Ögmundur á sér eina ósk

Ögmundur Jónasson sagði í viðtali við Vísi að hann ætti þá ósk að frjálshyggjumenn hættu að berjast gegn birtingu álagningarskráa. Það er ótrúlegt að þetta sé aðal ósk Ögmundar, þegar það eru svo miklu betri hlutir sem hann gæti óskað sér fyrir skjólstæðinga sína.

Fjölmiðlar hafa ekki þurft að kvíða ,,gúrku“ 1. ágúst á hverju ári. Ríkið hefur tekið að sér að skemmta skrattanum með því að taka saman lista og gefa út með hverjir hafa staðið sig best í að halda uppi
samfélaginu.

SUS og fleiri hafa tekið að sér að berjast gegn þessu og birtingu álagningarskráa, enda er það ekki hlutverk ríkisins að auglýsa hvaða laun menn eru með. Í dag undrar Ögmundur sig á þessari baráttu og í frétt á Vísi.is segir:

Ögmundur Jónasson, alþingismaður og formaður BSRB, segir að lykillinn að því að koma í veg fyrir ofurlaun bankamanna og annarra sé upplýsingaflæði. … „Ég á mér þá ósk heitast að ungir frjálshyggjumenn finni sér eitthvert annað og verðugra verkefni en að vernda þessa tegund af „lítilmagna“,“ segir Ögmundur.

Það er nefnilega það, Ögmundur á þá ósk heitast að SUS láti af þessari baráttu. Það er ekkert minna en hans heitasta ósk. Maður hefði haldið að baráttumaður og formaður verkalýðsfélags sæi eitthvað sem gæti hjálpað sínum umbjóðendum meira.

Sé þessi upplýsingagjöf lykilinn að því að koma í veg fyrir ofurlaun bankamanna hefur hún gjörsamlega mistekist. Fyrir utan þann lista sem skattstjórar hafa sent frá sér á hverju ári, hafa fjölmiðlar eins og Frjáls verslun séð um að miðla til okkar á 2500 einstaklingum sem taldir eru markverðir. Það ætti ekki hafa farið fram hjá neinum hvaða laun helstu forkólfar bankakerfisins eru með. Hvernig hafa þá þessar upplýsinga komið í veg fyrir ofurlaun bankamanna?

Þvert á móti má leiða líkum að því að birting þessara upplýsinga hafi frekar kynnt undir bálinu. Það verður nefnilega ekki haldið og sleppt í þessu máli. Menn eins og Ögmundur hafa bent á eru þessar upplýsingar nauðsynlegar í verkalýðsbaráttunni, þar sem menn geta séð laun annarra í sambærilegum störfum og borið sig saman. Þetta sjá bankamenn líka og hafa getað séð hvaða ofurlaun er verið að borga í hinum bönkunum.

Það má líka spyrja sig, ef þessar upplýsingar eru svo mikilvægar af hverju þær séu svona óaðgengilegar? Hálfur mánuður á ári og bara hjá aðgengilegar hjá hverjum skattastjóra fyrir sig. Vilji vestfirsk fiskverkakona komast að því hvort hennar laun séu sambærileg við laun annarra í sömu stétt, þarf hún að gera sér ferð hringinn í kringum landið og heimsækja öll skattstjóraumdæmi landsins og hún hefur hálfan mánuð til þess. Fjölmiðlarnir hafa lítinn áhuga á að birta annað en upplýsingar um ,,þotuliðið“.

Hvernig skildi nú standa á því að Ögmundur og aðrir sem vilja verja þessar upplýsingagjöf berjist þá ekki fyrir að þessar upplýsingar verði almennilega aðgengilegar? Um leið og menn berjast fyrir því þessar upplýsingar birtast opinberlega, þá virðast menn ekki tilbúnir að breyta þá fyrirkomulaginu og koma þessu úr pukrinu. Ef þessar upplýsingar eru svona gríðarlega mikilvægar af hverju berjast menn eins og Ögmundur þá ekki fyrir því að verkakona á Vestfjörðum þurfi ekki að leggja land undir fót og geti sótt þetta allt árið um kring og það á netinu. Fyrst þetta eru svona fullkomlega eðlilegar upplýsingar ætti ekkert að vera sjálfsagðara en að ég gæti farið á netið og fengið að vita hvað Ögmundur Jónasson fékk í laun á seinasta ári.

Það er með eindæmum hvað Ögmundi virðist vera uppsigað við bankana. Skömmu fyrir kosningarnar seinasta vor skrifaði Ögmundur eftirfarandi á bloggið sitt:

,,Sú hugsun sem skrif Ólínu vekja er þessi: Með einkavæðingunni, gróðahyggjunni og braskvæðingunni hefur íslenskt samfélag breyst – eða öllu heldur, því hefur verið breytt. Eignir samfélagsins hafa verið settar í hendur nokkurra einstaklinga, sem makað hafa krókinn.
Misskipting og ranglæti þrífst og breiðir úr sér sem aldrei fyrr. Spurningin er þá eftirfarandi: Er jafnaðarsamfélaginu fórnandi fyrir 12 milljarða og nokkra stráka og stelpur í silkigöllum; þotuliðið? Eða eigum við að snúa spurningunni við: Er þotuliðinu fórnandi fyrir meiri jöfnuð og félagslegt réttlæti? Mitt svar er játandi, einnig svar Ólínu.“

Það er ótrúleg baráttuaðferð formanns í verkalýðsfélags á landinu að berjast fyrst og fremst fyrir því að kjör annarra versni en ekki að kjör eigin félagsmanna batni. Þessi tegund af jafnaðarmennsku er eins og að vera með eina löppina í heitu vatni og hina í köldu. Ágætt meðaltal og allir eiga að hafa það jafn skítt.

Latest posts by Tómas Hafliðason (see all)

Tómas Hafliðason skrifar

Höfundur hefur skrifað á Deigluna frá árinu 2002. Höfundur er verkfræðingur frá Háskóla Íslands og rekur eigið fyrirtæki.