Ótrúlega mjúk lending

Af nýjustu hagvísum að dæma er íslenska hagkerfið komið í jafnvægi. En þrátt fyrir að þenslan sé horfin gerir fjárlagafrumvarp næsta árs ráð fyrir 11 milljarða króna afgangi á sama tíma og skattar eru lækkaðir. Þetta verður að teljast góður árangur.

Í gær var birt fjárlagafrumvarp næsta árs svo og ný þjóðhagsspá. Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir tæplega 11 milljarða króna tekjuafgangi og svipuðum lánsfjárafgangi. Í þjóðhagsspá er því spáð að VLF standi í stað á yfirstandandi ári en að hagvöxtur verði 1,5% á næsta ári.

Af þjóðhagsspánni svo og öðrum nýlegum hagvísum að dæma virðist hagkerfið vera komið í nokkuð gott jafnvægi. Tveir bestu mælikvarðarnir á jafnvægi í þjóðbúskapnum eru verðbólga og viðskiptajöfnuður. Verðbólga hefur lækkað hröðum skrefum á síðustu mánuðum og er nú farin að nálgast verðbólgumarkmið Seðlabankans. Hin gríðarlegi viðskiptahalli síðustu ára er einnig horfinn. Fjármálaráðuneytið spáir því nú að viðskiptajöfnuður verði nálægt núlli bæði á þessu ári og því næsta.

Þessi „lending” hagkerfisins er með því allra „mýksta” sem um getur. Flest lönd sem hafa komið sér í jafn mikið ójafnvægi og við vorum komin í fyrir tveimur árum lenda í hörðum skell. Margar af dýpstu kreppum síðustu 50 ára á meðal OECD ríkja eiga einmitt rætur sínar að rekja til ytra ójafnvægis.

Þegar litið er til þess að ytra ójafnvægi hefur minnkað verulega á síðustu misserum er afskaplega jákvætt að sjá að enn er stefnt að því að reka ríkissjóð með afgangi, og það þótt skattar verði lækkaðir. Af þessu er ljóst að sá viðsnúningur sem orðið hefur í rekstri ríkissjóðs á síðustu 10 árum er varanlegur en ekki bara afleiðing þeirrar þenslu sem ríkti á síðustu árum.

En eitt tekur við af öðru þegar hagsveiflan er annars vegar. Nú þegar þenslan er fyrir bí er aðalhættan sú að sveiflan haldi áfram og hagkerfið verði komið í kreppu fyrr en varir. Sem betur fer virðist Seðlabankinn vera vel með á nótunum hvað þetta varðar. Á undanförnum mánuðum hefur bankinn verið að stíga af bremsunni jafnt og þétt með því að lækka vexti. Ekkert bendir til annars en að sú stefna hafi tilætlaðan árangur og hagkerfið taki við sér á ný á næsta ári.

Það hefur mikið vatn runnið til sjávar hvað varðar efnahagsstjórn á Íslandi á síðustu árum. Stutt er síðan orðið peningamálastefna var algerlega framandi hugtak fyrir flesta Íslendinga og umræða um efnahagsstjórn snérist aðallega um gengisfellingar og hvernig ríkið þurfti að hlaupa undir bagga með hinum og þessum. Mikið ofsalega er gott að geta loksins fjallað um efnahagsmál á Íslandi á sama hátt og maður fjallar um efnahagsmál í öðrum löndum.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.