Óður til kvenna

Í dag höldum við 19.júní, kvenréttindadaginn, hátíðlegan en þennan dag árið 1915 fengu íslenskar konur kosningarétt. Dagurinn í dag ætti að vera okkur áminning um að enn er jafnrétti kynjanna ekki náð að fullu en einnig ættum við að fagna þeim áföngum sem nú þegar hafa náðst.

Í dag höldum við 19.júní, kvenréttindadaginn, hátíðlegan en þennan dag árið 1915 fengu íslenskar konur kosningarétt. Dagurinn í dag ætti að vera okkur áminning um að enn er jafnrétti kynjanna ekki náð að fullu en einnig ættum við að fagna þeim áföngum sem nú þegar hafa náðst.

Ísland var með fyrstu löndum í heimi til að veita konum kosningarétt, en í raun voru þau lög samþykkt af Alþingi árið 1913 en konungur staðfesti þau ekki fyrr en árið 1915. Það er skemmtilegt til þess að hugsa að tilviljun ein réði því að dagurinn 19.júní varð fyrir valinu, eins og lesa má um í bók Sigríðar Th. Erlendsdóttur, Veröld sem ég vil. Þannig var að Klemenz Jónsson, landritari, fór með ráðherra á fund konungs og var honum falið að velja daginn sem lögin yrðu staðfest. Valdi hann 19.júní, 25 ára afmælisdag Önnu dóttur sinnar.

Stórum áfanga var raunar einnig náð strax árið 1911 þegar það var bundið í lög að konur höfðu jafnan rétt á við karla, til menntunar og embætta á Íslandi. Slík lög höfðu hvergi annars staðar tekið gildi á þeim tíma. En þó að lögin hafi veitt þennan rétt náðu konur ekki að nýta sér hann fyrr en löngu seinna. Því þó að lagalegur réttur sé til staðar verða samfélagsleg viðhorf að fylgja í kjölfarið. Þetta fengur konur þessa tíma að reyna.

Þorbjörg Sveinsdóttir stofnaði Hið íslenska kvenfélag árið 1894 og starfaði sem formaður þess í mörg ár. Helsta baráttumál hennar var að stofna háskóla á Íslandi. Með félaginu tókst henni að skapa breiðan hóp kvenna sem börðust fyrir rétti kvenna til menntunar og stjórnmálalegra réttinda.

Bríet Bjarnhéðinsdóttir var einn helsti baráttumaður fyrir kosningarétti kvenna. Hún var jafnframt stofnandi Kvenréttindafélags Íslands og fyrsti formaður þess. Bríet sýndi í baráttu sinni ótrúlega þrautseigju og óbilandi trú á málstaðinn og á endanum náðust þessi grundvallarréttindi í gegn. Hér má þó einnig nefna Hannes Hafstein sem var einn helsti baráttumaður fyrir réttindum kvenna innan veggja Alþingis og átti sinn hlut í þeim réttindum sem náðust í gegn.

Fyrsta konan sem var kosin á þing árið 1922 var Ingibjörg H. Bjarnason. Hún var í forystu kvenna sem stofnuðu Landspítalasjóð og stóðu fyrir mikilli söfnun til stuðnings byggingar sjúkrahúss. Þannig átti hún mikinn þátt í byggingu Landspítalans.

Auður Auðuns var fyrsta konan til að ljúka embættisprófi í lögum. Hún varð fyrsta konan til að gegna ráðherraembætti á Íslandi og hafði áður verið verið fyrsta konan til að gegna embætti borgarstjóra Reykjavíkur.

Margar konur hafa þurft að ganga grýttan veg til að ná fram réttindum sínum og voru í mikilvægu brautryðjendahlutverki, hver á sínu sviði. Sem dæmi má nefna Auði Eir Vilhjálmsdóttur sem var fyrsta íslenska konan til að gegna starfi sóknarprests en hún var vígð haustið 1974. Auður hafði þurft að ganga í gengum prestskosningar og takast á við margskonar fordóma um að konur ætti ekki að vera prestar. Í dag er það sjálfsagður hlutur að konur séu prestar. Auður ruddi brautina fyrir kvenpresta framtíðarinnar.

Fyrsta konan til að verða hæstaréttardómari og síðar forseti Hæstaréttar var Guðrún Erlendsdóttir árið 1986, en þá voru liðin heil 75 ár síðan Alþingi setti lög um jafnan rétt karla og kvenna til embætta.

Ísland hefur ávallt staðið framarlega þegar kemur að jafnrétti kynjanna, en fyrsta konan í heiminum til að verða forseti var Vigdís Finnbogadóttir. Vigdís var alla sína forsetatíð glæsileg fyrimynd fyrir ungar konur og er sú sem þetta ritar ennþá stolt af því að hafa fengið að planta trjám með Vigdísi fyrir um 20 árum síðan.

Á degi sem 19.júní ber að heiðra minningu þeirra kvenna sem ruddu brautina fyrir komandi kynslóðir. Þeim eigum við að þakka þau réttindi sem við teljum sjálfsögð í dag. En á þessum degi eigum við einnig að minnast á og hrósa þeim konum sem ná langt og skara fram úr. Á morgun fer fram útskrift í Háskóla Íslands, þar sem meirihluti allra nemenda eru konur. Kristín Ingólfsdóttir rektor, sem er fyrsta konan til að sinna starfi rektors HÍ, mun útskrifa stúdenta við hátíðlega athöfn. Kristín hefur staðið sig með stakri prýði sem rektor og sérstaklega undanfarið við afar erfiðar aðstæður í íslensku samfélagi.

Fyrr á þessu ári varð fyrsta konan forsætisráðherra á Íslandi, Jóhanna Sigurðardóttir. Þar var stórt skref unnið í jafnréttisbaráttunni. Jóhanna hefur lengi verið meðal vinsælustu stjórnmálamanna landsins. Hún hefur sinnt hlutverki sínu af elju og dugnaði þó að hlutskipti hennar um þessar mundir sé vissulega ekki öfundsvert.

Í dag sjá ungar stúlkur glæsilegar fyrirmyndir víða í samfélaginu. Þar má nefna borgarstjórann í Reykjavík, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, Rannveigu Rist, sem stýrir einu af stærstu fyrirtækjum landsins, Alcan á Íslandi, varaforseta ASÍ, Ingibjörgu R. Guðmundsdóttur. Margrét Pála Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar hefur verið ötull baráttumaður fyrir breyttum viðhorfum í menntakerfinu og í uppeldi, Björk Guðmundsdóttir, tónlistarmaður, hefur farið ótroðnar slóðir og sigrað heiminn algjörlega á eigin forsendum. Að lokum má nefna Margréti Láru Viðarsdóttur, fótboltakonu, en hún er heilbrigð fyrirmynd ungra stelpna um allt land en nauðsynlegt er að stelpur hafi góðar fyrirmyndir á sem flestum sviðum.

Að lokum vill höfundur nota daginn til að hvetja konur til dáða og frekari afreka og um leið fagna því sem áunnist hefur í réttindabaráttu íslenskra kvenna.

Latest posts by Helga Lára Haarde (see all)

Helga Lára Haarde skrifar

Helga Lára hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.