Vinstrimenn taki upp niðurskurðarhnífinn

Framundan er einn mesti niðurskurður sögunnar og nýkjörin ríkisstjórn virðist forðast það eins og heitan eldinn að ræða um hvar og hvernær verði skorið niður. Að vissu leiti er það skiljanlegt, enda ekki öfundsverð staða að þurfa að draga saman þjónustu ríkisins á hinum ýmsu sviðum. Þetta er væntanlega ekki draumahlutverk vinstrimanna, eða nokkurra stjórnmálamanna yfirleitt. Það leit allt út fyrir að þegar vinstrimenn kæmust loks til valda að þá hefðu þeir úr nægum sjóðum að spila þar sem íslenska ríki var nánast orðið skuldlaust fyrir hrun.

Framundan er einn mesti niðurskurður sögunnar og nýkjörin ríkisstjórn virðist forðast það eins og heitan eldinn að ræða um hvar og hvernær verði skorið niður. Að vissu leiti er það skiljanlegt, enda ekki öfundsverð staða að þurfa að draga saman þjónustu ríkisins á hinum ýmsu sviðum. Þetta er væntanlega ekki draumahlutverk vinstrimanna, eða nokkurra stjórnmálamanna yfirleitt. Það leit allt út fyrir að þegar vinstrimenn kæmust loks til valda að þá hefðu þeir úr nægum sjóðum að spila þar sem íslenska ríki var nánast orðið skuldlaust fyrir hrun. Allar skuldir höfðu verið greiddar niður, meira segja sá fyrir endann á hinu svokallaða barnaláni vinstrimanna. Jafnframt hafði ríkissjóður verið rekinn hallalaus, meira að segja með afgangi um þó nokkurt skeið, skattar höfðu verið lækkaðir og einhverjir afnumdir.

Þessar aðgerðir eru sannarlega í anda þeirrar stefnu sem hægrimenn kenna sig við, en það sem ekki á heima í hægri stefnunni er að þenja út ríkið og ríkisbáknið á kostnað skattgreiðenda. Það hefur vinstrimönnum yfirleitt verið eftirlátið, en undanfarin ár hafa ríkisútgjöld vaxið samhliða auknum tekjum á vakt Sjálfstæðisflokksins. Það voru mistök. Í stað þess að láta einstaklinganna njóta þess í enn lægri sköttum, ákváðu stjórnmálamennirnir að þeir skildu útdeila gæðunum. Þetta er auðveld freisting fyrir stjórnmálamenn að falla í þar sem þeir þurfa að uppfylla loforðalistann eftir kosningar. En hvor skyldi vera betur fallinn til þess að hugsa um velferð einstaklingsins, hann sjálfur eða stjórnmálamaðurinn?

Sá veruleiki sem við horfum fram á í dag er einhvernveginn öfugsnúinn að mati greinarhöfundar. Síðustu átján ár hefur ríkisstjórn leidd af hægri mönnum (að undanskyldu Framsóknarárinu hans Halldórs Ásgrímssonar) aukið útgjöld ríkissins nánast stöðugt og nú þegar vinstri stjórn kemst til valda þá verður það hennar hlutverk að skera niður og minnka útgjöld ríkisins.

Hvað er til ráða?
Pólitík snýst að einhverju leiti um völd þar sem stjórnmálamenn sem eru við völd hverju sinni fá tækifæri til þess að koma sínum hugsjónum og stefnu síns flokks til framkvæmda. Mestu völdin hafa legið hjá ráðherrunum sem eiga um 90% allra mála sem fara í gegnum þingið á hverju ári. Í mörgum af þessum frumvörpum, nú lögum eru ráðherrarrnir að byggja undir sig. Það sem við er átt, er að þeir eru að stækka ráðuneytið, fjöga starfsmönnum, fjölga stofnunum sem heyra undir viðkomandi ráðherra osfrv. Þingmennirnir margir hverjir sem sitja á „hliðarlínunni“ og bíða eftir ráðherradómi láta þetta yfir sig ganga með von um frama á síðari stigum.

