Styrkleiki Sjálfstæðisflokksins

Það hefur verið á brattan að sækja fyrir Sjálfstæðisflokkinn að undanförnu. Flokkurinn sem verið hefur forystuafl í stjórnmálum landsins undanfarin 18 ár er nú kominn í minnihluta og situr á hliðarlínunni þegar teknar eru mikilvægar ákvarðanir um framtíð fjölskyldna og fyrirtækja landsins.

Það hefur verið á brattan að sækja fyrir Sjálfstæðisflokkinn að undanförnu. Flokkurinn sem verið hefur forystuafl í stjórnmálum landsins undanfarin 18 ár er nú kominn í minnihluta og situr á hliðarlínunni þegar teknar eru mikilvægar ákvarðanir um framtíð fjölskyldna og fyrirtækja landsins.

Nú þegar rétt rúmir 10 dagar eru til kosninga glímir flokkurinn trúverðugleika vandamál vegna styrkja sem flokkurinn veitti viðtöku árið 2006. Margir hafa lagst á eitt við að gera þetta mál sem tortryggilegast fyrir flokkinn og kjörna fulltrúa hans, en ekki má gleyma því að það eru talsverðir hagsmunir fyrir pólitíska andstæðinga Sjálfstæðisflokksins að þetta mál sé blásið upp í fjölmiðlum svo skömmu fyrir kosningar.

Ekki endilega vafasamt athæfi
Upphæðirnar sem um ræðir eru verulega háar séu þær miðaðar við styrki frá öðrum fyrirtækjum til flokksins, en það merkir ekki endilega að um vafasamt athæfi hafi verið að ræða. Taka verður inn í myndina þær þjóðfélagsaðstæður sem voru á Íslandi á þeim tíma sem styrkirnir voru veittir og að staða fyrirtækjanna tveggja sem um ræðir var metin gríðarlega sterk á þeim tíma. Jafnframt er ekki hægt að horfa framhjá því að einstaklingarnir sem útveguðu styrkina höfðu sterkt tengsl inn í viðkomandi fyrirtæki. Það er hins vegar annað mál hvernig staðið var að ákvarðanatöku varðandi veitingu styrkjanna innan viðkomandi fyrirtækja.

Stjórnmálaflokkar hafa ekki efni á vafanum
Vandamál Sjálfstæðisflokkins og allra annarra stjórnmálaflokka hvað varðar styrkveitingar frá fyrirtækjum er að stjórnmálamenn hafa alls ekki efni á vafanum. Það sem átt er við er að það má aldrei vera vafi um hvort að styrkjum frá lögaðilum fylgi beiðni eða krafa um ákveðna fyrirgreiðslu á vettvangi stjórnmálanna. Vafinn einn og sér getur grafið undan því góða starfi sem unnið er innan stjórnmálaflokka. Stjórnmálamenn hafa mikil völd og það er gríðarlega mikilvægt fyrir samfélagið í heild að almenningur geti treyst því að stjórnmálamenn sama hvar í flokki þeir eru, taki ákvarðanir byggðar á heilindum og að þær séu teknar út frá bestu sannfæringu.

Styrkir frá lögaðilum bannaðir
Svo komið sé inn á aðdraganda laga um stjórnmálaflokka þá skipaði forsætisráðherra sérstaka nefnd fulltrúa allra flokka árið 2005 sem hafði það hlutverk að fjalla um lagalega umgjörð stjórnmálastarfsemi á Íslandi. Helstu álitamál nefndarinnar var hvernig takmarka ætti framlög einstaklinga og lögaðila til stjórnmálastarfsemi. Aðallega var tekist á um tvær mismunandi leiðir, önnur þeirra fól í sér að setja engin eða óveruleg bönn við framlögum. Hin leiðin fól í sér algert bann við framlögum lögaðila til stjórnmálastarfsemi og leyfa einungis félagsgjöld einstaklinga. Sjálfstæðismenn voru talsmenn þess að banna ætti alfarið styrki frá fyrirtækjum til þess að tryggja að að fyrirtæki væru ekki að hlutast óeðlilega til í starfsemi stjórnmálaflokka en ekki náðist samkomulag um það við aðra flokka.

Menn axla ábyrgð
Trúverðugleiki Sjálfstæðisflokksins hefur beðið skaða vegna móttöku þessarra tveggja styrkja, en bæði fyrrverandi formaður og framkvæmdastjóri flokksins hafa axlað ábyrgð á viðtöku þessara styrkja fyrir hönd flokksins. Núverandi forysta hefur jafnframt farið fram með góðu fordæmi og séð til þess að bókhald flokksins frá árinu 2006 hefur verið opnað og greint hefur verið frá öllum helstu styrkveitingum.

Endurskoðun, endurnýjun og endurreisn
Sjálfstæðisflokkurinn hefur á undanförnum mánuðum farið í gegnum mikla endurnýjun og endurskoðun. Nýr formaður, Bjarni Benediktsson, var kjörinn á Landsfundi flokksins í mars síðastliðnum og mikil endurnýjun hefur átt sér stað á framboðslistum flokksins í flestum kjördæmum. Tæplega helmingur þingflokksins væri skipaður nýjum andlitum fengi flokkurinn sama fylgi á landsvísu. Stefna flokksins í 15 málaflokkum var endurnýjuð og Evrópumálin skoðuð sérstaklega. Sjálfstæðisflokkurinn hefur einn stjórnmálaflokka farið óhikað í uppgjör við fortíðina í endurreisnarskýrslu flokksins. Flokkurinn er að mestu leiti búinn að gera hreint fyrir sínum dyrum og líður nú fyrir að hafa gert upp á hreinskiptin hátt. Aðrir flokkar virðast þó ekki telja sig bera neina ábyrgð eða þurfa að fara í uppgjör við fortíðina. Það þarf þor til þess að gera upp við fortíðina, en það er líka eina leiðin til þess að getað haldið óhikað áfram – sú endurskoðun sem átt hefur sér stað meðal sjálfstæðismanna er styrkleiki Sjálfstæðisflokksins.

Latest posts by Erla Ósk Ásgeirsdóttir (see all)

Erla Ósk Ásgeirsdóttir skrifar

Erla hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2003.