Hrun íslenska banka- og fjármálakerfisins fyrir réttum mánuði hefur gert það að verkum að íslenska þjóðin stendur á krossgötum. Næstu vikur og mánuðir verða erfiðar en sé horft nokkur ár fram í tímann er allt útlit fyrir að sjávarútvegur, orkugeirinn og ferðaþjónusta verði okkar helstu burðarásar og ýti okkur yfir erfiðasta hjallann. En hver er staðan sé horft enn lengra fram í tímann?
Íslenska hagkerfið mun byggja á útflutningi næstu árin, andstætt því sem verið hefur að undanförnu þegar við höfum fjárfest mikið erlendis og flutt meira til landsins en frá því. Gengi íslensku krónunnar ætti því að styrkjast á næstu vikum og mánuðum enda skapa útflutningsgreinar miklar gjaldeyristekjur. Sterkara gengi þýðir lægri verðbólga og aukið jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Það jafnvægi verður að mörgu leyti á kostnað þeirra miklu umsvifa sem verið hafa undanfarin ár í fjármálageiranum og fylgdu umfangsmiklum íslenskum fjárfestingum erlendis. Spurningin sem hlýtur að vakna fyrr eða síðar er því eftirfarandi: Eigum við til næstu áratuga að byggja íslenskt efnahagslíf á útflutningi á hrávöru og ferðaþjónustu eða eigum við að reyna að fá meiri fjölbreytni í atvinnulífið?
Það var ekki síst sóknin í aukna fjölbreytni og meiri flóru sem varð til þess að bankarnir og önnur stór ríkisfyrirtæki voru einkavædd á sínum tíma og grundvöllur að fjármálastarfseminni myndaðist. Þegar við horfum tíu, tuttugu eða þrjátíu ár fram í tímann væri það skammsýni að hafna fjölbreyttari tækifærum í okkar atvinnulífi eða útiloka frekari þátttöku í alþjóðlegum viðskiptum þótt þessi hugtök séu ef til vill ekki til vinsælda fallin meðal þjóðarinnar eins og staðan er í dag. Við verðum engu að síður að geta byggt upp fyrirtæki sem hafa möguleika á að sækja fram á alþjóðavísu og að sama skapi verðum við að geta fengið hingað til lands erlenda fjárfestingu. Til þess verðum við að endurskoða umgjörð gjaldmiðils- og peningamála.
Íslenska krónan er einn minnsti sjálfstæði gjaldmiðill í heiminum. Þótt mikill efnahagsuppgangur hafi verið hér undanfarin ár hefur smæð gjaldmiðilsins valdið okkur vandræðum enda eru smáir gjaldmiðlar viðkvæmir fyrir flökti og gera atvinnulífinu erfitt fyrir. Raunar hafa bæði heimili og fyrirtæki undanfarin ár hafnað krónunni með því að fjármagna sig í síauknum mæli í erlendri mynt sem hefur dregið úr virkni stýritækja Seðlabankans og gert bankanum erfitt fyrir að framfylgja markmiðum peningamálastefnunnar.
Við höfum því glímt við ýmis vandamál tengd íslensku krónunni undanfarin ár. Í kringum fall bankanna féll gengið hins vegar hratt og undanfarnar vikur hefur krónan í reynd verið tekin af markaði – Seðlabankinn skammtar gjaldeyri inn á markaðinn á fyrirfram ákveðnu gengi og víða úti í heimi hafa erlendir bankar hætt að versla með íslensku krónuna. Þessi atburðarás hefur gert það að verkum að alþjóðleg tiltrú á íslensku krónunni er afskaplega takmörkuð í dag. Gengi krónunnar þegar hún verður sett aftur á flot verður að öllum líkindum afar lágt þótt allar forsendur séu fyrir því að það gæti styrkst hratt á ný.
Sú staða sem upp er komin er því um margt mótsagnakennd. Krónan kann að nýtast okkur ágætlega næstu misserin en til framtíðar væri það ávísun á einhæfni að viðhalda óbreyttu ástandi. Því má ekki gleyma að sjávarútvegur, ferðaþjónusta og orkugeirinn gætu starfað með eðlilegum hætti þótt breytt yrði um gjaldmiðil en það sama er ekki að segja um aðra atvinnustarfsemi – hún ætti erfitt uppdráttar ef við byggjum á krónunni um aldur og ævi. Þeir eru sennilega ekki margir sem eru tilbúnir að fjárfesta í fyrirtæki skráð í íslenskum krónum svo dæmi sé tekið eða myndu telja það álitlegan kost að veðja á íslensk fjármálafyrirtæki með bakland sitt hjá Seðlabankanum eftir allt það sem á undan er gengið.
Við getum því tæplega litið framhjá upptöku annars gjaldmiðils lengur og til þess að ná þeirri breytingu í gegn getum við ekki útilokað neinar leiðir, þar með talið aðild að Evrópusambandinu, þó aðra kosti eigi auðvitað að skoða líka. Full aðild að ESB myndi færa okkur traustari gjaldmiðil en við höfum núna en henni myndu einnig fylgja ákveðnir ókostir. Ísland þyrfti að gangast undir sameiginlega fiskveiðistefnu ESB, sem veikir stöðu sjávarútvegsins og við yrðum hluti af sístækkandi stjórnkerfi sambandsins. Ennfremur myndi Ísland missa umboð sitt til sjálfstæðrar samningagerðar við önnur ríki, t.a.m á sviði fríverslunar og fiskveiða, sem er hvorttveggja mikilvægt fyrir okkur. Því má heldur ekki gleyma að við myndum ganga inn í ört stækkandi yfirþjóðlegt stjórnkerfi sem gæti gert örþjóðinni Íslandi erfitt fyrir.
Þetta verður allt saman að vega og meta, kostina og gallana. Segja má að sú stóra breyting hafi aftur á móti orðið á umræðunni um Evrópumál að undanförnu að allt útlit er fyrir að gjaldmiðilsbreyting sé ekki eingöngu æskileg breyting heldur nauðsynlegt skref að taka til lengri tíma litið.
- Hröð en ekki óvænt stefnubreyting í málefnum hælisleitenda - 20. febrúar 2024
- Fjölmiðlaóð þjóð - 22. janúar 2021
- Skiljanleg en hættuleg ritskoðun tæknirisanna - 14. janúar 2021