Olíu hellt á eld atvinnuleysis?

Launþegar hér á landi hafa lifað í vellystingum undanfarin ár. Atvinnuleysi hefur verið svo til ekkert og launaskrið mikið. Flestar þjóðir hafa litið til atvinnuástandsins hérna með öfundaraugum – á sama tíma og verkamannastéttir sömu landa þramma um með mótmælaskilti og veina yfir því að enga atvinnu sé að fá. Í ljósi þess að megin inntak nýgerðra kjarasamninga var einmitt að hækka lægstu laun er það út frá hagfræðinni olía á eld þess atvinnuleysisins sem líklegt er að verði vegna beinna áhrifa frá efnahagsniðursveiflunni.

Launþegar hér á landi hafa lifað í vellystingum undanfarin ár. Launaskrið hefur verið gríðarlegt, erlent vinnuafl hefur bitið á agnið og flutt til landsins í meira mæli en þekkst hefur og allir sem vettlingi hafa getað valdið hafa auðveldlega fundið sér vinnu. Atvinnuleysi hefur verið svo til ekkert eða lítið yfir einu prósenti síðustu ár. Flestar þjóðir hafa litið til atvinnuástandsins hérna með öfundaraugum – á sama tíma og verkamannastéttir sömu landa þramma um með mótmælaskilti og veina yfir því að enga atvinnu sé að fá.

Þetta lúxustímabil síðustu ára endurspeglaðist líklega hvað best í síðustu alþingiskosningum. Staðan þjóðarbúsins svo góð að kosið var um “lúxusvandamál”. Án þess að lítið sé gert úr öllum þeim ágætu málum sem komu upp á borðið í síðustu kosningum, þá verður það einfaldlega að viðurkennast að þau voru flest smámál – ef horft er til þeirra mála sem skipta máli í kosningum annarra þjóða. Erlendis kjósa þegnarnir um atvinnu og verðbólgu – að fá vinnu og geta lifað. Á Íslandi kusu menn um ókeypis skólabækur, aukna tannvernd og fagurra Ísland. Vissulega einföldun á staðreyndum en engu að síður áhugaverður samanburður.

Nú er skyndilega annar tónn í landanum. Þjóðin er fallin aftur til jarðar og á meðan á fallinu stóð fór verðbólgan upp til skýjanna.

En hvað með atvinnuleysið, getum við búist við sömu skýjaferð atvinnuleysisdraugsins og verðbólgudraugsins á næstunni? Það þarf nú líklega engan sérfræðing til að spá því að atvinnuleysi muni eitthvað aukast á næstu árum, og hefur raunar verið að fara hægt af stað undanfarið ef marka má fréttaflutning um uppsagnir og hagræðingu. Enda í fyllsta máta eðlilegt að atvinnuleysi aukist í einhverjum mæli til að ná aftur jafnvægi á vinnumarkaði. Spurningin sem við stöndum því frammi fyrir er frekar hversu mikið –heldur en hvort.

Í því ljósi er forvitnilegt að horfa með atvinnuleysisgleraugunum til nýliðinna kjarasamninga. Menn voru flestir hæstánægðir með þá og þóttu þeir nokkuð afrek – og voru það kannski á einhverjum sviðum. Megin inntak kjarasamninganna var töluverð hækkun lágmarkslauna á kostnað almennra hækkana. Alveg klárlega þörf hækkun fyrir þennan hóp, það má ekki misskilja, og pólitískt vinsæl niðurstaða fyrir samningsaðila og stjórnmálamenn. En þegar litið er til lengri tíma í ljósi vinnumarkaðshagfræðinnar er þetta slæm aðgerð fyrir einmitt þá lægst launuðu og olía á eld atvinnuleysisins.

Hagfræðin segir okkur að hækkun lægstu launa auki atvinnuleysi! Atvinnuleysið bitnar síðan oftast á þeim lægst launuðustu. Ósanngjörn en sönn staðreynd. Í einfölduðu máli má útskýra þetta á eftirfarandi hátt:

Gera má ráð fyrir því atvinnurekandi borgi laun í hlutfalli við þann hagnað sem starfsmaðurinn skapar. Hagnaðurinn er mismunur þeirra tekna sem starfsmaðurinn aflar og þeirrar upphæðar sem starfsmaðurinn kostar. Ef laun þessara lægst launuðu starfsmanna hækkar skyndilega getur það falið í sér að kostnaður á hvern starfmann fer upp fyrir heildartekjurnar sem hann skapar. Það borgar sig því ekki lengur að hafa starfsmanninn í vinnu, kostnaðurinn er meiri en tekjurnar. Atvinnurekandinn hefur því nokkra meginvalkosti í stöðunni: Kaupa tæki/tækjabúnað í stað starfsmannsins sem minnkar framleiðslukostnað, flytja framleiðsluna til annarra landa þar sem ódýrara vinnuafl er í boði, hætta starfseminni eða skila tapi og fara á endanum á hausinn. Allir þessir valkostir hafa það í för með sér að starfsmaðurinn missir vinnuna og atvinnuleysi eykst.

Í ljósi þess að megin inntak nýgerðra kjarasamninga var einmitt að hækka lægstu laun er það út frá hagfræðinni olía á eld þess atvinnuleysisins sem líklegt er að verði vegna beinna áhrifa frá efnahagsniðursveiflunni. Niðursveiflan virðist í fyrstu koma til með að bitna verst á öðrum hópi sem ekki er á lágmarkslaunum, þ.e. menntuðum starfsmönnum fjármálafyrirtækja og annarra þekkingarfyrirtækja sem þurfa að hagræða í sínum rekstri. Þar sem efnahagslægðin er að stórum hluta til komin vegna erlendra áhrifa er tiltölulega lítið sem við gátum gert í henni þó hægt hefði verið að dempa áhrifin. Við stjórnuðum hins vegar kjarasamningunum og þegar áhrifin á þessa tvo ólíka hópa vinnuafls fara saman eru horfurnar kannski ekkert alltof bjartar og spurning hvort kjarasamningarnir voru í raun jafn góðir og menn vildu vera að láta í fyrstu.

En eins og við erum vön að segja – þetta reddast!

Latest posts by Andri Heiðar Kristinsson (see all)