Jólin refreshuð

Fréttavefur Moggans sagði frá því í gær að boðskaður jólanna væri óbreyttur. Það er gott að vita til þess að sumt breytist ekki – en best væri auðvitað að þurfa ekki að spyrja.

Líklega er það engin nýlunda að mönnum finnist sem tíminn líði nú hraðar en nokkru sinni fyrr og að aldrei fyrr hafi breytingar verið jafnmiklar og einmitt núna. Ekki er víst að þetta hafi nokkuð með staðreyndir að gera. Líklegra er að þetta sé einfaldlega mannlegt eðli. Allir menn þurfa að fylla upp í þá 24 klukkutíma á sólarhring sem þeir hafa til ráðstöfunar og best er að geta fundið til þess að hver stund sé dýrmæt og mikilvæg. En líklega er ekki ofmælt að samfélag nútímans sé algjörlega einstakt hvað það varðar hversu hratt upplýsingar berast um heim allan og mörgum finnst þeir naumast hafa við að innbyrða allan þann fróðleik sem þeir hafa við hendina.

Fræðimenn hafa á síðustu árum rannsakað hvaða áhrif þessi ógnarhraði upplýsinganna hefur á fólk. Niðurstöðurnar eru meðal annars þær að fólk virðist eiga mun erfiðara með að lesa langan og djúpan texta heldur en áður. Erfiðara er að halda athygli við sama hlut nægilega lengi til þess að skilja hann. Ekki er sjálfgefið að þessi breyting sé almennt til hins verra þótt í fljótu bragði viriðist sem svo sé. Það er hins vegar ljóst að ýmislegt breytist þegar fólk hefur svo mikinn aðgang að upplýsingum og líklega þurfum við mörg að passa okkur á því að ruglast ekki í ríminu.

Það er nefnilega ekki víst að heimurinn breytist jafnhratt eins og við höldum – og við verðum að reyna að gera greinarmun á því sem er háð dægursveiflum og hinu sem er sístætt og tregbreytanlegt. Nú þegar firringin í kringum uppsveiflu síðustu ára er að rjátlast af þjóðinni gefst vonandi tækifæri hjá mörgum til þess að endurskoða hvað það er sem mestu skiptir. Þá kemur í ljós að fæst af því mikilvæga breytist dag frá degi.

Margir hafa líklega haft það á tilfinningunni að breytingar væru orðnar svo hraðar að öll lögmál fortíðarinnar væru gleymd og úr sér gengin. En það er öðru nær. Jafnvel þótt við höfum mörg á síðasta ári ýtt oftar á „refresh“ takkann á vafranum heldur við við höfum flett blaðsíðum í bók þá er nú ekki víst að það þýði að veruleikinn hafi breyst svo hratt. Og þótt „refresh“ takkinn geti skilað nýjum upplýsingum um gengi gjaldmiðla, hlutabréf, íþróttaúrslit og fleiru þess háttar gildir það sem betur fer ekki um allt.

Í gær birti vefurinn mbl.is, annað árið í röð, jólakveðju undir fyrirsögn um það á aðfangadag að boðskapur jólanna væri óbreyttur. Í fyrra var þetta haft eftir Sr. Sigurði Ægissyni á Siglufirði. Hann sagði „Boðskapur jólahátíðarinnar sé enn sá sami og áður, að frelsari sé þessum heimi gefinn, í mynd lítils drengs, sem þó var í upphafi lagður í jötu í gripahúsi, vegna þess að ekki var pláss fyrir hann annars staðar,“ og í ár voru sömu tíðindi höfð eftir Sr. Jóni Helga Þórarinssyni í Langholtskirkju sem sagði að „þrátt fyrir að aðstæður breytist þá breytist boðskapurinn um návist Guðs ekki.“

Það er kannski til marks um ösina og hraðann í samfélaginu að taka þurfi tillit til þess að einhverjir sitji á refresh takkanum á slaginu sex á aðfangadag til að kanna hvort búið sé að breyta boðskap jólanna – rétt eins og verið sé að fylgjast með gengi íslensku krónunnar eða niðurstöðu í símakosningu í Idol. Þeir hinir sömu fá þá vissu um það frá öruggri heimild að óhætt sé að halda jólin með sama sniði. Það er ágætt að sumt breytist ekki – og vonandi hafa sem flestir frið í sálinni til þess að þurfa ekki að efast um það.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.