Nóg komið af bullinu í Ólafi Ragnari

Forsetinn mætti kannski taka sér smá pásu frá því að ræða við útlendinga, sérstaklega þá sem bera plastaða fréttamannapassa utan um hálsinn. Í staðinn ætti hann að nota afganginn af seinasta kjörtímabili sínu til byggja aftur upp þá virðingu forsembættisins sem það hafði áður en hann tók við því. Það á ekki að vera hlutverk forsetans að tjá sig um greiðslugetu ríkissjóðs, né heldur ætti hann að hella sér yfir erlenda diplómata á tvísýnum tímum.

Forsetinn mætti kannski taka sér smá pásu frá því að ræða við útlendinga, sérstaklega þá sem bera plastaða fréttamannapassa utan um hálsinn. Í staðinn ætti hann nota afganginn af seinasta kjörtímabili sínu til byggja aftur upp þá virðingu forsembættisins sem það hafði áður en hann tók við því. Það á ekki að vera hlutverk forsetans að tjá sig um greiðslugetu ríkissjóðs, né heldur ætti hann að hella sér yfir erlenda diplómata á tvísýnum tímum.

Það er ekki allt upp á Ólaf að klaga. Hann hefur nú alla vega ekki verið litlaus forseti, og ákvörðun hans um synjun á undirritun á fjölmiðlalögunum var ekki röng . En seinustu misseri hans í embætti eru honum til lítils sóma. Klappstýrustörf hans fyrir íslenskra útrásarvíkinga, óþörf og óskiljanleg afskipti hans af ríkisstjórnarmyndun og nú síðan háskaleg ummæli hans í erlendum fjölmiðlum; allt þetta hlýtur að vekja menn til umhugsunar um hvort Ólafur Ragnar sé starfi sínu vaxinn.

Það er því miður ansi veikur málstaður að ætla sér að afneita með öllu ábyrgð á skuldum „óreiðumanna“ þegar sjálfur forseti þjóðarinnar hefur ítrekað lagt nafn sitt við kynningarherferðir þeirra. Su ákvörðun Ólafs að fara all in í klappstýruhlutverk fyrir íslenska athafnamenn hefur reynst skaðleg fyrir embættið og stöðu þess sem sameiningartákns þjóðarinnar. Á þessari framkomu skuldar forsetinn okkur enn afsökunarbeiðni. Su afsökunarbeiðni ætti síðan að vera bæði einlæg og ítarleg, og í einhverju samhengi við umfang skaðans sem orðið hefur.

Það er ákveðinn munur á afsökunarbeiðni og afsökun. Forsetinn kann annað af þessu betur en hitt.

Það er líka mikið um að fólk í kringum forsetann hafi aðra túlkun á orðum hans og athöfnum en hann sjálfur. Þannig vill forsetinn meina að þýski blaðamaðurinn hafi rangtúlkað sig þegar hann skrifaði að Ólafur sagði Íslendinga ekki ætla að standa við Kaupþing Edge skuldbindingarnar í Þýskalandi. Er það virkilega svo? Blaðamaðurinn spyr um skuldir gagnvart þýskum sparifjáreigendum. Svar Ólafs byrjar á: „Þýskur almenningur verður að skilja að…“ Eftir að hafa hlustað og lesið orðrétt svör Ólafs er í raun ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en að þýski blaðamaðurinn hafi túlkað ummælin nákvæmlega eins og allir aðrir hafi gert: Sem afsökun fyrir því að Íslendingar hygðust ekki borga.

Framkoma forsetans á fundi með sendiherrum nágrannaríkja Íslands seinasta haust er svo annað mál, en traustar heimildir virðast fyrir því að forsetinn hafi hellt sér yfir sendiherra nokkra ríkja og jafnvel sagst hafa lofað Rússum ýmsu skrýtnu. Í fyrsta lagi er ljóst að slík afstaða er ekki til þess fallin að byggja upp traust umheimsins á Íslandi, og í öðru lagi þá er það auðvitað ekki í verkahring forsetans heldur ríkisstjórnarinnar að eipa á útlendinga þegar við teljum þá beita okkur órétti.

Loks ber að nefna algjörlega óþarft inngrip Ólafs í ríkisstjórnarmyndum VG og Samfylkingarinnar snemma á árinu sem og illskiljanlegt rifrildi hans um þingrofsréttinn. Til hvers var sú deila? Forsætisráðherra ætlaði ekki að rjúfa þing; og jafnvel þótt hann hefði gert það þá hefði það verið í fullkomnu samræmi við vilja stjórnarandstöðunnar og mótmælenda. Var það virkilega mat Ólafs að ofan á bankakreppuna, efnahagskreppuna og stjórnarkreppuna þyrfti að bæta við stjórnLAGAkreppu?

Forsetinn, sem vildi kenna sig við útrás, er greinilega jafnsleginn og við hin yfir atburðum seinustu mánaða. Á erfiðum tímum þarf menn sem blása eldmóð í hjörtu fólks. Óvarlegar yfirlýsingar í erlendum fjölmiðlum, reiði í gerð útlenskra dipómata, illskiljanlegir stjórnlagaleiki og endalausar, endalausar afsakanir Ólafs gefa ekki til kynna að hann sé rétti maðurinn í verkið.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.