Festumst ekki á ríkisjötunni

Atvinnulífið ríkisvæðist hratt þessa dagana vegna þeirra erfiðleika sem uppi eru í efnahagslífinu. Mikið er undir að sú ríkisvæðing fái ekki að skjóta rótum enda er ótækt að íslenskt efnahagslíf, sem mun að öllum líkindum rétta fljótt úr kútnum, leggist ekki varanlega á ríkisjötuna.

Atburðir liðinna vikna hafa gert það að verkum að það var bæði óhjákvæmilegt og nauðsynlegt fyrir stjórnvöld að taka yfir starfsemi bankanna og þar með stóran hluta fjármála- og atvinnulífsins hér á landi. Í þessu felst mikil breyting og afturhvarf til þeirra tíma þegar hið opinbera stýrði og átti stóran hluta fyrirtækjanna.

Sú hugmyndabarátta sem fram fór á níunda og tíunda áratug síðustu aldar snerist mikið til um breytingar á þessu skipulagi. Hún var háð með bæði efnahags- og sanngirnisrökum; einkaframtakið var ekki aðeins líklegra til að skapa meiri arðsemi fyrir þjóðfélagið heldur var óréttlátt að pólitísk sjónarmið og tengsl réðu ákvarðanatöku. Það er innbyggt í starf stjórnmálamanna að reyna að beita sér fyrir sína kjósendur, sitt kjördæmi eða í þágu þeirra verkefna sem þeir trúa á og séu bankar í ríkiseigu þá liggur í hlutarins eðli að pólitískur þrýstingur á bankana á eftir að aukast þegar þeir eru í ríkiseigu.

Það er því gríðarlega mikilvægt að ríkisvæðing atvinnulífsins verði tímabundið ástand sem standi ekki yfir lengur en nauðsynlegt er og fái ekki að skjóta varanlegum rótum. Þar reynir á hvort stjórnmálamennirnir séu tilbúnir að gefa eftir eigin áhrif, eins og þeir hafa borið gæfu til að gera undanfarin ár. Það er mikil hætta á að stjórnir bankanna verði eins og hver önnur pólitísk nefnd sem er sett saman með það að markmiði að sætta ákveðin sjónarmið. Til að mynda er ekki ólíklegt að fljótlega fari að heyrast kröfur um að stjórnarandstaðan fái sinn fulltrúa í stjórnir bankanna eða að gætt verði að landsbyggðarsjónarmiðum eða öðrum hagsmunum. Slíkar stjórnir byggjast á að finna lægsta samnefnarann til að ná sátt en ekki að velja hæfasta fagfólk sem völ er á. Það er því mikið undir að klippa á þessa þróun sem allra fyrst.

Framundan eru erfiðir mánuðir í efnahagslífinu. Til lengri tíma litið er myndin hins vegar björt. Þrátt fyrir að umfangsmikil fjármálastarfsemi verði ekki lengur ein af grunnstoðum atvinnulífsins búum við aftur á móti svo vel að eiga auðlindir sem munu skapa okkur miklar tekjur. Við höfum öflugan sjávarútveg, miklar orkuauðlindir og orkufrekan iðnað. Landið sjálft er fallegt og laðar til sín mikið af ferðamönnum. Allt þetta mun útvega okkur miklar tekjur og stöðugleika í hagkerfinu.

Við erum vel menntuð þjóð – háskólanemendum hefur fjölgað úr 7.500 upp í 20.000 á um tíu árum. Þetta þýðir að við eigum mikið af hæfu, skapandi og hugmyndaríku fólki sem getur búið til nýja valkosti í atvinnulífinu. Það er því engin ástæða til svartsýni eða að gera ráð fyrir því að hér muni aldrei framar geta þrifist öflugt atvinnulíf á ný. Fái hins vegar ríkisvæðing atvinnulífsins að grassera og skjóta rótum mun sá vöxtur verði mun hægari en ella.

Í þeim hugmyndafræðilegum átökum sem urðu um hlutverk hins opinbera í atvinnulífinu varð sú skoðun ofan á að trúa á einstaklinginn og frumkvæði hans frekar en skipulagshyggju og miðstýringu. Þau áföll sem íslenskt efnahagslíf hefur gengið í gegnum breytir ekki þeim grundvallaratriðum að ríkið á ekki að sjá um skipulagningu atvinnulífsins. Sá munur er á réttlátu og ranglátu kerfi að hið réttláta þolir ósigra og áföll.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.