Frelsið, skíturinn og framtíðin

Ljóst er að margir íslenskir athafnamenn hafa misnotað athafnafrelsið sem þeim hefur verið veitt og mikil hætta á að almenningur afturkalli umboðið. Næstu misseri munu skera úr um hefnigirni almennings gagnvart þeim sem frelsið misnotuðu og hversu vel frjálslyndu fólki tekst að telja því trú um að hefndarhugur sé ekki besta hugarfarið til að leiða þjóðina út úr ógöngunum.

Bankahrunið í október síðastliðnum verður án efa talinn einn merkasti viðburður íslensku þjóðarinnar á fyrri hluta 21. aldarinnar. Þar með var rekinn endapunktur í viðfangsmestu tilraun þjóðarinnar til að gera sig máls metandi í efnahagskerfi heimsins. Tilraun sem á endanum mistókst og var líklega dæmd til að mistakast fyrr en síðar.

Íslenskt hugvit hefur vissulega sótt fram alþjóðlega á formi einstakrar vöru og þjónustu á afar sjálfbæran og vel útfærðan hátt á síðustu árum. En meginþungi íslensku útrásarinnar sýnir sig að hafa að langmestu leyti verið knúin áfram á skuldsettum yfirtökum og bókhaldsleikfimi margs konar. Efnahagsreikningar þöndust út, en allt á kredit meira og minna og á endanum minnti íslensk viðskiptalíf á risavaxið brúðuleikhús þar sem strengirnir voru orðnir bæði flæktir og þunnir og brúðurnar tíu sinnum of þungar.

Hinn nýi skuldsetti veruleiki íslensku þjóðarinnar leiddi úr læðingi velmegun sem aldrei áður hafði sést, á formi sífellt fleiri hálaunastarfa og möguleika á alls kyns lífsins gæðum. Íslenskar fjölskyldur voru ekki síður feimnar við skuldsetningu frekar en fyrirtækin. Til að hemja ástandið var reynt að halda stýrivöxtum á stigi sem vart þekkist meðal vestrænna þjóða. Og úr varð hinn eitraði vítahringur fjármagnsflæðis í formi vaxtamunarviðskipta og útgáfu ríkisskuldabréfa til að anna eftirspurn eftir íslensku krónunni. Hinni nýju peningavél Íslendinga. Þetta hlaut að springa að lokum.

Bankahrunið og kreppan sem henni fylgir eru ekki með öllu neikvæð. Eins og allar vænar kreppur gera veltir hún við steinum hægri og vinstri og upp kemur alls kyns skítur sem annars hefði fengið að grassera og vaxa. Líkt og farið er með heilbrigð gjaldþrot eru heilbrigðar kreppur skapandi eyðilegging sem hreinsar og ryður brautina fyrir heilbrigðara viðskiptalíf í kjölfarið. En fórnarkostnaðurinn er óþarflega mikill að þessu sinni. Mikill fjöldi saklauss fólks þarf að taka á sig þennan kostnað með langvarandi kjaraskerðingu og tapi. Það er mjög, mjög miður.

Það sýnir sig nú að skíturinn undir steininum var orðinn mikill. Það er ekki ósennilegt að enn meiri skítur eigi eftir að koma upp á yfirborðið, ekki síst ef í gang fara kærumál í tengslum við þrot bankanna og fyrirtækja. Og það er af nógu að taka. Óeðlileg og mótgeng hagsmunatengsl bankanna við atvinnulífið með krosseignarhaldi, óeðlilegir viðskiptahættir á formi ofurlauna, hluthafakúgun með kaupum í tengdum fyrirtækjum á undir- eða yfirverði, innherjaviðskipti hvers konar, firrt uppgangsverðmat, misnotkun hlutbréfasjóða, misnotkun fjölmiðla, fjármagnsflótti til skattaparadísa og jafnvel alls kyns bókhaldskúnstnir til að fela gjörninginn.

En það var ekki bara viðskiptalífið sjálft sem var orðið firrt. Það var einnig einkalíf margra þeirra sem hlut áttu að máli. Ekki ríkti mikil feimni við að sýna ríkidæmi sitt á meðan góðærinu stóð. Aðrir, sem stundað hafa heiðarlega viðskiptahætti virðast einnig sumir hverjir freistast til að gera slíkt hið sama. Hvort sem um var að ræða lúxusbíla eða jeppa, íbúðarhallir, herragarða, einkaþotur, einkaþyrlur, dýrar veislur, utanlandsferðir, skartgripi, Gumball eða Elton John. Það komst í tísku að berast á með óhófi.

Þó það teljist ekki glæpur að berast á þá skapar það óumdeilanlega öfund í samfélaginu. Manneskjan er nú einu sinni breysk og öfundsjúk í eðli sínu. Auðmennirnir gátu ekki haldið aftur af sér og þurftu að núa velgengninni í augun á sauðsvörtum almúganum, þessum sama og samþykkti að skapa jarðveginn fyrir tækifærin og auðsköpunina. Ofan í öfundina lekur nú skíturinn úr óheilbrigðu viðskiptalífi Íslendinga. Og með þeim hætti að það tapar sjálft fé. Er nema von að fólk vilji refsa þeim hinum sömu og gerðu þetta kleyft?

Það er óhætt að segja að það frelsi, sem markvisst hefur verið innleitt í íslenskt samfélag á síðustu áratugum, hafi verið vanvirt. Tilgangurinn var að skapa tækifæri, búa til jarðveg fyrir heiðarlega auðsköpun í allra þágu, afnema pólitísk afskipti af atvinnulífinu og draga úr pólitískri spillingu, tryggja sem best skynsama meðferð fjármuna, auka hag íslenskra heimila en ekki síst að fjármagna örlátt og öflugt velferðarkerfi. En það var ekki hugsað sem tæki til óhófs og óheiðarleika.

Ef athafnamenn fara illa með frelsið er hætta á að almenningur afturkalli umboðið sem það áður veitti. Almenningur telur sig nú e.t.v. hafa ástæðu til að refsa þeim sem mestan auðinn skapa, hvort sem er með heiðarlegum eða óheiðarlegum hætti. Jafnvel þótt afleiðingarnar kunni að þýða afturhvarf til tímabils hafta, sóunar, framtaksskorts, pólitískra afskipta, skattpíningar og almennt minni hagsældar. Næstu misseri munu skera úr um það hefnigirni almennings gagnvart þeim sem misnotuðu frelsið og hversu vel frjálslyndu fólki tekst að telja því trú um að hefndarhugur sé ekki besta hugarfarið til að leiða þjóðina út úr ógöngunum.

Latest posts by Samúel T. Pétursson (see all)

Samúel T. Pétursson skrifar

Sammi hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.