Eru konur, konum verstar ?

Við höfum öll gott af því að vera meðvituð um jafnrétti, ekki bara jafnrétti milli karla og kvenna heldur jafnrétti í þjóðfélaginu almennt. Misjafn er sauður í mörgu fé og handahófskennd flokkun sem snýr að kynferði er engan veginn réttlátur mælikvarði á hæfileika hvers einstaklings í frjálsu samfélagi.

Síðastliðna helgi hélt Landssamband sjálfstæðiskvenna (LS) landsþing í Stykkishólmi og sendi í kjölfarið frá sér ályktun. Í ályktuninni er tæpt á helstu hlutum sem viðkoma þjóðfélaginu í dag, flest allt almennt orðað og hnykkt á þeim hlutum sem snúa að sjálfstæðisstefnunni og þarfnast lagfæringar. Ein málsgrein í ályktuninni telur pistlahöfundur félaginu ekki til framdráttar, engan veginn í anda þeirrar stefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir og umfram allt vanvirðing við allar konur í flokknum. Málsgreinin sem um ræðir er svo hljóðandi:

„Landssamband sjálfstæðiskvenna telur að framtíð landsins verði best tryggð með jafnri þátttöku kvenna og karla í stjórnmálum og atvinnulífi. Landssamband sjálfstæðiskvenna mun á næsta starfsári beita sér fyrir því að flokkurinn samþykki jafnréttisstefnu sem skal fylgt í öllum störfum flokksins. Það er lágmarkskrafa að efstu sæti framboðslista flokksins verði jafnt skipuð konum og körlum.“

Auðvitað er gott fyrir framtíð Íslands að það sé sem fjölbreyttastur hópur fólks sem leggur lóð á vogarskálarnar til þess að byggja upp landið, hvort sem er í atvinnulífi eða stjórnmálum. Að sjálfsögðu þurfum við á öllu því góða fólki að halda sem við höfum til þess að komast upp úr kreppunni. Að setja lágmarkskröfu um að helmingur framboðslista sé skipaður konum er aftur á móti alveg jafn fráleitt og að setja þá kröfu að helmingur lista sé skipaður örvhentu fólki.

Nú hef ég tekið þátt í fjölbreyttu félagsstarfi, starfað í ýmsum stjórnum og unnið á mörgum vinnustöðum. Aldrei hef ég orðið þess vör að karlmönnum sé betur treyst til forystu eða stjórnunnar heldur en kvenfólki. Aldrei hef ég heldur fundið þörf fyrir hjálpardekk eða forskot við þau verkefni sem ég tek mér fyrir hendur „af því að ég er kona“ og ekki myndi mér heldur hugnast að vera á framboðslista fyrir þær sakir.

Við höfum öll gott af því að vera meðvituð um jafnrétti, ekki bara jafnrétti milli karla og kvenna heldur jafnrétti í þjóðfélaginu almennt. Misjafn er sauður í mörgu fé og handahófskennd flokkun sem snýr að kynferði er engan veginn réttlátur mælikvarði á hæfileika hvers einstaklings í frjálsu samfélagi.

Við sem tilheyrum yngri kynslóð þessa lands, þurfum að tileinka okkur þá hugsun að vinna saman með trú á okkur sjálf sem einstaklinga í samfélaginu. Hver einstaklingur hefur sína styrkleika og veikleika. Með nægu sjálfstrausti munu þeir hæfustu skara fram úr og skipta þar kynfæri engu máli. Þessum árangri verður ekki náð ef kynin skipta sér í sitt hvort hornið og velja sér þá sjálfsmynd að líta á sig sem annað hvort forréttindahóp eða fórnarlömb.

Latest posts by Erla Margrét Gunnarsdóttir (see all)