Ekkert að óttast.. eða allt?

Með hækkandi sól fjölgar þeim sem leggja leið sína í miðbæ Reykjavíkur til að kíkja út á lífið um helgar. Sumrinu fylgir líka ávallt umræða um hið meinta skelfilega ástand í miðbænum um helgar. En er ástandið eins slæmt og stundum mætti ætla af þeim fréttum sem við heyrum?

Með hækkandi sól fjölgar þeim sem leggja leið sína í miðbæ Reykjavíkur til að kíkja út á lífið um helgar. Sumrinu fylgir líka ávallt umræða um hið meinta skelfilega ástand í miðbænum um helgar. En er ástandið eins slæmt og stundum mætti ætla af þeim fréttum sem við heyrum?

Vald fjölmiðla er sterkt og vegur þungt í viðhorfum fólks til hinna ýmsu málefna. Það er því eðlilegt að ætla að viðhorf fólks til afbrota á Íslandi mótist að miklu leyti af því sem fram kemur í fjölmiðlum. Í rannsókn frá árinu 2005 kom fram að mikill meirihluti svarenda fékk upplýsingar um afbrot annað hvort frá fjölmiðlum (68%), eða úr almennri umfjöllun og umræðu í fjölmiðlum (23%). Einungis tæplega tvö prósent kynntu sér þessar upplýsingar sjálf, t.d. úr ársskýrslum lögreglu (Rannveig Þórisdóttir, Helgi Gunnlaugsson og Vilborg Magnúsdóttir, 2005).

Áðurnefnd rannsókn var hluti af stærri alþjóðlegri rannsókn (International Crime Victims survey) sem hefur verið endurtekin nokkrum sinnum, en þetta var í fyrsta skipti sem Ísland tók þátt. Þessar alþjóðlegu rannsóknir hafa gefið ýmsar forvitnilegar niðurstöður, en þær sýna t.d. að ungt fólk er líklegra en eldra fólk til að verða fyrir afbrotum, ógiftir eru líklegri en giftir til að verða fyrir afbrotum og einnig verða efnameiri einstaklingar síður fyrir afbrotum en þeir sem eru efnaminni. Þær sýna einnig að ótti fólks við að verða þolendur afbrota getur sagt til um viðhorf fólks til afbrota almennt og getur haft áhrif á líkur á því að verða þolandi afbrota.

Ótti fólks við afbrot getur varið fólk gegn því að verða þolendur afbrota þar sem fólk heldur sig fjarri þeim aðilum og þeim stöðum þar sem líkur eru á að afbrot gæti átt sér stað. Aftur á móti getur óttinn hins vegar orðið fólki til trafala og hamlað því í daglegu lífi. Fólk sem er sjúklega hrætt við að verða þolendur afbrota heldur sig heima og dregur sig út úr þeim aðstæðum þar sem það telur líklegt að eitthvað geti komið fyrir. Einnig koma sumir sér upp miklum öryggisbúnaði heima fyrir sem oft getur verið kostnaðarsamt og fyrirhafnarmikið.

Í íslensku rannsókninni frá 2005 kom fram að fólk telur miðbæ Reykjavíkur hættulegasta staðinn á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega um helgar. Þrátt fyrir það eru alls ekki flest afbrot sem verða þar, heldur í öðrum hverfum borgarinnar. Þessi misskilningur fólks er líklegast mikið til kominn vegna frétta og umfjöllunar fjölmiðla um afbrot. Þar er dregin upp dökk mynd af miðbænum og afbrotum almennt. Umfjöllun fjölmiðla um afbrot gefur nefnilega oft ranga mynd af tíðni afbrota. Þannig er sjaldnast fjallað um auðgunarbrot sem eru í raun algengustu brotin, en mest er fjallað um ofbeldisbrot og kynferðisafbrot.

Umfjöllun fjölmiðla getur því kallað fram ótta hjá fólki þar sem tíðni alvarlega afbrota virðist manni vera mun meiri en hún í raun er. Þetta veldur hræðslu hjá almenningi sem svo aftur er hægt að nota í áróðurstilgangi til að telja fólki trú um að réttast sé t.d. að stytta opnunartíma skemmtistaða í miðbænum til að stemma stigu við dólgslátum, fylleríi og afbrotum í miðbænum.

Ætlunin er ekki að gera lítið úr þeim alvarlegu ofbeldis- og kynferðisbrotum sem hafa átt sér stað hér á landi, né þeim vanda sem skapast getur í miðbænum um helgar. Markmiðið er aðeins að koma því á framfæri að áhrif fjölmiðla eru mikil þegar kemur að viðhorfi okkar til afbrota og til skemmtanalífs í miðbænum. Því má ekki gleyma að langflestir sem stunda skemmtanalíf miðborgarinnar hegða sér vel og eru engum til ama. Það eru þó ávallt þessir örfáu svörtu sauðir sem koma slæmu orði á allan hópinn.

Heimild:

Rannveig Þórisdóttir, Helgi Gunnlaugsson og Vilborg Magnúsdóttir. (2005). Brotaþolar, lögreglan og öryggi borgaranna. Reykjavík. Ríkislögreglustjórinn og Háskólaútgáfan.

Latest posts by Helga Lára Haarde (see all)

Helga Lára Haarde skrifar

Helga Lára hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.