Peter Schiff

Það voru ekki margir sem sáu fyrir lánsfjármagnskreppuna sem reið yfir Bandaríkin og fleiri ríki á Vesturlöndum fyrir ári síðan. En einn þeirra var hagfræðingurinn og viðskiptamaðurinn Peter Schiff. Með nýtilkominni frægð í kjölfar myndbands sem tekur saman öll þau viðtöl þar sem hann er niðurlægður fyrir neikvæðni sína undanfarin ár hefur hann nú ákveðið að bjóða sig fram til Bandaríkjaþings í komandi kosningum. Tilgangurinn? Jú, að bjarga Bandaríkjamönnum frá yfirvovandi óðaverðbólgu.

Þegar rykið settist eftir fall (og/eða björgun) fjármálarisanna á Wall Street síðasta sumar og haust, s.s. Bear Sterns, Lehman Brothers og Merryll Lynch, fóru menn að grafa upp spádóma og viðtöl við þá fáu sem höfðu reynt að vara við. Þeirra frægastur er líklega Dr. Nouriel Roubini – uppnefndur Doktor Dómsdagur – prófessor í hagfræði við New York Háskóla. Annar „björn“ – þ.e. sá sem er efins um burði hagkerfisins til að viðhalda sjálfbærum markaðsvexti – Albert Edwards við Societé General, er búinn að vera svartsýnn á bandarískt efnahagslíf frá 1996. Og með réttu, því ef menn hefðu farið eftir ráðleggingum hans frá haustinu 1996 og fjárfest í ríkisskuldabréfum hefði það verið arðbærari fjárfesting en SP500 vísitalan myndi gefa.

En fyrir utan Roubini og Edwards er það líklega hagfræðingurinn og atvinnufjárfestirinn Peter Schiff sem hefur öðlast einna mesta frægð eftir hrunið. Schiff var ófeiminn við að koma fram í ótal viðtalsþáttum á stöðvum á borð við Bloomberg, CNBS, Fox News o.fl. síðustu árin þar sem hann kom á framfæri viðhorfi sínu gagnvart bandaríska markaðnum. Oftar en ekki var það með öðrum sérfræðingum og bankamönnum sem yfirleitt kusu að gera lítið úr honum. En sá hlær best sem síðast hlær og það er góð skemmtun að skoða myndbandið á Youtube sem tekur saman helstu viðtölin.

Schiff virðist byrja á að koma fram í viðtölum stuttu eftir litlu kreppuna 2001 þar sem hann lýsir yfir áhyggjum sínum af stjórnlausum fjáraustri ríkisins í húsnæðismarkaðinn, áróðursmaskínu banka og fjárfestingarfyrirtækja og gagnrýnir of lága stýrivexti Seðlabanka Bandaríkjanna með Alan Greenspan við stjórnvölinn. Hann hafði áður verið svartsýnn á dotcom fyrirbærið og eindregið ráðlagt viðskiptavinum síns nýstofnaða fyrirtækis – Euro Pacific Capital – frá því að kaupa bréf í slíkum fyrirtækjum. Þegar komið er fram undir 2005 og 2006 kemur sannfæring og þekking Schiff á því hvað er að gerast betur og betur í ljós. Aldrei nokkurn tímann efast hann um hvernig fer. Og hann veit að skellurinn verður stór.

Það leynir sér ekki að Peter Schiff aðhyllist austurríska skólann í hagfræði. Aftur og aftur bendir hann á það sem hann telur staðreynd, að inngrip stjórnvalda í framboð og eftirspurn á fjármagni sé til þess eins að gera slæma hluti verri. Inngripið geti lægt þjáningarnar tímabundið, en á endanum séu stjórnvöld að mála sig út í sífellt smærra horn sem taka þarf á fyrr en síðar. Hann vill sjá frjálsan og óheftan markað sjálfum sér nægur um að viðhalda sjálfbæru jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar, framleiðslu, neyslu og sparnaðar. Schiff virðist ekki útiloka sveiflur en telur þær nauðsynlegar til að viðhalda hinu viðkvæma jafnvægi markaðarins. Semsagt mikill ídealisti sem gefur engan afslátt á hreinleika austurríska skólans.

