Hvað er að gerast í bönkunum?

Af og til eru fluttar fréttir af áformum bankanna um að fella niður skuldir fyrrum stóreignamanna og fyrirtækja þeim tengdum. Viðbrögð almennings láta ekki á sér standa. Og sem betur fer hafa þessi viðbrögð í einhverjum tilfellum haft þau áhrif að betur hefur farið en á horfði. En hversu mörg slík mál ætli nái fram að ganga án þess að fjölmiðlar komist á snoðir um þau fyrr en það er um seinan?

Af og til eru fluttar fréttir af áformum bankanna um að fella niður skuldir fyrrum stóreignamanna og fyrirtækja þeim tengdum. Viðbrögð almennings láta ekki á sér standa. Og sem betur fer hafa þessi viðbrögð í einhverjum tilfellum haft þau áhrif að betur hefur farið en á horfði.

En hversu mörg slík mál ætli nái fram að ganga án þess að fjölmiðlar komist á snoðir um þau fyrr en það er um seinan?

Eins og staðan er í dag geta skilanefndir og stjórnendur bankanna tekið ákvarðanir sem hafa stórkostlegar afleiðingar fyrir fjárhag ríkisins á bak við luktar dyr og án verulegs aðhalds frá almenningi sem eru eigendur bankanna. Þetta fyrirkomulag býður heim verulegri hættu á spillingu.

Það var eitt sinn svo að íslenska þjóðin treysti einfaldlega stjórnkerfinu til þess að bera hag sinn fyrir brjósti. Eftir það sem á undan er gengið er ekki hægt að ætlast til þess að þjóðin geri slíkt lengur. Þjóðin á skýlausa kröfu á stjórnvöld að þau tryggi algert gagnsæi við fjárhagslega endurskipulagningu illa settra fyrirtækja og einstaklinga.

Í vor setti Þórlindur Kjartansson fram eftirfarandi tillögu:

„Best væri ef ráðherrar gerðu viðamiklar kröfur um gagnsæi þegar til niðurfellingar krafna kemur. Setja ætti sem skilyrði fyrir niðurfellingu krafna að allar upplýsingar um fjárhagsstöðu viðkomandi fyrirtækis væru gerðar opinberar eins og gert er í gjaldþroti.“

Ég tek heilshugar undir þessa tillögu og skora á stjórnvöld að setja slíkar reglur hið snarasta. Best væri ef slíkt gilti einnig um niðurfellingu krafna til einstaklinga sem nema samtals hærri upphæð en 50 m.kr.

Þórlindur er formaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna. Egló Harðardóttir, þingmaður framsóknarflokksins hefur tekið undir þessar hugmyndir. Ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri-Grænni hefur sagst ætla að efla gagnsæi í starfsemi bankanna. Það á að vera hægt að ná breiðri pólitískri samstöðu um að niðurfelling skulda sé gerð á gagnsæjan og skilvirkan hátt.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.