EITT skref í að jafna vægið á milli löggjafans og framkvæmdavaldisins væri að ráðherrar segðu af sér þingmennsku um leið og þeir tækju við ráðherradómi. Þannig myndast skýrari skil á milli þessara tveggja arma ríkisvaldsins. Ráðherrar hefðu málfrelsis og tillögu rétt, en gætu ekki greitt atkvæði um eigin frumvörp. Við þetta yrði löggjöfin að öllum líkindum betri þar sem ráðherrarnir þyrftu að sannfæra þingheim um mikilvægi þingmála sinna, þar sem þeir gætu ekki treyst á atkvæði framkvæmdavaldsins.

ÖNNUR ástæða fyrir því að fjárlögin hafa þanist út milli ára er að fjárlagagerðin hefur ekki verið nægjanlega markviss. Fyrirkomulagið hefur verið þannig undanfarin ár, að undanskyldu því síðasta að fjárlaganefndin hefur setið í u.þ.b. þrjá mánuði á ári og tekið einstaklinga, félagasamtök ofl. í viðtal til sín til að ræða styrkveitingar upp á nokkur hundruð þúsund. Væri ekki nær að fjárlaganefndin myndi einbeita sér að stóru málunum, ríkisstofnunum sem nú telja 220 talsins eða ráðuneytunum 12 – þetta eru stóru útgjaldaliðirnir sem skipta raunverulegu máli í ríkisfjármálunum. Jafnframt er nauðsynlegt að stjórnvöld beiti völdum sínum þegar ríkisstofnanir fara fram úr fjárlögum. FjárLÖG, eru lög sem á að fylgja. Brjóti menn gegn þessum lögum líkt og öðrum lögum ber þeim að sæta ábyrgð.

ÞRIÐJA leiðin við að hemja ríkisútgjöldin væri að fækka ráðuneytum. Af hverju skildum við þurfa 12 ráðuneyti? Hér fyrir neðan er að finna lista yfir ráðuneytin tólf ásamt æðstu yfirstjórn, en hér má sjá hversu margar stofnanir heyra undir hvert ráðuneyti. Á vefsíðu stjórnarráðsins má hins vegar sjá nánari útlistun á hvaða stofnanir þetta eru. Það er fagnaðarefni að ný ríkisstjórn ætli sér að fækka ráðuneytum, betra hefði þó verið að fara í þá framkvæmd strax. Það má færa rök fyrir því að með sameiningu ráðuneyta sé auðveldara að réttlæta sameiningu stofnanna sem undir þau heyra. Jafnframt má segja að með vísan í það sem áður hefur komið fram að þeim mun færri ráðherrar, þeim mun lægri útgjöld.

Æðsta yfirstjórn 7 stofnanir
Forsætisráðuneyti 8 stofnanir
Menntamálaráðuneyti 52 stofnanir
Utanríkisráðuneyti 3 stofnanir
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti 8 stofnanir
Dóms- og kirkjumálaráðuneyti 43 stofnanir
Félags- og tryggingamálaráðuneyti 17 stofnanir
Heilbrigðisráðuneyti 31 stofnanir
Fjármálaráðuneyti 20 stofnanir
Samgönguráðuneyti 9 stofnanir
Iðnaðarráðuneyti 6 stofnanir
Viðskiptaráðuneyti 7 stofnanir
Umhverfisráðuneyti 14 stofnanir

Óljós yfirvofandi niðurskurður á starfsemi ríkisins getur verið starfsmönnum ríkisins erfiður og skapar óöryggi. Eðlilegra væri að stjórnvöld gæfu út hvar og hvenær niðurskurðarhnífurinn yrði settur niður í stað þess að halda starfsmönnum ríkisins í vafa um stöðu sína og framtíð.

Ekki má heldur gleyma því að eitt af skilyrðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem Ísland hefur skuldbundið sig við, er að ríkisútgjöld verði skorin niður. Fulltrúar sjóðsins hafa gefið út, að fari ríkisstjórnin ekki í niðurskurðaraðgerðir strax, munu stýrivaxtalækkanir Seðlabankans verða takmarkaðar í júní. Einstaklingar og fyrirtæki rekast ekki mikið lengur áfram við þessa háu vexti. Það er því á ábyrgð ríkisstjórnarinnar að skapa þessi skilyrði svo hægt sé að lækka vexti, heimilum og atvinnulífi til hagsbóta.

Latest posts by Erla Ósk Ásgeirsdóttir (see all)

Erla Ósk Ásgeirsdóttir skrifar

Erla hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2003.