Af hverju fór Jóhanna ekki á NATO-fundinn? Í alvörunni.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, var eini þjóðarleiðtoginn sem ekki sótti leiðtogafund NATO um síðustu helgi. Opinberlega er því haldið fram af íslenskum stjórnvöldum að Jóhanna hafi ekki séð sér fært að mæta vegna anna heimafyrir. Fjarvera Jóhönnu á sér þó aðrar skýringar, að því er heimildir Deiglunnar herma.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, var eini þjóðarleiðtoginn sem ekki sótti leiðtogafund NATO um síðustu helgi. Opinberlega er því haldið fram af íslenskum stjórnvöldum að Jóhanna hafi ekki séð sér fært að mæta vegna anna heimafyrir. Fjarvera Jóhönnu á sér þó aðrar skýringar, að því er heimildir Deiglunnar herma.

Leiðtogafundur NATO fór fram á landamærum Frakklands og Þýskalands um helgina. Um tímamótafund var að ræða þar sem NATO fagnar nú sextíu ára afmæli, nýr framkvæmdastjóri hefur verið skipaður og Barack Obama, nýkjörinn Bandaríkjaforseti, sækir nú sinn fyrsta NATO-fund. Að venju var fundurinn sóttur af öllum leiðtogum aðildarríkjanna. Fundur sem þessi þykir sérstaklega mikilvægur fyrir smærri ríki vegna þess tækifæris sem hann veitir að milliliðalausum samskiptum við leiðtoga stórveldanna. Það hefur því eðlilega vakið athygli að forsætisráðherra Íslands sniðgengur fundinn á sama tíma og Íslendingar eiga mjög í vök að verjast á alþjóðavettvangi.

Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu þann 2. apríl sl. er greint frá þessum merkilega fundi og þátttöku Íslands þar. Segir í tilkynningunnni:

„Vegna mikilla anna á innanlandsvettvangi þarf Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, að hverfa frá áformum um þátttöku í leiðtogafundinum og í hennar stað verður Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, fulltrúi ríkisstjórnar Íslands.“

Þess má geta að fundinn sóttu, auk Össurar, þjóðarleiðtogar á borð við Gordon Brown, Nicolas Sarkozy, Angelu Merkel og síðast en ekki síst Barack Obama. Ekki þarf að fara mörgum orðum um hvað þessum mönnum finnst um þá ástæðu sem íslenski forsætisráðherrann gefur fyrir fjarveru sinni, að það sé svo mikið að gera heima fyrir að hún komist ekki á fundinn.

Hitt er rétt sem fram kemur í tilkynningunni frá forsætisráðuneytinu að Jóhanna hvarf frá áformum um þátttöku í leiðtogafundinum. Sú ákvörðun var hins vegar ekki byggð á önnum, eins og látið er í veðri vaka í fréttatilkynningunni, enda vandséð að brýnni verkefni býði forsætisráðherrans en að verja málstað Íslands á alþjóðavettvangi.

Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Deiglunnar úr tveimur ráðuneytum hafði Jóhanna ráðgert að fara á leiðtogafundinn. Af hálfu íslenskra stjórnvalda var eftir því leitað við höfuðstöðvar NATO að íslenski forsætisráðherrann fengi að halda ræðu sína á fundinum á íslensku, þar sem enskukunnátta hennar væri mjög takmörkuð. Þessari beiðni var hafnað umyrðalaust af stjórnendum NATO. Þegar sú niðurstaða lá fyrir tilkynntu íslensk stjórnvöld að í stað forsætisráðherrans myndi utanríkisráðherrann Össur Skarphéðinsson sækja fundinn fyrir hönd Íslands. Sú tilkynning var send út 2. apríl, degi áður en leiðtogafundurinn hófst.

Málið þykir mikill álitshnekkir fyrir Íslendinga sem stofnþjóð í NATO. Viðmælendur Deiglunnar í utanríkisþjónustunni segja málið allt hið vandræðalegasta enda hafi Íslendingar ávallt getið sér gott orð í alþjóðasamstarfi fyrir að vera vel menntaðir og hafa til að bera góða tungumálakunnáttu. Sömu viðmælendur segja að á leiðtogafundinum hafi ekki nokkur maður trúað þeirri fjarvistarskýringu íslenska forsætisráðherrans að hún væri of upptekin til að mæta til fundarins.