Að skila inn fyrirtækjalyklunum…en smíða fyrst aukalykil

Sumir íbúðaeigendur hafa nú brugðið á það örþrifaráð að “skila inn lyklunum” því þeir ráða ekki við afborganirnar og eru búnir að tapa eignarhlut sínum. Það er miður og má ekki gerast enda koma slíkir gjörningar líklega verst niður á þeim sjálfum. En það eru fleiri sem þurfa að grípa til þessarra aðferða því margir fyrirtækjaeigendur neyðast nú til að „skila inn fyrirtækjalyklunum“…og þeir óprúttnu smíða fyrst aukalykil og komast inn aftur en láta skattgreiðendur um afborganirnar.

Á komandi vikum og mánuðum er viðbúið að mörg fyrirtæki, sem bæði eru skuldsett í erlendri mynt og finna fyrir verulegum samdrætti í eftirspurn eftir sínum vörum og þjónustu, neyðist til þess að óska eftir gjaldþrotaskiptum. Það er sárt og í þessu „Force majure“ ástandi er mikilvægt að þær atvinnugreinar, sem líklegar eru til að flýta fyrir viðreisn efnahagslífsins, lifi af og þeim sé jafnvel hjálpað á kostnað annarra ef sýnt þykir að það flýti fyrir fjárhagslegum bata heildarinnar. Deila má um hvaða atvinnugreinar eða fyrirtæki ber að styðja og hver ekki en það má aldrei gerast að einstök fyrirtæki dæmi sér sjálftöku.

Nú er svo komið að bankakerfið er að mestu í eigu skattborgaranna og þar af leiðandi óbeint allar útistandandi skuldir fyrirtækja við íslenskar lánastofnanir. Sú staðreynd setur mikinn þrýsting á bankaráð og ráðherra bankamála að tryggja að við fjárhagslega endurskipulagningu og gjaldþrotaskipti fyrirtækja séu skuldir ekki gefnar eftir að tilefnislausu og eigendum hyglað á kostnað skattgreiðenda. Hér eru gríðarlegir hagsmunir í húfi, bæði fjárhagslegir og siðferðilegir.

Eitt af mörgum heimsmetum sem við Íslendingar eigum (miðað við höfðatölu að sjálfsögðu) eru kennitöluskipti sem oft hefur verið fjallað um en löggjafinn hefur hingað til ekki séð ástæðu til að skoða sérstaklega. Þessi vafasama iðja, sem oft er nefnd kennitöluflakk, er ekki bundin við einhverja sérstaka atvinnugrein en nú beinast spjótin helst að byggingaverktökum og fyrirtækjum sem selja innfluttar vörur. Þær greinar eru mjög viðkvæmar fyrir gengisbreytingum vegna innflutnings og lántöku í erlendri mynt og mörg fyrirtæki innan hennar eiga í erfiðleikum.

Ein af „þekktum aðferðum“ kennitöluflakkara í innflutningseiranum er að stofna nýja kennitölu undir sömu starfsemi og þrotabúið hafði áður (jafnvel að kaupa nafn og viðskiptavild af þrotabúinu fyrir slikk) en mismuna hins vegar kröfuhöfum þess með því að greiða eingöngu upp skuldir við erlenda birgja. Með þeim hætti getur hin nýja kennitala keypt inn vörur og starfað undir sömu merkjum og hin fyrri en aðrir kröfuhafar í þrotabúið, sem oftast eru innlendar lánastofnanir, fá ekkert upp í sínar kröfur frá hinni nýju kennitölu. Á yfirborðinu virðist því sem ekkert hafi breyst í starfsemi fyrirtækisins, sem oft er þá rekin undir sama eða svipuðu nafni, en undir yfirborðinu er ljóst að einungis erlendu birgjarnir fá sínar kröfur fullgreiddar. Sé þessi aðferð viðhöfð af sömu einstaklingum og ráku þrotabúið áður eða aðilum þeim nátengdum er um hreinan þjófnað að ræða og þetta ætti alls ekki að vera hægt. En þetta er því miður raunin og í dag eru það bankarnir sem tapa – m.ö.o. skattgreiðendur. „Efist þú, skaltu bara prófa – Noa Noa“

Þegar fyrirtæki fer í gjaldþrotaskipti er það hlutverk skiptastjóra að selja eignir og sjá til þess að kröfuhöfum sé ekki mismunað. Það er mikil ábyrgð sem hvílir á hans herðum, sérstaklega þegar sömu rekstraraðilar eða þeim tengdir falast eftir nafni og viðskiptavild þrotabússins til áframhaldandi reksturs undir nýrri kennitölu. Ábyrgð þeirra er enn meiri um þessar mundir þegar almenningur situr hinum megin við borðið. Hér er um slíka hagsmuni að ræða að ráðherra bankamála þarf að skoða með hvaða hætti er hægt að koma í veg fyrir slíkt og hver nig tryggt sé að allar afskrifaðar kröfur bankanna séu skoðaðar gaumgæfilega.

Að þessu sögðu skal það áréttað að flest gjaldþrotaskipti fara fram með eðlilegum hætti og að ekki er ástæða til að fara í nornaveiðar við núverandi aðstæður. Þvert á móti er mikilvægt að kenna fyrirtækjaeigendum að fara í gegnum slíkt ferli með reisn. Við þurfum á kröftum þessara einstaklinga að halda og það má ekki vera samfélagslegur dauðadómur að hafa gengið í gegnum gjaldþrot. Af viðhorfi Bandaríkjamanna má margt læra í þessum efnum en þar ytra er það talin dýrmæt reynsla að hafa gengið í gegnum gjaldþrot, reynsla sem nýst getur í uppbyggingu annarra fyrirtækja, því eins og Einstein sagði sjálfur: „sá sem aldrei hefur gert mistök, hefur aldrei reynt neitt nýtt“. Séu gjaldþrota fyrirtæki hins vegar opnuð aftur undir annarri kennitölu af sömu eða tengdum aðilum er full ástæða til að skoða málin ofan í kjölinn.

Latest posts by Davíð Guðjónsson (see all)