Kosningar fyrir hverja?

Það ber vott um mikla vanvirðingu við íslensku þjóðina að hvetja til kosninga á þessum tíma. Sérstaklega þegar litið er til þeirra aðkallandi verkefna sem nú bíða stjórnmálamanna.

Það leið ekki langur tími frá fyrstu umbrotum bankakreppunnar þar til farið var að skipuleggja hverjir ættu að mæta aftökusveit við fyrsta tækifæri. Viðskiptajöfrar og stjórnmálamenn voru þar eðlilega fyrstir á lista enda ábyrgðin að miklu leyti á þeirra herðum. Ýmis úrræði hafa verið nefnd til sögunnar um hvernig sé best að refsa þessu fyrirfólki íslenska peningamarkaðsins. Ein tillagan var að bregða fyrir algeru gerræði og frysta eignir auðjöfra sem tóku víst upp á því að fela eignir sínar á erlendum bankareikningum. Það er hins vegar ólíklegt að lagalegar heimildir séu fyrir slíkum aðgerðum og væri þá öllu betra að rannsaka fjárdrátt og annað leynimakk samkvæmt íslenskum lögum og hegna þeim mönnum sem verða fundnir sekir fyrir ólöglegt athæfi. Önnur tillaga, sem virðist skjóta upp í umræðunni með reglulegu millibili og nú síðast í Silfri Egils síðastliðinn sunnudag, er að boða til Alþingiskosninga strax í vor. Réttlætingin felst að stórum hluta til í þeirri hugsjón að almenningur eigi rétt á því að fella ægisdóm yfir þeim stjórnmálamönnum sem hann telur að beri mesta sök á því ástandi sem nú blasir við. En er einhver raunveruleg ábyrgð fólgin í að boða til kosninga?

Hvað myndu kosningar á vormánuðum í rauninni bera í för með sér?

Stjórnmálaflokkarnir, allir sem einn, myndu þurfa að venda kvæði sínu í kross og einbeita sér að hatrömum áróðri í stað þeirrar samvinnu og samstöðu sem hefur sjaldan verið eins aðkallandi. Stjórnmálamenn myndu í auknum mæli snúa sér frá því að leysa þau verkefni sem eru fyrir hendi og einbeita sér þess í stað að því að réttlæta gjörðir sínar og lofa betri tíð með blóm í haga. Hagur Íslendinga felst ekki í nýjum loforðum og réttlætingum, hann felst í stefnumótandi vinnu og markvissri ákvarðanatöku ráðamanna. Sú vinna sem bíður ríkisstjórnarinnar myndi líða stórkostlega fyrir þá ákvörðun að boða til kosninga.

Er almenningur í stakk búinn til þess að takast á við kosningar á þessum tímapunkti?

Þrátt fyrir að álagið á ráðamönnum þjóðarinnar sé vissulega mikið er það fólkið í landinu sem hefur fundið mest fyrir þeim ólgusjó sem þjóðin siglir nú í gegnum. Stanslaust áreiti fjölmiðla í bland við gríðarlega óvissu hefur myndað hnút sem situr sem fastast í iðrum þjóðarinnar. Margir hafa beint reiði sinni að stjórnvöldum og jafnvel enn fleiri að auðvaldinu. Hins vegar hefur einnig myndast meðal Íslendinga mikil samstaða sem vonandi blómstrar í því atvinnuþreki sem þjóðin er þekkt fyrir. Ef að blásið yrði til kosninga í vor væri í raun verið að gera lítið úr því verkefni sem við stöndum frammi fyrir.

Það ber því ekki vott um mikla ábyrgð hjá Ágústi Ólafi, varaformanni Samfylkingarinnar, að hvetja til kosninga á þessum tímapunkti. Tækifærishneigðin hefur gripið um taumana í stað þeirrar ábyrgðar sem felst í stöðu hans. Þessa sömu hneigð má finna víðar en þó helst á meðal leiðandi stjórnarandstöðuþingmanna sem sjá krísu Íslendinga sem tækifæri til að komast til valda. Ábyrgðarleysið birtist einna helst í því að ekkert hefur verið rætt um líklegan kostnað við kosningar, þáttur sem hlýtur að hafa gríðarlegt vægi í dag.

Hvað kosta kosningar?

Fyrir Alþingiskosningar 2007 var áætlað að framkvæmd kosninganna, ein og sér, myndi kosta ríkið ríflega 133 milljónir króna. Miðað við hækkun vísitölu síðan í apríl 2007 þá væri sú upphæð rúmar 155 milljónir króna í dag. Hér er einungis um að ræða beinan kostnað ríkisins við kosningar en reikna má með því að þessi upphæð hækki all verulega þegar annar og óbeinn kostnaður er tekinn með í dæmið. Þetta hlýtur að vekja fólk til umhugsunar. Er peningum ríkisins ekki betur varið á þessum tíma en í kosningar sem myndu skila hlutfallslega fleiri auðum atkvæðisseðlum en nokkru sinni áður?