Vinstri stjórn í vor?

Á landsfundi Ungra vinstrigrænna (Uvg) sem nýlega var haldinn var samþykkt sú ályktun að skora á flokk þeirra að hafna samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn eftir kosningar næsta vor og beita sér fyrir því að vinstristjórn komist við völd. Rök fyrir þessari ályktun má um margt gagnrýna

Á landsfundi Ungri vinstrigrænna (Uvg) var samþykkt sú ályktun að skora á flokk þeirra að hafna samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn eftir kosningar næsta vor og beita sér fyrir því að vinstristjórn komist við völd. Á vef ungmennafylkingarinnar (www.uvg.vg) má lesa grein eftir Katrínu Jakobsdóttur um ástæður þess að Uvg sjá sig knúna til slíkrar ályktunar. Rökstuðning hennar má um margt gagnrýna.

Fyrsta atriði sem nefnt er til sögunnar er fjársvelti Háskóla Íslands(HÍ) og ósanngirni þess að einkaskólar fái hlutfallslega sömu greiðslur frá ríki og HÍ. Það vill svo vel til að undirrituð lagði stund á háskólanám við viðskiptafræðideild HÍ þegar Háskólinn í Reykjavík (HR) tók til starfa og sá með eigin augum áhrif þess að einkaskóli fór í samkeppni við ríkið og afleiðingar þess fyrir “almúga” nemanda. Það sem gerðist var að lögð var meiri áhersla á kenningar og fræði við kennslu í HÍ á meðan HR einblíndi frekar á hagnýtingu þeirra. Því var helsta afleiðingin sú að aðferðum við viðskiptafræði kennslu fjölgaði við sérhæfingu deildanna tveggja. Margir eru sammála um að afleiðingar samkeppninnar eru þær að kennslan varð metnaðarfyllri í HÍ enda myndaðist nýtt viðmið í kennslunni til að bera sig saman við, það er hvað hinn skólinn var að gera.

Það sýndi sig jafnframt að fáir af kennurum viðskiptafræðideildar ákváðu að skipta um starfsvettvang. Því er rangt að álykta sem svo að kennsla hjá skólum einvörðungu styrktum af ríki þurfi nauðsynlega að fara halloka í samkeppni við skóla sem hafa ef til vill meira fjármagn á milli handanna. Ríkið er ekki að hampa einkaskólum heldur styrkja hvern og einn væntanlegan skattgreiðanda um sömu upphæð til náms. Meðlimir Uvg hljóta að sjá réttlætið í þeirri tilhögun. Það er ekki réttlætanlegt að ríkið styrki ekki einstakling á þeim grundvelli að hann velur aðrar aðferðir við nám sitt heldur en kenndar eru í HÍ og borgar fyrir það aukalega.

Dæmi tvö fjallaði um heilbrigðiskerfið og fjársvelti í þeim geira. Það væri efni í aðra grein að fjalla um hið meinta fjársvelti en athyglisvert er að ýjað er að því að ríkisstjórnin í gegnum umboð sitt frá þjóðinni vilji eitt ríkisrekið kerfi fyrir þá fátæku og eitt einkarekið fyrir þá ríku, sérstaklega í ljósi þess að Framsóknarflokkur fer fyrir ráðuneyti heilbrigðismála. Því er fróðlegt að vita hvort UVG vilji einnig útiloka Framsóknarflokk til samstarfs næsta vor.

Að lokum er rétt að leggja áherslu á að stór hluti sjálfstæðismanna telur að hið opinbera eigi að sjá um menntun og heilsugæslu til þess að stuðla að jöfnum tækifærum og tryggja að þegnar landsins eigi greiðan aðgang að fyrsta flokks þjonustu. Rök Uvg fyrir því að vinstri stjórn taki við völdum næsta vor falla því um sjálf sig.

Latest posts by Guðrún Pálína Ólafsdóttir (see all)

Guðrún Pálína Ólafsdóttir skrifar

Guðrún Pálína hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2002.