Risavaxið lífeyrislán til ríkisins

Um fátt annað er rætt þessa dagana en mikilvægi þess að snúa þróun efnahagsmála við og koma ríkisfjármálunum í betra horf. Því eru tillögur þingflokks sjálfstæðismanna um breytingar á skattlagningu lífeyrisiðgjalda kærkomið innlegg í umræðurnar. Tillögur sem hægt er að taka afstöðu til, vera á með eða á móti. En hvaða áhrif hafa þessar breytingar í raun?

Um fátt annað er rætt þessa dagana en mikilvægi þess að snúa þróun efnahagsmála við og koma ríkisfjármálunum í betra horf – auka tekjur og skera niður. Oft hefur þó meira um stór orð heldur en haldbærar tillögur. Því eru tillögur þingflokks sjálfstæðismanna um breytingar á skattlagningu lífeyrisiðgjalda kærkomið innlegg í umræðurnar. Tillögur sem hægt er að taka afstöðu til, vera á með eða á móti.

Þær tillögur sem fram hafa komið snúast í stuttu máli um að breyta skattheimtu lífeyrisiðgjalda á þann veg að í stað þess að skattleggja lífeyrisiðgjöld þegar þau eru greidd út í ellinni, verða þau skattlögð í dag. En hvaða áhrif hafa þessar breytingar í raun?

Fyrst ber að taka fram, þrátt fyrir að ýmsir hafi haldið annað fram, að slík tilfærsla breytir á engan hátt þeim ráðstöfunartekjum sem lífeyrisþegar fá greiddan út svo lengi sem aðrar breytur haldast óbreyttar. Það er tiltölulega einfalt reiknisdæmi. Í þessari tilfærslu er þó eitt tæknilegt útfærsluatriði sem þarf að tryggja, þ.e. að ég sem lífeyrisþegi fái einnig persónuafslátt í ellinni – þrátt fyrir að enginn verði dreginn af mér skatturinn. Þetta þýðir í framkvæmd að ríkið þarf að greiða mér út þann ónýtta persónuafslátt sem ég hefði annars nýtt hefði tekjuskattur verið dreginn af lífeyrisgreiðslunum við útgreiðslu.

Í hnotskurn má því segja að með þessari tilfærslu séu lífeyrisþegar að lána stjórnvöldum í dag hluta af framtíðarpersónuafslætti sínum. Stjórnvöld greiða síðan lánið til baka með skattlagningu þess tíma.

Það eru mörg rök fyrir því að skattleggja lífeyrisiðgjöld með þessum hætti eins og víða er gert annars staðar. Þá eru tekjur skattlagðir þegar verðmætasköpunin í formi launa verður til en ekki við neyslu. Þá má einnig færa fyrir því rök að eðlilegt sé að heildaralmannaþjónusta (greidd af skattfé) í samfélaginu hverju sinni eigi að haldast í hendur við verðmætasköpun í samfélaginu á sama tíma.

Ef hinn almenni launþegi fær jafn mikið greitt út við töku lífeyris og stjórnvöld fá aukið fjármagn til ráðstöfunar við þær óvenjulegu aðstæður sem við stöndum frammi fyrir í dag lítur málið nokkuð vel út. Svo lengi sem ríkið greiðir almenningi til baka ónýttan persónuafslátt elliáranna kemur tilfærslan ekki niður á almennum lífeyrisþegum. En á hinn bóginn er ljóst að þeir sjóðir sem lífeyrissjóðirnir sjálfir hafa á milli handanna til ávöxtunar verða umtalsvert minni.

Meginbreytingin er því falin í flutningi fjármuna úr vörslu lífeyrissjóðanna yfir í vörslu stjórnvalda, sem líkja mætti við risavaxið lífeyrissjóðslán. Eini munurinn er sá að lánið hefur ekki endanlegan gjalddaga, heldur er það í raun stöðugt framlengt út í hið óendanlega. Niðurstaðan er engin meginbreyting fyrir lífeyrisþega, umtalsvert betra sjóðstreymi ríkissjóðs vegna hins óendanlega láns en minna heildarumfang lífeyrissjóðanna.

Þrátt fyrir ýmsa kosti þessarar lausnar fæst því ekki annað séð en í raun sé verið að færa hluta af núverandi lífeyrissjóðakerfi yfir í frekar ógegnsætt gegnumstreymiskerfi, þar sem ríkið þarf í raun stöðugt að greiða „lánið“ til baka til okkar lífeyrisþega í framtíðinni til að við verðum ekki fyrir skerðingu vegna ónýtts persónuafsláttar. Það er því ljóst að þessar tillögur eru varhugaverðar af ýmsu leiti og ber því að stíga varlega til jarðar.

Latest posts by Andri Heiðar Kristinsson (see all)