Það koma vonandi jól

„Það koma vonandi jól,“ syngja félagarnir í Baggalúti tregafullri röddu og fullyrða að árið sem senn er liðið í aldanna skaut hafi verið skelfilegt ár þegar þjóðin þráðbeint á höfuðið flaug. En þó að það sé allt með miklum ólíkindum í samfélaginu um þessar mundir þá koma blessuð jólin og minna á að hvernig svo sem allt veltist þá eru til margvísleg verðmæti sem halda gildi sínu og verða jafnvel enn mikilvægari þegar kreppir að.
Mynd: Dómkirkjan

Jólamynd 2008 „Það koma vonandi jól,“ syngja félagarnir í Baggalúti tregafullri röddu og fullyrða að árið sem senn er liðið í aldanna skaut hafi verið skelfilegt ár þegar þjóðin þráðbeint á höfuðið flaug.

En þó að það sé allt með miklum ólíkindum í samfélaginu um þessar mundir þá koma blessuð jólin og minna á að hvernig svo sem allt veltist þá eru til margvísleg verðmæti sem halda gildi sínu og verða jafnvel enn mikilvægari þegar kreppir að.

Þó að árið 2008 hafi verið skelfilegt þegar horft er til hruns bankanna og fjárhagslegra erfiðleika þá má ekki gleyma því að árið var gleðilegt um margt í lífi einstaklinga og í fjölskyldum.

Þannig er lífið. Eins og málverk þar sem ljós og skuggar skapa fegurðina. Jólin koma á sínum rétta tíma hvernig sem aðstæður eru að öðru leiti. Og við skulum njóta þeirra.

Við skulum ekki láta tímabundna erfiðleika spilla jólagleðinni – þvert á móti er karlmennska í því að mæta öllu mótlæti með þá fullvissu í huga og hjarta að eins og sólin hækkar á lofti og dag tekur að lengja þannig mun aftur rofa til og við sjáum til sólar – og við finnum sólskinsblett í heiði og setjumst þar og gleðjum oss.

Kynslóðirnar hafa ekki gefist upp þó að það harðni á dalnum. Það er haldið áfram í þeirri von og trú að úr muni rætast. Við vitum aldrei hvað framtíðin ber í skauti – Það besta við framtíðina er að hún kemur bara sem einn dagur í einu. Við þurfum ekki að glíma við og leysa öll vandamál framtíðar á þessari stundu. Koma tímar og koma ráð, segir máltækið. Mikilvægt er að hvíla í líðandi stund og njóta hennar.

„Í niðamyrkrum nætursvörtum upp náðar rennur sól,“ segir í jólasálminum góða sem víða er sunginn í kirkjum landsins á jóladag. Það er gott og heilsusamlegt að horfa upp og framá við og treysta því að lífið heldur áfram og við getum notið margs góðs þó að kreppi að um sinn.

Vonarstjarnan skín yfir okkur og við fylgjum henni líkt og sagt var um vitringana forðum. „Stjarnan mín og stjarnan þín, stjarnan allra barna,“ syngjum við á aðventu og jólum. Það besta við þennan jólasálm er að textinn er einfaldur og lagið þægilegt til söngs. Allir geta tekið undir í þessum sálmi, börn og fullorðnir. Þannig syngjum við saman eins og við lifum öll saman en hver og einn hefur sitt göngulag og söngurinn til lífsins er margraddaður. Öldungurinn og barnið syngja saman: Bjart er yfir Betlehem blikar jólastjarna. Og þannig finnum við barnið í jötunni – barnið í okkur.

Við getum öll fundið fyrir hrifningu og um okkur fara góðar og hlýjar tilfinningar þegar við lítum lítið barn – og hvert barn er stjarna á himni Guðs – vonarstjarna. „Það er ekkert stærra í heiminum en lítið barn. Í litlu barni er allt,“ sagði í viðtali við Gunnar Smára Egilsson í dagblaði nú um helgina. Öll getum við tekið undir það – og þannig hefur móðurinni Maríu liðið þegar hún fæddi son og vafði reifum. Hann var djásnið hennar og merkilegri en keisari og konungar heimsins. Hann var lífið hennar – von, gleði og áhyggja.

Það er jólaboðskapurinn í sinni tærustu mynd að við eigum á himnum þann góða Guð sem lætur sér annt um okkur eins og blíðlynd móðir og hann vill okkur allt það besta. Við erum börnin hans.Hann hefur bæði vilja og vald til að leysa allar kreppur, sálarkreppur og aðrar sem hrjá okkur mannannabörn.

Þess vegna fögnum við fæðingu frelsarans. Meistarinn frá Nazaret birtir okkur elsku Guðs og trúin á hann leysir okkur úr fjötrum óttans og við erum minnt á að jafnvel litlar stjörnur skína í myrkri.

Það koma vonandi jól
með hækkandi sól.
Við krössum afmælið hans
– heimslausnarans. ( Baggalútur)

Já, jólin eru kominn. Enn og aftur fögnum við fæðingu frelsarans – heimslausnarans. Við lesum þessa yndislegu frásögu – þessa perlu í bókmenntum heimsins – um Maríu og Jósef sem héldu frá Nazaret upp til Betlehem. Og þar fæddist lítið barn – það er ósköp hversdagslegt í sjálfu sér. Allt breyttist. Líf Maríu breyttist og Jóseps og meira en það mannkynsagan breytist þegar nýr kafli var skráður. Líf hirðanna sem gættu hjarðar sinnar nóttina góðu – það breyttist og líf lærisveinanna og annarra sem urðu á vegi Jesú breyttist – og síðan líf allra þeirra sem á liðnum öldum hafa horft til Jesú og viljað gera hann að leiðtoga í lífinu.

Við lútum því undri að Guð birtir okkur sjálfan sig í Jesú sem fæddist í Betlehem. Við göngum í því ljósi sem þar kviknaði og lofum Guð og höldum gleðileg jól í Jesú nafni.

Amen.

——————————
Mynd: Dómkirkjan

Latest posts by Sr. Kjartan Örn Sigurbjörnsson (see all)