Blessað erlenda bergið

Nýlega var sagt í fréttum að nokkrir karlmenn „af erlendu bergi brotnir“ hafi haft fé af verlsunnarfólki með gamalgrónu seðlaskiptingarbragði. Æi, kommon! Getum við ekki bara sagt að þeir hafi verið útlendingar?

Nýlega var sagt í fréttum að nokkrir karlmenn „af erlendu bergi brotnir“ hafi haft fé af verlsunnarfólki með gamalgrónu seðlaskiptingarbragði. Æi, kommon! Getum við ekki bara sagt að þeir hafi verið útlendingar?

Ég er Íslendingur. Ég er raunar líka Pólverji. Ég fæddist bara sem Pólverji en varð Íslendingur síðar. Það gerir mig að pólskættuðum Íslendingi. Með fallegu myndmáli má segja að ég sé að af pólsku bergi brotinn, og ef menn vita ekki nákvæmar þá má geta menn vissulega sagt að ég sé af erlendu bergi brotinn enda er Pólland ekki Ísland heldur útland. Og ekkert að því.

Eitt sinn var þetta ekki svona flókið. Við höfðum annars vegar Íslendinga og hins vegar útlendinga. En svo fór að birtast fólk sem gruflaði í þessari flokkun. Það væri til dæmis fremur asnalegt að kalla undirritaðan útlending, en það segir heldur ekki alla sögu að kalla hann Íslending, án fótnótu. Upp úr þessari þörf spruttu upp hugtök á borð við nýr Íslendingur eða Íslendingur af erlendum uppruna, og raunar nokkur fleiri.

Nú virðast hins vegar æ fleiri detta niður á þá skoðun að orð á eins og útlendingur, og jafnvel Pólverji, séu beinlínis níðyrði. Þannig að jafnvel þegar einhverjir glæpatúristar án nokkurra tengsla við Ísland láta til skarar skríða í íslenskum sjoppun þá tala menn um eitthvað erlent berg í stað þess að tala bara um útlendinga. En ef þetta á að vera hin nýja orðnotkun fjölmiðla og almennings hvað þýðir það fyrir okkur, Íslendingana með erlendan bakgrunn? Eigum við þá aftur að deila hugtaki með einhverjum algjörum amatörum í Íslendingsveru?

Þó að hið ágæta orð útlendingur sé smám saman að öðlast neikvæða merkingu þýðir ekki að hætta notkun þess og byrja eyðileggja ný orð í staðinn. Ef ímynd einhvers er vond þá skemmist hvert orð sem á það er klínt. Besta leiðin til að bregðast við með því að nota orðið sem oftast í, hvaða merkingu sem er. Eitt sinn þótti slæmt að vera kallaður hommi því það þótti slæmt að vera hommi. Nú þykir allt í lagi að vera hommi og þá þykir líka í lagi að segja um homma að hann sé hommi.

Það því allt í lagi að segja að einn hópur útlendinga hyggist hjóla í kringur landið, annar hópur útlendinga hafi stolið grænmeti úr görðum fólks, sá þriðji sé að mótmæla virkjun og sá fjórði sé að setja upp gjörning á Snæfellsjökli. En leyfum okkur sem höfum búið hér ögn lengur að halda blessaða erlenda berginu út fyrir okkur.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.