Af hverju ekki samstarf?

Af hverju ætti Evrópusambandið ekki að vilja semja við Íslendinga um að styrkja Evrópusamstarfið með samstarfi um gjaldmiðlamál? Ef til þess kemur að breytingar á gjaldmiðlinum verði settar á dagskrá hér heima væri óskiljanlegt að ESB, sem er yfirleitt kennt við sveigjanleika, myndi þverskallast við slíka samningagerð, til þess eins að verja prinsipp í gjaldeyrismálum sem það hefur þegar vikið frá.

Grein Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra um að skjóta þriðju stoðinni undir EES-samninginn, þ.e. gjaldmiðlasamstarfi, byggir á hugmynd sem reynst hefur örþjóð eins og Íslendingum afar vel, þ.e. að tryggja stöðu okkar með samvinnu og samningum við aðrar þjóðir. Þetta getum við gert án þess að afsala okkur fullveldi landsins með því að ganga inn í stórt og umfangsmikið ríkjabandalag, líkt og Evrópusambandið, með tilheyrandi framsali á lagasetningar- og ákvörðunarvaldi á nánast öllum sviðum stjórnmálanna.

Slík breyting þyrfti að byggja á samkomulagi milli Íslands og Evrópusambandsins og ljóst er að ná þyrfti slíkri lendingu milli forystumanna beggja aðila. Þótt fá dæmi séu um slíka samninga er engin ástæða til að útiloka hann fyrirfram. Viðbrögð Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, við þessum hugmyndum í gær voru einmitt á þá leið að engin ástæða væri til að slá slíkar hugmyndir út af borðinu, þó þær kunni að virðast fjarlægar.

Einhliða upptaka og samkomulag ólíkir hlutir
Tvíhliða samkomulag um samstarf í gjaldeyrismálum er allt annað en einhliða upptaka annars gjaldmiðils. Líklegasta útfærsla slíks samkomulags er sú að gengi íslensku krónunnar yrði tengt við gengi evrunnar og Seðlabanki Evrópu yrði bakhjarl krónunnar. Með einhliða upptöku annars gjaldmiðils yrði slíkur stuðningur hins vegar ekki fyrir hendi heldur byggði upptakan alfarið á því að við myndum skipta krónum út fyrir evrur á eigin kostnað.

Eins og áður sagði þyrfti að ná sátt um þessa leið og samkomulagi við Evrópusambandið. Í því sambandi þurfum við ekki að óttast stífni eða ósveigjanleika af hálfu sambandsins sem hefur margoft sýnt lipurð í samningum. Þegar Lissabon-sáttmálinn var felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu á Írlandi í síðasta mánuði var til að mynda á það bent af hálfu ESB-sinna sú niðurstaða væri ekki sérstakt tiltökumál fyrir sambandið þar sem það væri sveigjanlegt og hefði oft unnið sig út úr aðstæðum sem þessum. Egill Helgason vísaði t.d. á heimasíðu sinni í slóvenska heimspekinginn Slavoj Zizek, sem sagði að samningaviðræður væru sjálft inntak ESB. „Það er ekki statískt, heldur í hægum fluxus.“

Nú þegar hugmyndir hafa komið fram um að gera samkomulag við Evrópusambandið á grundvelli EES-samningsins um samstarf varðandi gjaldmiðilinn kveður við nokkuð annan tón – samkvæmt viðbrögðum ýmissa aðila hér heima og evrópskra embættismanna býður Evrópusambandið ekki upp á neina sérmeðferð!

Stjórnmál snúast um að skapa
Að vísu var kannski ekki við öðru að búast frá embættismönnum Evrópusambandsins en að skapandi lausnir eða nýir möguleikar væru útilokaðir. Embættismenn eru bundnir við það sem fyrir hendi er og svara þannig en þeir skapa ekki eða móta nýjan veruleika.

En er alveg víst að við þurfum að skapa þennan nýja veruleika? Svo er ekki. Hins vegar er mikilvægt fyrir okkur að skoða alla kosti í gjaldmiðlamálum. Krónan hefur verið á miklu flökti undanfarna mánuði sem skapar erfið skilyrði í atvinnulífinu. Stærsta verkefnið í stjórn efnahagsmála um þessar mundir er að ná jafnvægi í hagkerfinu á nýjan leik og með því mun staða íslensku krónunnar breytast mjög til batnaðar. Engu að síður er ljóst að það er ákveðnum erfiðleikum háð fyrir örþjóð eins og Ísland að reka eigin gjaldmiðil með flotgengi í opnu hagkerfi.

Óvissa um framtíð Evrópusambandsins
Það skerpir umræðuna að hafa raunhæfa kosti til að skoða. Þrátt fyrir að sú skoðun sé útbreidd að íslenska krónan gagnist okkur ekki nægilega vel, er ljóst að mörgum þætti það of dýru verði keypt að ganga inn í Evrópusambandið til þess eins að fá að taka upp evru. Þetta á sérstaklega við þegar alla helstu kosti þess að vera aðilar að stóru myntsamstarfi mætti fá með tvíhliða samkomulagi um að tengja gengi krónunnar við gengi evrunnar. Því má heldur ekki gleyma að slíkt samkomulag gæti verið Evrópusambandinu að skapi. Eins og áður sagði var stjórnarskrá sambandsins felld af Írum í júní og nokkur óvissa er uppi um framtíðarþróun sambandsins, m.a. hvað varðar stækkunarferli og ný aðildarríki. Tvíhliða samningar um frekari þróun Evrópusamrunans eru því alls ekki jafnfjarlægur möguleiki og þeir embættismenn sambandsins, sem íslenskar fréttastofur hafa náð tali af, telja í fyrstu.

Því má heldur ekki gleyma að gjaldmiðlastefna og samstarf ESB núna er langt frá því að vera einhvers konar órjúfanleg einsleit heild sem hugmyndir íslenska dómsmálaráðherrans myndu stefna í voða. Bretar eru enn með pundið, Svíar enn með sænsku krónuna og Danir enn með þá dönsku (sem tengir sig raunar við gengi evrunnar). Auk þess notast ýmis evrópsk smáríki við evruna án þess þó að vera aðilar að Evrópusambandinu. Þá má ekki gleyma því að bæði Noreg og Íslandi var veitt aðild að Schengen-samstarfinu og mikil áhrif í nefndum og ákvarðanatökuferli samstarfsins, þrátt fyrir að vera utan ESB.

Spurningunni mætti því auðvitað snúa við: Af hverju ætti ESB ekki að vilja dýpka samstarfið við Ísland með tvíhliða samningi um gjaldeyrissamstarf?

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.