinnar, appelsínugula slaufan, varð svo táknræn fyrir borðann sem þeir, sem mótmæltu friðsamlega, báru.

Borgarahreyfingunni var þó aldrei ætlað að starfa lengi enda var það eitt af aðalsmerkjum hennar að hreyfingin yrði lögð niður þegar markmiðum hennar væri náð. Henni hefur tekist það markmið sitt að starfa ekki lengi, þar sem nú hafa allir þingmenn hreyfingarinnar yfirgefið hana, en öðrum markmiðum er langt frá því náð.

Sá fyrsti sem lét sig hverfa, Þráinn Bertelsson, yfirgaf Borgarahreyfinguna í sumar þegar aðild að ESB var aðalmálið. Eitt helsta baráttumál þingmanna Borgarahreyfingarinnar var að sækja um aðild að ESB en þegar á hólminn var komið reyndu þrír þingmenn hennar að gera sig breiða og hótuðu að kjósa gegn umsókn um ESB aðild vegna Icesave. Þau sem sóttu umboð sitt til kjósenda undir þeim formerkjum að stunda heiðarleg stjórnmál voru strax komin í klækjastjórnmál og farin að nota hugsjónir sínar sem skiptimynt.

Eftir þessa uppákomu hófst kalt stríð milli þremenninganna og Þráins. Það var vægast sagt kostulegt að fylgjast með skotunum sem flugu á báða bóga sem náði hámarki með tölvupósti sem Margrét Tryggvadóttir sendi þar sem hún viðraði áhyggjur sínar af því að Þráinn væri þunglyndur og hugsanlega með Alzheimerssjúkdóminn. Þráinn brást að sjálfsögðu ókvæða við og Margrét baðst afsökunar í ræðustól á Alþingi. Ágætis farsi fyrir utanaðkomandi að fylgjast með. Þingmenn Borgarahreyfingarinnar tóku það svo sannarlega bókstaflega að allt skyldi vera fyrir opnum tjöldum.

Svo gerðist það fyrir stuttu að þeir þrír þingmenn sem eftir voru ákváðu að yfirgefa Borgarahreyfinguna og stofnuðu nýtt afl sem þeir nefndu einfaldlega Hreyfinguna. Þetta gerðist eftir átök innan Borgarahreyfinginnar þegar ný stjórn var kjörin. Þráinn Bertelsson ákvað að starfa áfram sem óháður þingmaður. Borgarahreyfingin á því engan þingmann lengur, um það bil hálfu ári eftir kosningar.

Það má með sanni segja að örlög Borgarahreyfingarinnar séu fyrst og fremst sorgleg. Á áður óþekktum hraða tókst þeim að splundra sér innan frá. Miklar vonir voru bundnar við þetta nýja afl, nýir tímar í íslenskum stjórnmálum virtust fyrir sumum vera að renna upp þar sem fjórflokkurinn yrði skilinn eftir. Sá draumur varði ekki lengi og urðu þingmenn Borgarahreyfingarinnar hálfpartinn að athlægi. Nýjustu skoðanakannanir sýna að fylgi Borgarahreyfinginnar er að miklu leyti horfið. Fáir hafa því valdið jafn miklum vonbrigðum jafn hratt og Borgarahreyfingin.

Latest posts by Helga Lára Haarde (see all)

Helga Lára Haarde skrifar

Helga Lára hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.