Kraftur vonarinnar

Að viku liðinni mun Barack Obama sverja embættiseið sem forseti Bandaríkjanna. Hans bíður það erfiða verkefni að koma hjólum efnahagslífsins aftur á skrið. Það verður ekki auðvelt en hann hefur vonina með sér og í henni felst mikill kraftur – kraftur sem við þurfum á að halda.

Hefðbundnum umræðum um veðrið hefur fækkað snarlega þessa dagana því að alls staðar þar sem fólk kemur saman hefur orðræðu um veðraskil verið skipt út fyrir krepputal. Er það ekki að undra því að þótt íslensk veðrátta valdi yfirleitt vonbrigðum og að sjaldnast sé „hundi út sigandi“ samkvæmt alþjóðlegum verðurstöðlum hverfa þær áhyggjur í samanburði við þær þrengingar sem við höfum kallað yfir okkur.

En við erum ekki ein á báti og fleiri lönd en litla Ísland eru í vanda þó svo að fréttaflutningur um hann sé af frekar skornum skammti. Brjálæðislegt hugmyndaflug bankamanna einskorðaðist ekki við 64° breiddargráðuna heldur virðist það hafa gegnsýrt bankastarfsemi alls heimsins og hefur nú hægt svo á tannhjólum atvinnulífisins að heimskreppa virðist óumflýjanleg. Slík ótíðindi gera vanda íslensku þjóðarinnar enn stærri því að greiðsluörðugleikar fyrirtækja og samdráttur í eftirspurn eftir útflutningsvörum okkar lengja þann tíma sem þjóðarskútan þarf til að rétta úr kútnum. Útlitið gæti því verið enn svartara en nú er talið og þykir þó mörgum nóg um. En við megum ekki láta deigan síga og nauðsynlegt er að eygja von um betri tíma og skapa sýn til framtíðinar, því að í voninni felst mikill kraftur.

Barack Obama, sem tekur við embætti í komandi viku, tókst einmitt að virkja þann kraft sem býr í voninni. Hann hafði líkurnar á móti sér en náði að vekja hjá fólki óttalausa von um betri tíma – von í erfiðleikunum – von í óvissunni.

„Hope in the face of difficulty, hope in the face of uncertainty, the audacity of hope: In the end, that is God’s greatest gift to us, the bedrock of this nation, a belief in things not seen, a belief that there are better days ahead.“

Obama bíður það verðuga verkefni að koma hjólum efnahagslífsins í Bandaríkjunum aftur af stað og það verður ekki auðvelt verkefni en hann hefur þjóðina með sér; þjóð sem trúir því að betri tímar séu framundan og er staðráðin í að komast út úr erfiðleikunum. Með vonina í veganesti mun hún komast langt.

Forystutumenn íslensku þjóðarinnar mættu gjarnan tileinka sér vinnubrögð Baracks Obama og vekja hjá þjóðinni von um betri tíma og skapa sýn inn í framtíðina – ekki bara út daginn eða vikuna.

Latest posts by Davíð Guðjónsson (see all)