Eini leikurinn í stöðunni

Nú hafa Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur aftur náð saman, báðir flokkar með nýja leiðtoga í brúnni. Þó að ýmislegt í verkum fyrrum borgarstjórnarmeirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafi verið gagnrýnisvert þá var sá meirihluti einnig sá farsælasti á tímabilinu og má leiða að því líkur að svo geti orðið nú.

Nú þegar rúm tvö ár eru liðin af kjörtímabilinu hafa þrír borgarstjórnarmeirihlutar í Reykjavík sprungið. Eftir að upp úr samstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks slitnaði í október 2007 mynduðu allir flokkar utan Sjálfstæðisflokks meirihluta. Sá meirihluti sprakk eftir hundrað daga og við tók meirihluti Sjálfstæðisflokks og F-lista sem hélt í sjö mánuði.

Nú hafa Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur aftur náð saman, báðir flokkar með nýja leiðtoga í brúnni. Allar þessar sviptingar á rúmlega hálfu kjörtímabili hafa að vonum vakið reiði og vonbrigði hjá Reykvíkingum sem ætlast til meira af umbjóðendum sínum sem þeir greiddu atkvæði í maí 2006. Þó að ýmislegt í verkum borgarstjórnarmeirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafi verið gagnrýnisvert þá var sá meirihluti einnig sá farsælasti á tímabilinu og má leiða að því líkur að svo geti orðið nú.

Fráfarandi meirihluti var myndaður þegar meirihluti F-lista, Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins sprakk. Sá meirihluti, sem gaf sjálfum sér nafnið Tjarnarkvartettinn, náði ekki betri samstöðu en svo að þeim tókst ekki að setja saman málefnasamning til að vinna eftir. Enda fór það á þann veg að F-listi dró sig út og sprengdi þar með meirihlutann. Nýr meirihluti F-lista og Sjálfstæðisflokks hóf samstarf sitt á að kynna málefnasamning þar sem kosningamál F-listans voru í öndvegi auk þess sem samið var um að leiðtogi F-listans myndi sitja sem borgarstjóri helming tímabilsins fram að næstu kosningum á móti leiðtoga Sjálfstæðisflokksins.

Þó mörgum hafi þótt Sjálfstæðisflokkurinn gefa eftir of mikið í þessum samningi mátti gera ráð fyrir að fleiri mál myndu bætast við þegar fram liðu stundir. En velgengni meirihluta veltur aðallega á góðu samstarfi og trúnaði milli flokka og því miður reyndist hvorugt fyrir hendi í þessum meirihluta. Eftir allt sem gerst hefur í þessu meirihlutasamstarfi er ljóst að það voru mistök hjá borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins að mynda meirihluta með F-listanum. En um leið má ljóst vera að borginni hefði síst verið betur borgið í höndum sundurleits meirihluta fjögurra flokka sem átti það eitt sameiginlegt að vilja halda Sjálfstæðisflokknum frá völdum.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þurfa nú að taka á honum stóra sínum. Þótt útlitið nú sé bjartari en það var, er það engu að síður býsna dökkt. Hinn nýi meirihluti hefur tvo vetur til þess að rétta af kúrsinn. Á þeim tíma verða þeir að sýna borgarbúum með verkum sínum að þeir séu traustsins verðir. Árferðið í efnahagsmálum um þessar mundir hefur aftur á móti þær afleiðingar að meirihlutinn mun ekki geta boðið upp á dæmigerða eyðsluveislu að hætti sveitarstjórna. Þessi meirihluti verður dæmdur eftir því hvernig honum tekst til við fjármálastjórnina og atvinnuuppbyggingu í borginni og á vegum fyrirtækja borgarinnar. Íslenska þjóðin hefur ekki efni á því að langstærsta sveitarfélag landsins setji arðvænlegar virkjanaframkvæmdir á bið eða jafnvel afskrifi þær algerlega. Mestu skiptir þó að þau sífelldu upphlaup og óvissa sem einkennt hefur borgarstjórnin undanfarið ár sé nú að baki. Takist hinum nýja meirihluta vel til við þetta er þokkaleg útkoma úr næstu kosningum enn þá möguleg.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)