Ríkið okrar á nettónlist

Ríkið innheimtir 24,5% virðisaukaskatt af tónlist sem er seld á netinu en 7% af annari tónlist. Þessi mismunun kemur sér afar illa fyrir þá sem selja tónlist á netinu, eykur ólöglegt niðurhald og dregur úr samkeppni.

Sala tónlistar á netinu hefur aukist jafnt og þétt á undanförnum árum, Íslendingar hafa verið duglegir að sækja sér tónlist á netinu bæði með því að kaupa hana og með því að sækja ókeypis á þeim fjölmörgu stöðum sem hún býðst löglega og ólöglega.

Í ljósi þeirra breytinga sem hafa orðið undanfarin ár kemur á óvart það ósamræmi sem er í skattlagningu á tónlist á netinu og þegar farið er í búð og verslað. Tónlist á kassettu, geisladiskum eða á plötum ber 7% virðisaukaskatt en sé hún keypt á netinu ber hún 24,5% virðisaukaskatt.

Þetta þýðir að útgefandi sem selur lagið sitt á 99 krónur greiðir 6,5 krónur til Ríkisins ef hann setur tónlistina á geisladisk, en 19,5 krónur ef hann selur hana á netinu. Þetta er 13 krónu munur á hverju lagi eða 130 krónur sé keypt heil plata með 10 lögum. Það þýðir að það er í raun dýrara að selja tónlistina á netinu, því pakkningar og brennsla á diska er oftast ódýrari en 130 krónur per einingu.

Á netinu gilda nokkuð önnur lögmál en þegar verið er að selja geisladiska í umbúðum. Netverslun er að keppa við ókeypis tónlist en eins og allir vita er hægt að finna nánast alla tónlist ókeypis á netinu. Það er því verið að höfða til samvisku einstaklinga að kaupa tónlist frekar en að stela henni. Hvort sem mönnum líkar betur eða verr er stríðið við ókeypis niðurhal löngu tapað. Ein leiðin til að fá fólk til að kaupa tónlist frekar er að bjóða hana á nægjanlega góðu verði, þannig að það sé raunverulegur valmöguleiki hjá þeim sem ætlar að sækja sér tónlist.

Það skýtur því sannarlega skökku við að íslenska ríkið skuli skekkja þessa samkeppni á þann máta sem það gerir núna, fyrst tónlist er á annað borð í lægra skattþrepi er eðlilegt að öll tónlist sé í því þrepi.

Um leið og bent er á þetta er rétt að benda á tæplega tveggja ára gamla ábendingu héðan af Deiglunni, en það er skattlagning á óbrenndum geisladiskum. Á sama tíma og breytingar hafa orðið á neyslu á tónlist, er varla orðið til sá aðili sem brennir tónlist á geisladisk. Það er því fyrir löngu orðið tímabært að afnema gjaldlagningu á óbrenndum geisladiskum til handa tónlistarmönnum.

Latest posts by Tómas Hafliðason (see all)

Tómas Hafliðason skrifar

Höfundur hefur skrifað á Deigluna frá árinu 2002. Höfundur er verkfræðingur frá Háskóla Íslands og rekur eigið fyrirtæki.