Fjölskyldur framtíðarinnar

Þjóðin veit að á vorin dregur til tíðinda á Alþingi og málin sem hafa gerjast í þinginu svo mánuðum skipti ef ekki árum eru afgreidd, samþykkt eða felld. Það var því mikið gleðiefni að á síðasta degi þingsins samþykkti Alþingi tvö réttlætismál sem lengi hafa valdið mörgum Íslendingum bæði sálarkvölum og tilfinningalegri útskúfun.

Einn heitan sumardag í London í júlí 2005, daginn eftir sprengingarnar í neðarjarðarlestunum, tók ég far með leigubíl í íslenska sendiráðið til að sækja vegabréf fyrir fjögurra vikna gamlan son minn. Ég átti athyglisvert samtal við leigubílstjórann, sem var múslimi frá Pakistan. Eitthvað fannst honum ég óheppin að vera einstæð móðir og tjáði hann mér að sér þættu viðhorf til einstæðra mæðra allt of frjálslynd á Bretlandi og í hans heimalandi væri það ekki góð staða að vera einstæð móðir. Hann missti því fljótt allt álit á Íslandi þegar ég sagði honum stollt að það þætti afar eðlilegt að vera einstæð móðir á Íslandi og að einstæðar mæður fengu ýmsan stuðning sem ekki væri í boði á Bretlandi.

Þrátt fyrir að einstæðar mæður hafi löngum verið samþykktar í íslensku samfélagi þá þótti það lengi óeðlilegt að leyfa þeim að stofna til slíkra fjölskyldna með tæknifrjóvgun og án samræðis við karlmann. Einstæðar konur hafa þurft að leita til nágrannalandanna eins og Finnlands og Danmerkur sem heimila tæknifróvgun, óski þær að ala upp barn á eigin spýtur. Nú hefur þetta óréttlæti verið leiðrétt.

Alþingi samþykkti á síðasta degi þingsins fyrir sumarfrí tvö mikil réttlætismál þar á meðal frumvarp heilbrigðisráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, um að einhleypar konur geti gengist undir tæknifrjóvgun til þess að eignast barn. Einnig var samþykkt frumvarp forsætisráðherra, Geirs H. Haarde, um breytingar á lögum um staðfesta samvist sem veita trúfélögum heimild til að staðfesta samvistir samkynhneigðra.

Báðar þessar breytingar á íslenskum lögum eru löngu tímabærar og útrýma miklu óréttlæti gagnvart einstaklingum sem vegna stöðu sinnar eða kynhneigðar hafa ekki haft jafnan rétt fyrir lögunum og aðrir Íslendingar til þessa.

Fjölskyldumynstur hafa breyst mikið síðustu áratugi hér á landi. Það er ekki jafn sjálfgefið að ganga í hjónaband og áður, hjónaskilnaðir eru nú tíðari, flestum þykir eðlilegt að eiga fleiri en einn maka yfir ævina og samsettar fjölskyldur, fjölskyldur einstæðra foreldra og samkynheigðra eru allt fjölskylduform sem við erum orðin vön og höfum tekið í sátt.

Þessi fjölskyldumynstur eru þó alls ekkert ný af nálinni en á síðustu áratugum hafa viðhorf almennings til frjálslyndara fjölskylduforms breyst hratt og því þykir nú sjálfsagt að þessi skref séu stigin til að tryggja réttindi þessara hópa til að skapa fjölskyldur framtíðarinnar.

Það er reglulegt ánægjuefni að núverandi ríkisstjórn Sjáflstæðisflokks og Samfylkingar skuli stíga þessi mikilvægu skref í að veita einstaklingum aukið frelsi til að ráða sínum fjölskylduhögum. Það er vonandi að Íslendingar geti verið öðrum þjóðum fyrirmynd í þessum málaflokkum og jafnvel breytt viðhorfum leigubílstjóra frá fjarlægum löndum.

Latest posts by Soffía Kristín Þórðardóttir (see all)

Soffía Kristín Þórðardóttir skrifar

Soffía hóf skrif á Deigluna í apríl 2001.