Ófagleg heimsókn ísbjarnar

Ísbjörninn víðförli í Skagafirðinum gerði ekki boð á undan sér, heimsóknin fór ekki í grenndarkynningu og þótt fagleg viðbragðsáætlun hafi ekki verið til staðar mætti hann bara. Lögreglan á staðnum varð því að reiða sig á óvin allra bjúrókrata og opinberra fagsérfræðinga, eigið hyggjuvit og dómgreind.

Fátt virðist hafa vakið upp sterkari tilfinningar meðal landsmanna síðustu misserin en fréttir af dýrum. Á meðan stríð hefur staðið yfir í Írak og mörg hundruð milljónir manna lifa undir fátæktarmörkum í heiminum, hefur fjörutíu hrefnum, víðförlum ísbirni og hundinum Lúkasi tekist að skipta landsmönnum upp í andstæðar og hatrammar fylkingar.

Hin óvænta heimsókn ísbjarnarins í Skagafjörð um daginn er nýjasti átakapunkturinn í þessu umróti. Heimsókn ísbjarnarins og afdrif hans hefur vakið upp mikil viðbrögð og miðað við lestur bloggsíðna og viðtöl fréttamanna við „manninn á götunni“ hefur atburðarrásin nánast leitt til uppgjörs milli tveggja íslenskra menningarheima sem vanda hvorum öðrum ekki kveðjurnar.

Fylking gagnrýnenda heldur því fram að enga nauðsyn hafi borið til að aflífa björninn og að skotgleði einhverra sveitamanna og draumar þeirra um að eiga mynd af sér yfir blóðugu ísbjarnarhræi hafi ráðið för. Þessum fullyrðingum er hins vegar vísað rakleiðis til föðurhúsanna af hinni fylkingunni sem segir augljóst að skjóta hafi þurft björninn og að soya-latte spekingarnir í 101 geti troðið þessari gagnrýni beint ofan í bláu endurvinnslutunnuna sína.

En ævintýri ísbjarnarins sýna fleiri hliðar mannlífsins hér á landi en gargandi bloggara. Þetta sýnir ágætlega og minnir okkur á að nútímanum eru ákveðin takmörk sett. Sama hversu vel við teljum okkur vera undirbúin fyrir hið óvænta og sama hversu margar faglegar viðbragðsáætlanir eru unnar af sérfræðingum, stofnunum og teymum fagaðila þá koma annað veifið upp aðstæður sem kalla á að fólk verði að treysta eigin dómgreind.

Það er ekki skrýtið að dýrin kalli stundum fram aðstæður sem þessar. Þau hafa þann eiginleika að bara mæta allt í einu eins og ekkert sé sjálfsagðara. Dýrin ráðfæra sig ekki fyrst við viðkomandi stjórnvöld, t.d. um staðarval eða komutíma og áform þeirra rata sjaldnast í grenndarkynningu.

Lögreglumaðurinn sem kom fyrstur á staðinn á þriðjudaginn þurfti því að takast á við sérstakar aðstæður sem hann gat ekki undirbúið sig fyrir. Hann gat ekki stuðst við handbók um hvernig ætti að leysa úr málinu heldur varð hann að bregðast við þeirri stöðu að vera með stórt rándýr sem gat gert annað af tvennu; farið að ráðast að sístækkandi hópi fólks á svæðinu eða vafra inn í þokuna og týnast sjónum. Rétt deyfilyf voru ekki tiltæk og eftir að rætt hafði verið við umhverfisráðuneytið og fleiri aðila, var tekin ákvörðun um að skjóta björninn. Þetta mat er að sjálfsögðu ekki hafið yfir vafa en það virðist skynsamlegt. Atvik sem þessi minna á að reglur og áætlanir um hitt og þetta munu aldrei koma í stað hyggjuvits þeirra sem eru í eldlínunni hverju sinni.

Eftir þetta mál er hins vegar ljóst að einn hópur hefur ekki sagt sitt síðasta. Sérfræðingaveldi stjórnsýslunnar er nefnilega komið á stjá og þeir eru með skilaboð til þeirra ísbjarna sem eru að velta því fyrir sér að trítla yfir til landsins á næstunni: Næst þegar einhver ykkar kemur verður það ekki ringluð lögga og ein refaskytta á stangli sem tekur á móti ykkur, heldur þétt skrifuð, fagleg og nútímaleg viðbragðs- og samhæfingaráætlun. Og þið verðið ekki í hópi umsagnaraðila…

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.