Höft eru axarsköft

Gjaldeyrishöftin hafa skapað veruleika þar sem hægt er að græða hundruð milljóna á því að kunna á gloppur kerfisins. Samfélag sem verðlaunar slíka þekkingu umfram allt annað er líklegt til að verða bæði spillt og staðnað.

Frétt Morgunblaðsins í gær um gott gengi þeirra sem sérhæfa sig í að spila á gjaldeyrishöftin ætti ekki að koma neinum á óvart. Það er varla að það taki því að lýsa skömm á þá aðila sem gera sér að féþúfu hið fráleita ástand sem nú ríkir á Íslandi, þótt ekki verði sagt að mikil reisn sé yfir hagnaði þeirra. Staðreyndin er þó sú að þess háttar brask, þar sem almenningur á Íslandi geldur fyrir tilraunir stjórnvalda til að halda uppi sýndargengi á íslensku krónunni, er óhjákvæmilegur fylgifiskur gjaldeyrishaftanna.

Það mun hafa verið Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem fór fram á það við stjórnvöld á Íslandi að setja upp gjaldeyrishöft í desember sl. Þetta kom mörgum á óvart þar sem slík ráðlegging ku vera einsdæmi frá sjóðnum, sem ætíð hefur lagst þungt gegn slíkum tilraunum. Líklega er undantekningin gerð vegna þeirrar óvenjulega veiku stöðu sem íslenski gjaldmiðillinn er í og ótta við að gengi hans félli hrikalega ef markaðsöfl fengju að ráða för. Í staðinn fyrir að taka áhættuna á því var ákveðið að taka áhættuna á því að sjá hvernig það kæmi til með að leika íslenskt efnahagslíf og samfélag að búa við höftin og fylgifiska þeirra. Sá kostnaður getur þó verið ærinn.

Nú er komið í ljós að einn af fylgifiskum haftanna er sá að einstaklingar í tiltekinni stétt manna hefur grætt tugir, hundruð eða jafnvel mörg hundruð milljónir króna við að sniðganga þau höft sem almenningur og flest fyrirtæki þurfa að búa við. Þeir hafa það víst á orði sem stunda þessi gjaldeyrisviðskipti að gróðinn sé ennþá meiri nú heldur en þegar mesta siglingin var á íslenska bankakerfinu – og má fullyrða að þeir hafi ekki þurft að búa við sult og seyru þá. Þetta ástand, þar sem þeir sem eru snjallir að leika á kerfið græða mest, er uppskrift af stöðnun og afturför í samfélaginu.

Frjáls markaður hefur fengið á sig slæman stimpil að undanförnu. Samt sem áður hljóta flestir að sjá óréttlætið sem felst í því að mesti gróðabransinn á landinu sé fólginn í því að safna erlendum gjaldeyri í útlöndum, selja hann erlendis fyrir krónur, flytja þær til landsins og geta hugsanlega skipt þeim aftur í erlendan gjaldeyri á niðurgreiddu ríkisgengi með fleiri tuga prósenta hagnaði. Þetta er vandinn við ófrjálst hagkerfi þar sem stjórnmálamenn reyna að handstýra umhverfinu í þann farveg sem þeim þóknast. Við slíkar aðstæður verður meira spennandi að leita uppi misfellur á milli raunveruleikans og sýndarveruleikans (eins og er milli markaðsgengis og Seðlabankagengis krónunnar) og nýta sér það til hagnaðar heldur en að stofna til rekstrar utan um vörur eða þjónustu sem eftirspurn er eftir. En eftir því sem svona kerfi festist í sessi er hætt við því að sífellt fleiri aðlagi sig hinum óeðlilega veruleika. Þannig verður sú þróun að fyrst eru allir ósáttir við ruglið, svo læra menn að græða á ruglinu – og þá styttist í að ruglið eignist fyrirsvarsmenn og ýmis rök séu talin til þess að viðhalda ástandinu.

En veruleikinn er sá að tilraunir stjórnvalda til þess að skipa alþjóðlegum markaði fyrir varðandi gengi krónunnar eru jafnvel vonminni heldur en tilraunir riddarans hugumstóra til þess að berjast við vindmyllurnar. Það er nær að íslensk stjórnvöld séu eins og agnarsmár maur í baráttu við loftsteinaregn. Afleiðingarnar og kostnaðurinn fellur hins vegar á almenning sem niðurgreiðir gjaldeyrisbrask ríkisstjórnarinnar og svimandi hagnað hinna svokölluðu haftamiðlara sem nýta sér tækifærið – og við slíkar aðstæður er hætta á að enn minni raunveruleg verðmætasköpun eigi sér stað. Samfélagi er hætt við spillingu og stöðnun ef maður græðir meira á því að vera kenjóttur og kunna á kerfið – heldur en að vera snjall að uppfylla þarfir fólks og fyrirtækja. Þess vegna verður að afnema gjaldeyrishöftin nú þegar.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.