Óþarfur ótti

Í nýrri könnun Gallup kemur fram að 40% Íslendinga hafi jákvætt viðhorft til fjölgunar útlendinga en um þriðjungur neikvætt. Neikvæðasta afstöðu hefur fólk á „besta aldri“ en af fólki á aldrinum 45 -54 ára hefur einungis rúmur fjórðungur jákvætt viðhorf til fjölgunar útlendinga. Þetta eru niðurstöður sem vekja nokkrar áhyggjur.

Það eru merkilegar niðurstöður sem fást úr nýjustu skoðanakönnunum Gallup varðandi viðhorf Íslendinga til erlendra ríkisborgara. Könnunin sýnir, svo ekki verður um villst, að töluverðrar andstöðu gætir hjá Íslendingum varðandi aukinn fjölda innflytjenda.

Í frétt á mbl.is í morgun er frá því greint að mestur stuðningur við fjölgun útlendinga er meðal yngsta aldurshópsins, þ.e. 16-24 ára, en þó er yfir helmingur þess hóps neikvæður gagnvart þeirri þróun. Einungis 27%, eða rétt rúmur fjórðungur, fólks á aldrinum 45-54 segist vera jákvæður gagnvart fjölgun útlendinga.

Þessar niðurstöður eru ekki góð tíðindi fyrir þá sem trúa því að frelsi fólks til búsetu sé einn af hornsteinum mannréttinda. Þær bera því vitni að Íslendingar líti margir enn svo á að fósturjörðin sé sérstök eign þeirra, sem eru svo lánsamir að hafa fæðst hér en ekki í landi þar sem fátækt, styrjaldir og ógnarstjórn eru ríkjandi.

Fæðingarstaður fólks ræður miklu um möguleika þess til þess að lifa mannsæmandi lífi og láta drauma sína rætast. Það er hins vegar fátt sem er tilviljunarkenndara heldur en einmitt hvar í heiminum fólk fæðist. Ef við vísum frá endurholdgunarkenningum þá má gera ráð fyrir því að einstaklingur sem fæðist inn í gott umhverfi með fjölbreyttum tækifærum, eins og Ísland, hafi í raun ekkert frekar unnið til þess heldur en sá sem fæðist inn í ömurlegt umhverfi með fáum tækifærum, hungri og stríðsátökum. Til slíkrar ógæfu hefur ekkert barn unnið.

Þeir einstaklingar sem reyna að bæta stöðu sína í lífinu með því að flytjast á milli staða og skapa sér framtíð, eins og Ingólfur Arnarson gerði forðum, sýna með því aðdáunarverða sjálfsbjargarviðleitni og hugrekki. Við slíkum einstaklingum ættum við Íslendingar að taka á móti opnum örmum og gefa þeim tækifæri á að gerast hluti af því samfélagi sem hér hefur verið byggt upp þannig að börn þeirra og afkomendur eigi möguleika á jafnbjartri framtíð og börn þeirra sem fyrir eru.

Það er ekki aðeins þröngsýni að verstu sort að vilja ekki leyfa útlendingum að flytja til Íslands. Það er beinlínis siðferðislega rangt að meina fólki, sem fyrir tilviljun fæðist inn í vonlaust umhverfi, aðgang að landi sem býður upp á tækfifæri til betra lífs.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.