Leitum lausna

Umræðan í þjóðfélaginu í kjölfar bankahrunsins er átakanlega fátæk af hugmyndum að lausnum til þess að komast út úr núverandi efnahagshremmingum. Mun meiri kraftur virðist fara í neikvæðni , eftirsjá og leit að sökudólgum. Þetta er slæm þróun enda er nauðsynlegt að þjóðin taki á sig rögg og haldi áfram. Hér verður tæpt á nokkrum tillögum sem ríkisstjórnin gæti tekið upp á arma sína.

Umræðan í þjóðfélaginu í kjölfar bankahrunsins er átakanlega fátæk af hugmyndum að lausnum til þess að komast út úr núverandi efnahagshremmingum. Mun meiri kraftur virðist fara í neikvæðni , eftirsjá og leit að sökudólgum. Þetta er slæm þróun enda er nauðsynlegt að þjóðin taki á sig rögg og haldi áfram. Hér verður tæpt á nokkrum tillögum sem ríkisstjórnin gæti tekið upp á arma sína.

Fyrst skal tekið fram að við verðum að hafa grunnkerfið í lagi með tilliti til gjaldmiðils, trausts á stofnunum og þá er einnig nauðsynlegt að óvissu um eignarhald bankanna verði eytt. Til hliðar við grunnatriðin þá má einnig hugsa sér ýmsar sérstakar útfærslur vegna ástandsins og hér verður stungið upp á þremur atriðum sem ríkisstjórnin mætti líta á.

1. Skattafsláttur af fjárfestingum fyrirtækja

Ríkisstjórnin veiti 100% skattafslátt af fjárfestingum fyrirtækja næstu tvö ár. Þetta skref gæti verið til þess fallið að gera landið meira aðlaðandi fyrir erlenda fjárfestingu. Því meira fjármagn sem kemur inn í landið á næstu 12-24 mánuðum því meiri líkur á að atvinnulífið muni ná sér. Þessi afsláttur mun einnig gagnast nýsköpunarfyrirtækjum sem þurfa oft að leggja mikla peninga út í byrjun sem skilar sér síðar á lífsleið fyrirtækisins. Þessi tillaga mun einnig gagnast sérstaklega þeim fyrirtækjum sem geta ráðist í fjárfestingar.

2. Laða að erlend fyrirtæki

Laða að erlend tæknifyrirtæki. Frekar en að flytja út íslendinga sem hafa hátækniþekkingu vegna ástandsins (samanber auglýsingar norskra ráðningastofa eftir verkfræðingum) þá mætti skoða að fyrirtæki myndu flytja ákveðin verkefni til landsins. Hér er til boða vel menntað vinnuafl og núna einnig hagstæð kjör. Ríkisstjórnin gæti ýtt undir þetta með því að bjóða fyrirtækjum sem opna skrifstofur hérna með fleiri en tíu starfsmenn að greiða engan fyrirtækjaskatt fyrstu tvö árin. Samfélagið græðir samt þar sem fyrirtækin koma með vinnu, þurfa að kaupa eða leigja húsnæði og kaupa ýmis konar þjónustu af öðrum fyrirtækjum.

3. Leita til hollvina

Kalla eftir stuðningi frá hollvinum okkar. Veik ímynd Íslands hefur valdið því að margir erlendir aðilar eru hræddir við að koma til landsins með fjármagn af þeirri tegund sem nefnd er hér að framan. Það þarf að virkja tvo hópa til þess að koma okkur til hjálpar. Annars vegar svokölluðum Íslandsvinum, fólki sem þekkir til landsins, hefur komið hingað og á hér vini. Þeir eru mun líklegri en aðrir til þess að vilja koma hér að málum. Hinn hópurinn sem mætti eltast við eru brottfluttir íslendingar en þeir eru mun líklegri en aðrir til þess að vilja koma aftur til landsins. Þeir gætu þá komið með fjármagn og þekkingu til að styðja við þau fyrirtæki sem koma til landsins. Dæmi um þennan hóp eru t.d vestur íslendingar í Kanada.

Árið 1932 stóð Franklin D. Roosevelt frammi fyrir miðri efnahagskreppu, gríðarlegri verðbólgu og stórfelldu atvinnuleysi. Þá sagði hann þessi frægu orð:

„Við höfum ekkert að óttast nema óttan sjálfan – nafnlausan, órökstuddan, óréttlætanlegan ótta sem lamar aðgerðir sem miða að því að breyta afturhaldi í framsókn“.

Þessi atriði sem hér eru nefnd eru bara þrjú af fjölmörgum sem þarf að fara yfir á næstu mánuðum. Það þarf að vera miklu sterkari umræða um þau jákvæðu atriði sem við getum beitt til þess að stíga skrefin áfram. Umræða sem einbeitir sér að neikvæðni og hatri byggðu á ótta og öryggisleysi mun aldrei skila af sér lausnum heldur einungis nýjum vandamálum.

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.