Schiff, eins og aðrir, telur að vandræði Bandaríkjanna felist í þeirri einföldu staðreynd að þar sé komið grimmdarlegt ójafnvægi milli neyslu annars vegar, og sparnaðar og framleiðslu hins vegar. Neysla stendur undir um 70% af þjóðarframleiðslu Bandaríkjanna á meðan sambærilegt hlutfall er nær því að vera 50% í Evrópusambandinu. Þetta ójafnvægi hafi verið til staðar í nokkurn tíma og eigi sér vitanlega skýringar í stöðu dollarans sem milliríkjagjaldmiðlis sem leyfi peningaprentun og skuldsetningu án verulegrar veikingar gjaldmiðilsins. En það breyti því ekki að kerfið verði að teljast ósjálfbært og að slíkt ástand vari ekki að eilífu. Á endnum muni Kínverjar og fleiri þjóðir skilja það að það sé betra fyrir þær að sparka Bandaríkjamanninum af eyðieyjunni en að halda honum þar, svo að vísað sé í dæmisögu sem hann notar gjarnan. Þar ber hann ástandið saman við það ef sjö Kínverjar og einn Bandaríkjamaður eru strandaðir á eyðieyju. Allir fái eitthvað hlutverk, t.d. við að afla eldiviðar, veiða fisk, safna vatni o.s.frv. Nema Bandaríkjamaðurinn. Hann fái það hlutverk að borða matinn. Sumir myndu segja að félagsskapur Bandaríkjamannsins sé góður. Hann veiti Kínverjunum störf. En einn góðan veðurdag munu Kínverjarnir átta sig á því að þeir myndu hafa það betra ef þeir spörkuðu Bandaríkjamanninum af eyjunni. Þeir, ásamt Japönum o.fl. muni semsagt á endanum sjá að sér að lána Bandaríkjamönnum fé, og það boði ekki gott. Miðað við nýjustu fréttir virðist það ferli hafið, en frést hefur að Seðlabankar margra ríkja séu að kaupa hlutfallslega mun minna af Bandaríkjadölum, en þeim mun meira af Jenum og Evrum, en venja er.

Schiff gagnrýnir að sjálfsögðu björgunaraðgerðir Bandaríkjastjórnar til handa fjármálalífinu og viðskiptalífinu og telur að hagkerfið þurfi í raun að ganga í gegnum mun skarpari sveiflu til að koma á jafnvægi í þjóðarbúskapnum og hindra óðaverðbólgu. Bandaríkin eigi að spara og ekki slá ný lán til að viðhalda ósjálfbærri og skaðlegri neyslu. Bandaríski seðlabankinn þurfi að hækka stýrivexti. Hann hefur augsýnilega mestar áhyggjur af stöðu Bandaríkjadollars og telur einsýnt að í kjölfar kreppunnar muni skuldsetningin og dvínandi máttur dollarans leiða til mikillar verðbólgu. Hugsanlega óðaverðbólgu.

Þótt Schiff sé í grunninn til viðskiptamaður ákvað hann að láta undan þrýstingi aðdáenda sinna og bjóða sig fram til Bandaríkjaþings fyrir heimaríki sitt Connecticut, gegn demókratanum Chris Dodd i komandi þingkosningum. Tilgangurinn? Að kenna þingmönnum undirstöðuatriði í hagfræði (af austurríska skólanum af sjálfsögðu) og reyna að hindra að óðaverðbólgan verði að veruleika. En það er langur vegur frá hinum ídealísku kenningum austurríska skólans að hinum praktíska pólitíska veruleika Washingtonborgar. Eða eins og einn fréttamaður spurði hann, hvernig hann ætlaðist til að vera kosinn á þing með þau skilaboð að yfirvöld eigi að halda að sér höndum, draga úr útgjöldum og óhjákvæmilega dýpka núverandi kreppu. Schiff gat illa svarað því, þar sem hinar jákvæðu afleiðingar kenninga hans krefjast fórna í núinu. Blásýra stjórnmálamannsins. Og á tímum þegar kenningar Keynes virðast allsráðandi og ídealistar austurríska skólans úti í kuldanum er líklegt að Schiff eigi á brattann að sækja.

En ef svo fer sem hann spáir, að staða dollarans veikist áfram með hugsanlegri óðaverðbólgu og eignarýrnun, hljóta æ fleiri að spyrja sig af hverju ekki sé hlustað á Schiff og hans meiningar. Ef illa fer fyrir núverandi stjórnvöldum, og að útgöngustrategía þeirra virkar ekki (sem Schiff er jafnviss um og hann var um hrun fjármálamarkaðarins) gæti farið svo að Bandaríkjamenn neyðist til að draga verulega úr útgjöldum á ýmsum sviðum, s.s. varnarmálum, og spara við sig þann munað sem þeir annars eru vanir. Það hlýtur að fara illa ofan í Bandaríkjamenn. Að finnast þeir ekki hafa sömu yfirburðastöðu gagnvart hinum stóra heimi, sem þeir þekkja svo lítt. Slík óöryggistilfinning gæti hleypt mönnum eins og Schiff inn á nýjar framabrautir og gerbreytt hinu pólitíska landslagi í Bandaríkjunum.

Stuðningur:
The End is Nigh (again). Unrepentant Bears, The Economist, 3. Október-9. október 2009
Wikipedia
Europac.net

Latest posts by Samúel T. Pétursson (see all)

Samúel T. Pétursson skrifar

Sammi hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.