Dagur breytinga í Bandaríkjunum

Í dag kýs bandaríska þjóðin sér nýjan forseta eftir átta ára valdatíð George W. Bush. Andstætt þeirri stöðu sem uppi var fyrir fjórum árum síðan þegar valið stóð á milli tveggja ósannfærandi frambjóðenda eru nú í framboði menn sem hafa báðir sýnt hugrekki og hæfileika á stjórnmálaferli sínum þótt með ólíkum hætti sé. Af þeim er þó Barack Obama sterkari kostur og líklegri til að leiða þjóðina úr þeirri erfiðu stöðu sem hún er í.

Í dag kýs bandaríska þjóðin sér nýjan forseta eftir átta ára valdatíð George W. Bush. Andstætt þeirri stöðu sem uppi var fyrir fjórum árum síðan þegar valið stóð á milli tveggja ósannfærandi frambjóðenda eru nú í framboði menn sem hafa báðir sýnt hugrekki og hæfileika á stjórnmálaferli sínum þótt með ólíkum hætti sé. Af þeim er þó Barack Obama sterkari kostur og líklegri til að leiða þjóðina úr þeirri erfiðu stöðu sem hún er í.

Vantrú og óánægja bandarísku þjóðarinnar með núverandi forseta hefur haft mikil áhrif á kosningabaráttuna og gert það að verkum að báðir frambjóðendurnir hafa lagt áherslu á að fjarlægja sig núverandi stjórnvöldum eins og kostur er. Þessi gagnrýni er ekki ósanngjörn þar sem stjórnkerfið í Washington hefur trekk í trekk undanfarin ár gert slík axarsköft að orðspor Bandaríkjanna um heim allan hefur beðið verulega hnekki.

Írakstríðið var háð á grundvelli falsaðra gagna og öll framvinda og framkvæmd hersetu Bandaríkjamanna í landinu hefur verið þeim til skammar. Pyntingar og misþyrmingar á stríðsföngum í Abu Graib og Guantanamo Bay ollu því að yfirlýst markmið um að koma á kerfi lýðræðis og mannréttinda í Írak og Afganistan urðu hjóm eitt og þjóðin sem eitt sinn var í fylkingarbrjósti fyrir útbreiðslu vestrænna gilda hefur vakið upp óhug meðal marga undanfarin ár. Heima fyrir hefur árangurinn ekki verið mikið betri. Bandarísk stjórnvöld brugðust algerlega þegar fellibylurinn Katrina gekk yfir New Orleans og viðbrögð við efnahagskreppunni, sem hófst í Bandaríkjunum, hafa enn sem komið er verið ómarkviss og ekki skilað tilsettum árangri.

Það er því af mörgu að taka þegar bandaríska þjóðin – og raunar heimsbyggðin öll – horfir reið um öxl. Um frammistöðu bandarískra stjórnvalda hafa verið skrifaðar fjölmargar greinar hér á Deigluna undanfarin fjögur ár.

Erindi frambjóðendanna tveggja í ár hefur því verið að setja fram sýn til framtíðar sem er bjartari og skynsamari en það sem við höfum mátt una við undanfarin átta ár. Þar hefur Barack Obama haft betur og sýnt það aftur og aftur í kosningabaráttunni með málflutningi sínum og viðbrögðum við því sem upp hefur komið að hann er raunsær og skynsamur stjórnmálamaður sem er vel til þess fallinn að leiða bandarísku þjóðina. Viðhorf hans til utanríkismála eru öfgalaus og bera ekki vott af því dómgreindarleysi sem hefur einkennt ákvarðanir Bandaríkjamanna að undanförnu.

Í innanríkismálum í Bandaríkjunum talar hann af raunsæi og er laus við að axla þær byrðar sem allir forsetaframbjóðendur Repúblikanaflokksins þurfa að bera. þ.e. að gera hin strangtrúuðu siðferðisviðhorf kristinna hægrimanna í Bandaríkjunum að sínum. Það hefur John McCain aftur á móti gert, þvert á væntingar um að hann gæti leitt flokk sinn á skynsamlegri brautir. Val McCains á varaforsetaefni hefur líka skipt sköpum fyrir baráttu hans og í reynd ruglað öll skilaboð sem hann vildi upphaflega senda. Burtséð frá því að Sarah Palin virkar ósannfærandi í viðtölum og skortir þá nauðsynlegu þekkingu sem varaforseti Bandaríkjanna þyrfti til að bera, þá stendur Palin fyrir margt af því versta í Repúblikanaflokknum – fullkomna andstöðu við fóstureyðingar og hjónabönd samkynhneiðgra svo eitthvað sé nefnt.

Með vali sínu á Palin í embætti varaforseta fór John McCain gegn eigin sannfæringu eins og hún hefur birst á ferli hans og hrifið svo marga með honum. Og þó aldur manna eigi auðvitað ekki að skipta máli í kosningum veldur hár aldur hans því að óhjákvæmilegt er annað en að velta upp þeim möguleika að forfallist McCain í embætti forseta tæki við einstaklingur sem léti núverandi valdhafa í Washington líta út fyrir að vera djúpvitra stjórnspekinga með sterka dómgreind.

Barack Obama er auðvitað ekki hafinn yfir allan vafa sjálfur. Hann hefur ekki langa reynslu af stjórnmálum en á það ber að líta að þegar núverandi ástand í stjórnkerfi landsins nýtur nánast einskis stuðnings meðal þjóðarinnar getur það vart talist ókostur að hafa ekki starfað mjög lengi innan kerfisins. Obama hefur sýnt það í kosningabaráttu sinni að hann kann að velja í kringum sig reynslumikið og hæft fólk til ráðgjafar og tekur skynsamlega á þeim málum sem upp koma. Þetta vekur traust og von um skynsamlegri nálgun í framtíðinni.

Margir af merkustu forsetum Bandaríkjanna voru ekki orðnir fimmtugir þegar þeir tóku við embætti og má þar nefna bæði John F. Kennedy og Bill Clinton. Kosning Obama í embætti forseta Bandaríkjanna yrði sennilega enn stærri viðburður í veraldarsögunni en þegar Kennedy var kosinn árið 1960 en allt bendir til þess að hann geti staðið undir þeim gríðarlegu væntingum sem til hans verða gerðar.

Latest posts by Sigríður Dögg Guðmundsdóttir (see all)

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir skrifar

Sigga Dögg hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.