Ísbjarnarblús

Á rétt rúmum tveimur vikum hafa tveir ísbirnir gengið á land á norðanverðu Íslandi en síðasta skráða heimsóknin ef heimsókn má kallast var árið 1993. Þá sáu sjómenn ísbjörn á sundi rétt norður af Horni á Vestfjörðum og í tilraun sinni við að bjarga dýrinu hengdu þeir það.

Á rétt rúmum tveimur vikum hafa tveir ísbirnir gengið á land á norðanverðu Íslandi, en langt er síðan við Íslendingar höfum fengið heimsókn frá þessu fágæta dýri. Síðasta skráða heimsóknin ef heimsókn má kallast var árið 1993, en þá sáu sjómenn ísbjörn á sundi rétt norður af Horni á Vestfjörðum. Í tilraun sinni við að bjarga dýrinu og hífa það um borð í bátinn með kaðli, hengdu þeir dýrið þannig að það drapst við björgunartilraunina. Drápið á ísbirninum olli miklum deildum á sínum tíma og var dýrið gert upptækt. Það er því óhætt að segja að björgunartilraunir okkar Íslendinga á þessu fágæta dýri í útrýmingarhættu hafi ekki verið farsælar og dýraverndunarsinnum ekki til mikillar ánægju.

Það hefur á margan hátt verið spennandi og áhugavert að fylgjast með komu þessara dýra hingað til lands, enda ekki á hverjum degi sem menn komast í návígi við hvítabirni hér á landi. Þessar heimsóknir hafa algerlega orðið til þess að bjarga fréttaþyrstum fréttamönnum frá grænu gúrku júnímánaðar. Þessi tvö dýr hafa orðið uppspretta tuga ef ekki hundraða frétta sem við fréttaáhugamenn höfum fengið að njóta beint í æð ýmist í gegnum tölvu-eða sjónvarpsskjáinn.

Jafnframt hefur verið áhugavert að fylgjast viðbrögðum stjórnvalda við uppákomunni, en augljóslega varð þessi óvenjulega og sjaldgæfa heimsókn til þess að setja umhverfisráðherra, Þórunni Sveinbjarnardóttur aðeins út af laginu. Eftir drápið á fyrra dýrinu sem samþykkt var sérstaklega í umhverfisráðuneytinu og mikið var gagnrýnt af hinum ýmsu dýraverndunarsamtökum og fyrrum kvikmyndastjörnum, var rætt um að gerð yrði sérstök viðbragðsáætlun við komu slíkra dýra hingað til lands.

Nú í seinni lotunni var aðferðarfræðin við drápið örlítið önnur en sú fyrri þar sem það var talið hafa haft slæm áhrif á ímynd Íslands erlendis. Í þetta skiptið var því nálgunin önnur, umhverfisráðherra flaug norður í land til þess að fylgjast með aðgerðum og var í beinu sambandi við fjölmiðla, sérstökum villidýrasérfræðingi var flogið frá Danmörku ásamt syni sínum til þess að reyna að deyfa dýrið, sérstöku búri var stillt upp fyrir björninn, dýragarðsstjórinn í Danmörku var á tánum og íhugaði móttökuathöfn fyrir ísbjörninn og varðskipið var mætt á staðinn – en allt kom fyrir ekki, viðbragðsáætlunin var ekki tilbúin, bangsi var ekki á því að gefast auðveldlega upp þannig að niðurstaðan var sú að fella varð björninn – hann var skotinn líkt og fyrri ísbjörninn og líf Norðlendinga aftur sett í fyrsta forgang fram fyrir dýraverndunarsjónarmið.

Þrátt fyrir að ísbirnir séu glæsileg og falleg dýr sem við viljum að sjálfsögðu varðveita og vernda má ekki gleyma að þetta er stærsta rándýr sem fyrirfinnst á landi. Hvítabirnir geta verið allt að 3 metrar að lengd og 800 kíló og eitt af helstu einkennum dýrsins er að það getur hlaupið og synt mjög hratt og haldið hraðanum í dágóðan tíma, en úthaldið er einmitt þeirra helsti styrkur. Manneskjan á því lítinn sem engan séns ef kemur til átaka við ísbjörn.

Latest posts by Erla Ósk Ásgeirsdóttir (see all)

Erla Ósk Ásgeirsdóttir skrifar

Erla hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2003.