Hátekjuskatt, nei takk!

Stjórnmálamenn á borð við Steingrím J. eða Jóhönnu Sigurðardóttur verða ekki í aðalhlutverki í uppbyggingu íslensks samfélags, heldur almenningur. Verðmætasköpun fólksins í landinu er algjör grunnforsenda þess að endurreisn geti átt sér stað. Því ber að gjalda varhug við hugmyndum sem eru til þess fallnar að letja duglegt fólk til góðra verka.

Stjórnmálamenn á borð við Steingrím J. eða Jóhönnu Sigurðardóttur verða ekki í aðalhlutverki í uppbyggingu íslensks samfélags, heldur almenningur. Verðmætasköpun fólksins í landinu er algjör grunnforsenda þess að endurreisn geti átt sér stað. Því ber að gjalda varhug við hugmyndum sem eru til þess fallnar að letja duglegt fólk til góðra verka.

Skömmu áður en Steingrímur J. skipaði Indriða H. Þorláksson sem ráðuneytisstjóra sinn í fjármálaráðuneytinu lýsti Indriði eindregnum vilja sínum til að taka upp hátekjuskatt á Íslandi að nýju. Hugmynd Indriða var á þann veg að búið yrði til „hressilegt viðbótarskattþrep“ (um 10%) sem legðist á launamenn með tekjur yfir meðallagi – semsagt helming þjóðarinnar.
Í pistli þessum verður ekki tekin afstaða til þess hvort sanngjarnt sé að refsa þeim sem unnið hafa til hárra launa með hærri skattheimtu, heldur verður hátekjuskatturinn skoðaður út frá hagsmunum þjóðarbúsins.
Þrátt fyrir allt þá má ekki gleyma því að þótt hægt sé að finna dæmi um fólk sem hefur efnast stórkostlega án mikillar fyrirhafnar (svokallað pappírsríkidæmi), þá hefur langstærstur hluti hátekjufólks unnið fyrir laununum sínum. Það er vel menntað, hæfileikaríkt og harðduglegt. Enda hafa fæstir atvinnurekendur áhuga á að greiða starfsfólki sem ekki býr yfir þessum eiginleikum í einhverjum mæli há laun.
Með þekkingu sinni og dugnaði skapar flest hátekjufólk því verðmæti í vinnunni á hverjum einasta degi. Slík verðmætasköpun er algjör grunnforsenda þess að endurreisn íslensks samfélags geti átt sér stað.
Fái hinar popúlísku hugmyndir Indriða um hátekjuskatt fram að ganga gæti þó orðið hér breyting á. Það er augljóst að ef hátekjufólk þarf að greiða tugum prósenta hærri skatt en aðrir í landinu verði síður eftirsóknarvert að tilheyra þeim hópi. Hátekjuskattur gæti því hæglega orðið til þess að verðmætasköpun í landinu dragist saman og því má íslenska þjóðarskútan síst við núna.
Jafnframt er vert að setja spurningamerki við hvort hátekjuskattur þjóni yfirleitt tilgangi sínum. Hagfræðingurinn John M. Keynes rannsakaði áhrif hækkandi skattprósentu á tekjur ríkisins.Öfugt við það sem ætla mættu höfðu skatttekjurnar tilhneigingu til að lækka, þrátt fyrir að skattprósentan væri hækkuð. Launamennirnir höfðu síður hvata til að vinna fyrir háum launum, meðaltekjurnar lækkuðu í kjölfarið og tekjur ríkisins af skattheimtunni sömuleiðis. Hugmyndir Indriða gætu því orðið til þess að tekjur ríkisins dragist saman!
Það er því nauðsynlegt að almenningur í öllum tekjuflokkum sameinist gegn hátekjuskatti. Það er þjóðinni fyrir bestu að hann fái ekki að ganga aftur.

Latest posts by Hafsteinn Gunnar Hauksson (see all)