Ný vakt við kjötkatlana

Á síðustu mánuðum hefur komið í ljós að umtalsverð spilling átti sér stað í tíð þeirra ríkisstjórna sem setið hafa á undanförnum árum. Nú hafa kjósendur valið nýtt fólk í brúna, en það væru mikil mistök að sofna á verðinum. Þeir sem nú taka við munu leika sama leikinn ef þeir fá tækifæri til.

Á síðustu mánuðum hefur komið í ljós að umtalsverð spilling átti sér stað í tíð þeirra ríkisstjórna sem setið hafa á undanförnum árum, og líklegt er að hún hafi átt þátt í hversu illa fór í viðskiptalífinu síðasta haust. Nú hafa kjósendur valið nýtt fólk í brúna, en það væru mikil mistök að sofna á verðinum. Þeir sem nú taka við munu leika sama leikinn ef þeir fá tækifæri til.

Spilling er því miður vandi sem seint verður upprættur að fullu. Íslendingar hafa sem betur fer búið við mun betra ástand en mörg önnur lönd, en þó hefur komið í ljós að við vorum óhóflega bjartsýn, og áttuðum okkur ekki á umfangi þeirra óeðlilegu tengsla sem voru til staðar, bæði á milli einstakra aðila í viðskiptalífi og á milli viðskiptalífs og stjórnmála.

En þótt ekki sé hægt að koma í veg fyrir að fólk misnoti aðstöðu sína, þá geta kjósendur dregið úr möguleikunum með því að standa á verðinum og samþykkja ekki að kjósa yfir sig fólk sem hefur breytt rangt. Við höfum ekki látið siðgæði, opið og heiðarlegt viðskipta- og stjórnmálaumhverfi vega nægilega þungt þegar við höfum valið okkur stjórnendur.

Til að draga úr líkunum á því að stjórnmálamenn ástundi óheiðarleg vinnubrögð er heppilegt fyrir kjósendur að viðhafa eftirfarandi reglur þegar staðið er frammi fyrir kjörkassanum – og að láta stjórnmálamenn vita af því:

  1. Forðast ætti að kjósa þá sem hafa misnotað aðstöðu sína til að afla sjálfum sér meiri tekna, fríðinda eða annars persónulegs ávinnings. Slíkt er auðvitað með alvarlegri dæmum um misbeitingu embætta og kostnaður þjóðfélagsins við slíkt getur verið mun meiri en sem svarar ágóða þess sem í hlut á, því grafið er undan regluverki og skilvirkri stjórnsýslu.
  2. Forðast ætti að kjósa þá sem hafa misnotað aðstöðu sína til að afla fjölskyldumeðlimum, vinum, kunningjum eða viðskiptafélögum fjárhagslegs ávinnings eða embætta. Þegar kunningsskapur við valdhafa er uppskrift að velgengni dregur úr hvata einstaklinga til að leggja hart að sér og standa sig vel.
  3. Forðast ætti að kjósa þá sem sýna anda laganna lítilsvirðingu, hvort sem hún er sýnd með embættisfærslum eða persónulegum athöfnum sem eru löglegar einungis af tæknilegum orsökum, eða þegar vegið er að hlutverki eftirlitsaðila á borð við samkeppniseftirlit, fjármálaeftirlit og umboðsmann Alþingis.
  4. Forðast ætti að kjósa þá sem skirrast við að setja skynsamlega löggjöf sem dregur úr möguleikum á spillingu og eykur líkurnar á að hún komist upp.

Þessar fjórar reglur eru engin töfralausn. En þeim ætti ekki að gleyma þótt kosningatörnin sé afstaðin.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)