Vanhæf ríkisstjórn, vanhæf ríkisstjórn!

Kosningabarátta stjórnarflokkanna er hafin á þingi. Kosningabarátta sem snýst um að setja á dagskrá hvert gæluverkefnið á fætur öðru og núna stórt mál sem snýr að breytingum á stjórnarskrá okkar Íslendinga. Hvernig væri að núverandi ríkisstjórn myndi einbeita sér að bráðnauðsynlegum málum sem snúa að fólkinu í landinu?

Af hverju er Austurvöllur ekki þéttsetinn þessa dagana? Þakinn fólki berjandi í potta og pönnur sem krefst þess að umboðslaus ríkisstjórn hætti störfum nú þegar!

Jú, því ríkisstjórn „aðgerðanna“ var svo hugulsöm að bjarga okkur úr klóm Sjálfstæðisflokksins og nýta þennan mikilvæga tíma fram að kosningum í að bjarga heimilunum, eða hvað? Hin svokallaða aðgerðarstjórn er algjörlega búin að sýna það að í orði sem borði að verkstjórinn sem þeim fannst svo innilega vanta í brúnna hefur greinilega ekki hundsvit á hvaða aðgerðir heimilin þarfnast og hvað þá að hafa nokkuð haldbært vit á verkstjórn yfir höfuð.

Kosningabarátta stjórnarflokkanna er hafin á þingi. Kosningabarátta sem snýst um að setja á dagskrá hvert gæluverkefnið á fætur öðru og núna stórt mál sem snýr að breytingum á stjórnarskrá okkar Íslendinga. Hluti frumvarpsins, stjórnlagaþingið, var skýr krafa Framsóknarflokksins og sett fram sem skilyrði fyrir stuðningi við minnihlutastjórnina. Framsókn er þannig haldið góðum eins lengi og mögulegt er á meðan fylgi þeirra sígur niður með snöru ríkisstjórnarinnar. Fjölmargir fræðimenn og sérfræðingar hafa bent á galla frumvarpsins, en Samfylkingunni og Vinstri grænum finnst það alls ekkert tiltökumál, enda er þetta bráðnauðsynlegt fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu.

Hæstvirtur forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hefur greinilega einskæran áhuga á að verða fyrsti forsætisráðherrann í rúm 50 ár til að standa fyrir breytingum á stjórnarskránni án samstöðu á þinginu. Hún hefði betur skellt sér á NATO fundinn en vegna „anna“ hér heima fyrir sá Jóhanna sér ekki fært að mæta. Svo mikið er hæstvirtum forsætisráðherra mál að koma þessu í gegn að hún sést varla í þingsalnum til að hlusta á umræður og svara spurningum um sitt eigið frumvarp. Allt þetta er frekar kómískt í ljósi þess hversu duglegir fjölmiðlar voru að hampa vinsældum Jóhönnu á erlendri grundu þegar hún var skipuð verkstjóri en á móti kemur þá fékk Össur sitt kodak-móment með Obama.

Þrjóska og þrautseigja Sjálfstæðismanna er eðlileg og ánægjuleg. Í dag lögðu þingmenn Sjálfstæðisflokksins fram heiðarlega tillögu um breytingu á uppröðun málum þingsins svo hægt væri að taka fyrir þau mál sem lúta að hag heimilanna. Breyting stjórnarskráarinnar og stjórnlagaþing slökkva ekki elda dagsins í dag og er því fullkomlega eðlilegt að svona viðamikið frumvarp bíði nýrrar ríkisstjórnar með nýtt umboð frá þjóðinni.

Hvar er búsáhaldabyltingin núna? Úps, henni var greinilega sama um umboðið, heimilin og allt sem hún barðist fyrir. Hennar markmið var greinilega að koma Sjálfstæðisflokknum frá og leyfa aldurforsetum þingsins að snúast um skottin á sjálfum sér í nokkra daga í viðbót. Nokkrum mótmælaskiltanna hefur meira að segja verið stillt fallega upp til sýnis í gluggum húsnæðis vinstri grænna í miðbænum. Tilviljun? Hvernig væri að núverandi ríkisstjórn myndi einbeita sér að bráðnauðsynlegum málum sem snúa að fólkinu í landinu? Annars kostar tel ég skyldu þeirra að slíta þingi hið snarasta og heyja sína kosningabaráttu annars staðar en í þingsölum Alþingis.

Það er löngu kominn tími á Afsakið hlé á Alþingi fram til 25.apríl!

Latest posts by Erla Margrét Gunnarsdóttir (see all)